154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:27]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um miðhálendið í þessari landsskipulagsstefnu og hvaða stefna sé þar. Ég held að hún sé bara býsna skýr og ágæt. Það er fjallað um afmörkunina í landsskipulagsstefnu. Hún er miðuð við afmörkun miðhálendisins eins og hún var skilgreind í landsskipulagsstefnu 2015–2026 og þar áður í svæðisskipulagi miðhálendis Íslands frá 2015. Línan hefur þar af leiðandi ekkert breyst. Það kemur þingmönnum væntanlega ekki á óvart að það sé ekki fjallað um að búa til einn þjóðgarð á miðhálendi Íslands þar sem það var ekki í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, hvað sem hv. þingmanni finnst um þá stefnu. Hér í þessari landsskipulagsstefnu er m.a. fjallað um orkuskipti í samgöngum, til að mynda á miðhálendinu, til að tryggja ákveðið aðgengi fyrir alla en einmitt líka til að tryggja að það sé ekki allt of mikil umferð um miðhálendið þar sem við viljum líka vernda okkar óbyggðu víðerni og tryggja ákveðna hluti. Hér er fjallað um hefðbundin not, beitarrétt, ásókn ferðaþjónustu og mikilvægi þess hvernig við tökumst á við þær áskoranir sem þar eru. Ég held því að leiðbeiningar landsskipulagsstefnunnar til sveitarfélaganna sem eru á mörkum þessarar línu sem ég var að lýsa séu nokkuð skýrar og einnig er í stefnunni sjálfri m.a. fjallað um svæðisskipulag suðursvæðisins sem á að afmarka ákveðna stefnu um uppbyggingu. Í landsskipulagsstefnu er auðvitað fjallað um hálendismiðstöðvar og aðra flokkun á þjónustu í þremur mismunandi flokkum og þeir staðir taldir upp. Ég held því að það sé ekkert sem ætti að koma hv. þingmanni á óvart í stefnunni.