154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[18:24]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gaman að sjá þetta plagg fram komið. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir í sinni ræðu þá var lögð hér fram fyrir líklega tveimur löggjafarþingum síðan tillaga að viðaukum sem ekki náði fram að ganga. Ég sé ekki betur við hraðlestur og yfirferð á þessari tillögu sem við ræðum hér í dag að margt af því sem hafði verið unnið í mjög ítarlegri og fínni vinnu, m.a. í heimsfaraldri, og það var gaman að fylgjast með Skipulagsstofnun standa sig vel í að ná utan um þá vinnu í ljósi stöðunnar, að geta unnið frekari tillögur þar sem áherslurnar voru landslag, lýðheilsa og loftslagsmál — ég sé ekki betur en að margar af þeim tillögum sem komu fram í því samhengi, og það held ég að hafi komið fram í ræðu hæstv. ráðherra — hafi ratað inn í þetta plagg. (Gripið fram í.) Það er rétt, segir hæstv. ráðherra hér við hliðina á mér. Það er enda gott að nýta góða vinnu og koma henni áfram. Þar er vel farið með opinbert fé.

Það sem mig langaði að undirstrika hér með því að koma stuttlega upp í ræðu er mikilvægi þessa plaggs sem landsskipulagsstefna er, sem hefur núna á tæplega tíu ára tímabili sannað sig sem skýrt leiðarljós í vinnu skipulagsyfirvalda vítt og breitt um landið. Ég hjó eftir því að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson velti þeirri spurningu upp hvort plaggið eða stefnan sem slík gæti verið íþyngjandi fyrir smærri sveitarfélög. Það kann vel að vera, ekki get ég svarað því hér, en engu að síður held ég að markmiðið með þessari stóru heildrænu sýn sé mikilvægari en svo að við gefum einhverjar undanþágur frá því eða afslætti, frekar verði reynt að veita minni sveitarfélögum stuðning til þess að fást við og takast á við verkefnið.

Í plagginu er komið inn á mörg áhugaverð atriði sem vert er að tína til og lista upp í plaggi eins og landsskipulagsstefnu. Ég get nefnt þar til að mynda áherslur um vernd líffræðilegs fjölbreytileika sem er eitt af lykilviðfangsefnunum í þessari tillögu. Það væri áhugavert að kanna það þegar manni gefst svigrúm til hversu margar þjóðir hafa gert það í ljós aukinnar vigtar í rauninni og mikilvægis verndar líffræðilegs fjölbreytileika og þá endurheimtar í leiðinni þar sem maðurinn hefur sannarlega gengið mjög freklega á gæði. Við erum ekkert undanskilin því hér á Íslandi. Við búum reyndar svo vel að 43% af síðustu ósnortnu víðernum Evrópu er öll að finna á Íslandi og hvergi annars staðar. Það eru verðmæti, rétt eins og sum okkar sjá verðmæti í því að hægt er að brjóta landið frekar og nýta það. Náttúran er jú undirstaða allrar uppbyggingar, þ.e. það hvernig vatnsfallið liggur, hvernig vindurinn blæs eða hvar jarðvarmann er að finna ræður því hvar við getum hugsað okkur að ráðast í einhvers konar nýtingu. Kannski hefur yfirsýnin að einhverju leyti skerpst á undanförnum árum þegar stór samkeppnisaðili í nýtingu á ósnortinni náttúru, ferðaþjónustan, skilar okkur töluvert miklu af útflutningstekjum, eins og það heitir víst í hinum opinberu bókum.

Ég fagna því að við séum að leggja hér áherslu, og gera það með skýrum hætti, á mikilvægi þess að nálgast hlutina af varfærni og yfirvegun og með einhverja sameiginlega sýn að leiðarljósi sem landsskipulagsstefnan er. Á sama tíma erum við að draga inn hitt stóra málið sem skiptir afar miklu máli að við reynum að stilla saman strengi í og gera það með hraði, þ.e. að reyna, með skipulagi, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson fór hér lauslega inn á mjög áhugaverðar tillögur þar sem m.a. er talað um vernd líffræðilegs fjölbreytileika og vernd víðernanna á hálendinu og lúta að beitarnýtingu á hálendinu. Það verður gaman að fást við þessa umræðu þegar við fáum þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd.

Með breytingum á lögum um náttúruvernd var kveðið á um að brýnt væri að kortleggja óbyggð víðerni. Ég nefndi hér áðan að 43% af síðustu ósnortnu víðernunum í Evrópu er að finna á Íslandi. Þessari kortlagningu er ekki lokið. En ég skil ekki betur í þessum texta en að gert sé ráð fyrir að leggja hana til grundvallar skipulagsgerð. Kortið sem slíkt er forsenda áframhaldandi vinnu við hlutaðeigandi svæði, Markmiðið er að tryggja vernd víðernanna og koma í veg fyrir röskun þeirra sem er ekkert annað en tap á gæðum. Annað sem ég veit að var lögð áhersla á í viðaukunum og ég hef svo sem ekki alveg séð merki þess í þessu plaggi, en ég hef líka hraðlesið það þannig að ég ætla ekki að fullyrða um að það vanti, er áhersla á landslag og landslagsvernd. Ég veit að hana er að finna að einhverju leyti. Ég tel að það sé ástæða til þess, sér í lagi í ljósi þess að evrópski landslagssáttmálinn hefur tekið gildi á Íslandi, að við skoðum það verkefni sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd, að horfa til landslags og landslagsverndar út frá svona stórri sýn eða leiðarljósi sem landsskipulagsstefnan er.

Talandi um miðhálendið og áherslur því tengdu í þessu plaggi þá er eigi því að leyna, eins og stundum er sagt í góðum þingflokki hér í húsi, að það girnast mjög margir frekari áform um uppbyggingu mannvirkja á hálendi Íslands. Eitt af því eru mannvirki sem lúta að samgöngum. Ég segi fyrir mitt leyti að það eru hér setningar sem ég hlakka til að kafa örlítið betur ofan í, hvað þær þýða þegar í raun er horft á þetta. Þegar við ætlum að gæta jafnvægis í mismunandi ferðamátum á hálendinu, þýðir það til að mynda stórtæka uppbyggingu á vegum og slóðum? Eins og staðan er í dag þá er vernd hálendisins tryggð að hluta til m.a. vegna þess að aðgengið er ekkert of greitt inn á hálendið. Það hefur ekki verið, eins og sumir segja, Yaris-vætt í þeim skilningi að þú komist eins og á þýskri hraðbraut annaðhvort þvert yfir hálendið eða á einhverja ákveðna staði á hálendinu. Áfangastaðurinn er eitt og hvert þú ætlar sem ferðamaður en ef leiðin þangað er ekki í neinu samræmi við aðstæðurnar sem taka við þá er brýnt að reyna að stilla þetta saman og stundum á bara aukin innviðauppbygging ekki við ef við ætlum á annað borð að tryggja verndina sem á endanum er.

Að lokum þá heyri ég það að aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á það og fagnað því að sjá mögulega uppbyggingu á væntri vindorku ávarpaða eða utanumhald um vindorku. Það er verkefni sem bíður okkar líka með sérstökum lagaramma þegar fram í sækir á þessu löggjafarþingi. Ég held að það verði að skoða það mjög vel í samhengi við þær áherslur sem lagðar eru upp hér í landsskipulagsstefnunni og uppleggið í væntu frumvarpi þess efnis og hvernig þetta talar saman, því að það þarf jú að gera það að öllu leyti. En þegar upp er staðið þá er þetta sannarlega skipulagsákvörðun um það hvar hægt sé að reisa orkumannvirki, þar með talið vindorkumannvirki, en það þarf auðvitað að vera í einhverju samhengi stærri sýnar og stærri stefnu.

Eitt sem ég vildi nefna að lokum, virðulegur forseti, er að ég veit að eitt af þeim atriðum sem var lögð áhersla á í vinnunni við viðaukana var lýðheilsa og ég sé þess merki víða í textanum að það hefur ratað áfram inn í þá tillögu sem hér er til umræðu. Ég held að það verði líka áhugavert fyrir okkur að horfa á það sér í lagi með tilliti til borgarskipulags og/eða þéttbýlisskipulagsins, að skipulag styðji við hreyfingu, endurnæringu og samskipti í nærumhverfi. Þetta er það sem þegar upp er staðið styður við velsæld íbúanna á hverjum stað fyrir sig.