154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[17:06]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma hérna upp í lok umræðunnar og þakka fyrir góð orð og þakkir til þeirra sem sömdu frumvarpið. Ég tek undir það, þetta er vel gert á stuttum tíma. Hér voru einnig nokkrar spurningar sem ég ætlaði að reyna að bregðast við. Það er rétt að við þær aðstæður sem uppi eru á Íslandi í dag er auðvitað þröngur kostur á húsnæðismarkaði. Það væri hins vegar, held ég, sérkennilegt ef við værum á hverjum tíma undirbúin fyrir það að taka á móti 1% þjóðarinnar í húsnæði sem við stæðum alltaf með opið. Það væri ekki gott, held ég. En við getum líka bent á það að á síðustu sennilega allt að 20 mánuðum hefur okkur fjölgað um 1.000 manns á mánuði þannig að það eru einhver 20.000 sem hafa komið hingað, ef við miðum við að íbúar Grindavíkur séu tæplega 4.000. En það er alveg ljóst að til þess að geta komið fólki fyrir með svona stuttum fyrirvara þá þarf að nota allt húsnæði. Þess vegna er svarið við því það að það er hægt að skrá og skal skrá í leiguskrá HMS það húsnæði sem þú gerir leigusamning um, hvort sem það er herbergjaleiga, sumarbústaður eða húsnæði hugsanlega í atvinnuhúsnæði sem ekki er ætlað til hefðbundinnar búsetu, en það skal þá standast kröfur um brunavarnir, við gerum kröfu um það. Þannig að það er sannarlega verið að hleypa fólki til að gera leigusamninga um óhefðbundið íbúðarhúsnæði en fólk getur fengið stuðning við það. Það er alveg klárt.

Varðandi þau skilyrði sem hér eru sett, það var aðeins komið inn á að þau væru flókin eða of mörg, þá held ég að þau séu eins einföld og hægt er. En það væri bara áhugavert ef nefndin gæti fundið einhverja leið til þess að gera þau enn þá einfaldari. Ég held að skilyrðin séu nokkuð opin, rúm, þannig að þau séu almenn og geti tekið utan um alla. En það er líka mikilvægt, eins og hér hefur nefnt, að átta sig á því hvort einhverjir falli milli skips og bryggju og þá geti þeir til að mynda leitað til félagsþjónustunnar í Grindavíkurbæ ef svo væri.

Það var aðeins rætt um fjárhæðirnar, annars vegar hvernig þær væru til fundnar og hins vegar af hverju það væru bara fjórir flokkar, að það væri sem sagt bara fjögurra manna fjölskylda og fleiri. Rökin fyrir því eru að þetta eru annars vegar sömu stuðlar og gilda í húsnæðisbótakerfinu, það eru sem sagt margföldunarstuðlar sem þar eru notaðir. Þar hefur komið í ljós að það er ekkert mjög mikill munur á þriggja manna og fjögurra manna fjölskyldu og eiginlega enginn munur eftir fjögurra manna fjölskyldu, hvort sem þú ert í fimm eða sex manna fjölskyldu, eða mjög lítill munur alla jafna. Þess vegna er þetta gert svona, til að hafa þetta eins einfalt og hægt er.

Varðandi fjárhæðirnar sjálfar eru þær kannski ekki mjög vísindalega fengnar að öðru leyti en því að horft er til þeirra fjárhæða sem eru á markaði hér á höfuðborgarsvæðinu og reynt að átta sig á því hvaða leiga stendur einstaklingi eða tveimur eða þremur eða fjórum til boða og reynt að taka einhverjar tölur þar sem gætu þá verið einhvers staðar á því bili að þær taki til stórs hluta af þessum kostnaði. Það er auðvitað eitthvað sem nefndin þarf að skoða líka. En það er fyrst og fremst reynt að átta sig á því — ég get bara tekið sem dæmi af því að það er ekkert óalgengt að nýjar íbúðir, 60 m² íbúðir, eru kannski á 200.000 kr. og þá er stuðningur upp á 150.000 kr., 75% af verðinu og þá er það hámarkið. Það má kannski segja að þetta dugi til þess og þessir stuðlar, eins og þeir hafa nýst í húsnæðisbótakerfinu, hafa þá nýst til að takast á við raunverulegar hækkanir frá einum upp í tvo og tvo til þrjá og fjóra og síðan er lítill munur eftir það.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta séu helstu spurningarnar sem hér hafa komið fram. Að öðru leyti lýsi ég vilja mínum og ráðuneytisins til að vinna með nefndinni eins vel og hægt er. Það er mikilvægt að fara vel yfir þetta en það er líka mikilvægt að klára þetta hratt og vel. Það skiptir máli, held ég, að þá hefur löggjafinn tekið utan um afkomuna, eins og við kláruðum hér í gær, varðandi húsnæðisstuðning eða þennan viðbótarstuðning til sama tíma, út febrúar. Við vitum auðvitað ekki hvað gerist, við vonum auðvitað öll hið besta og margt jákvætt hefur skilað sér á síðustu dögum. Síðan höfum við þessu til viðbótar verið að reyna að tryggja aukið framboð af húsnæði með aðgerðum sem við höfum fengið leigufélagið Bríeti til að hjálpa okkur við, sem starfar hjá HMS, og erum einnig í samstarfi við leigufélagið Bjarg.