154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[17:05]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég ætla nú bara að koma hérna upp og taka undir með þeim sem hafa talað á undan mér. Eins og ég hef áður sagt þá er erfitt að setja sig í þá stöðu að vera gert að yfirgefa heimili sitt. Þetta er griðastaður bæði einstaklinga og fjölskyldna og hugur okkar allra er auðvitað hjá Grindvíkingum og þeim sem hefur verið gert að yfirgefa húsakynni sín. Stjórnvöld hafa brugðist vel við þessari stöðu, bæði þegar kemur að launastuðningi og svo auðvitað húsnæðismálunum eins og við erum að ræða hér. Þau eru tvíþætt. Þau eru til skamms tíma, sem þetta kannski tekur aðeins á, og svo inn í lengri framtíð. Það voru ákveðnar aðgerðir kynntar hér fyrir helgi. Ég vil bara sérstaklega nefna það og taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar og hv. þm. Guðbrands Einarssonar, að það er mikilvægt að nefndin taki þá málið til sín og ef það eru einhverjir sem falla á milli skips og bryggju í þessu, að það verði tekið á þeim málum af festu.

Mig langar rétt í lokin að hrósa hæstv. innviðaráðherra og ráðuneytinu fyrir að vinna hratt og vel í þessu máli enda málið mjög brýnt.