154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[18:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Þetta er fín umræða. Í stefnunni á bls. 9, undir áherslu B.5, hef ég þá trú að þetta sé töluvert meiri útfærsla en í fyrri landsskipulagsstefnu á því sem snýr annars vegar að fjarskiptamannvirkjunum og raforkumannvirkjunum og flutningskerfinu. Það er kannski komin síðan betri löggjöf á bak við þetta eins og með raflínufrumvarpinu sem var nýlega samþykkt og síðan fjarskiptafrumvarpinu varðandi aðgengi að sendum fyrir ljósleiðarasambandið t.d. um lönd. Ég komst ekki að því atriði í fyrri ræðu að símasambandið er ekki nægilega gott víða. Ég held að það séu um 55 staðir sem er verið að skoða núna á landsvísu að reyna að bæta þar fjarskiptasambandið. Síðan eru alltaf meiri og meiri kröfur um gagnaflutning og til þess að reka 5G og vera með þennan mikla gagnaflutning þá þurfa að vera ljósleiðarar að sendunum. Og það er ekki bara það heldur þurfa þeir að vera miklu þéttar en var með gömlu kerfin, 2G, 3G og 4G. Við vorum að fást við þetta í fjarskiptalögunum, að komast um lönd með ljósleiðarana. Þetta er gríðarlega mikilvægt til framtíðar litið, að 5G-væða svæði á landsbyggðinni og þjóðveg 1, sem ég held að menn séu helst að einbeita sér að og fjölförnustu vegunum. Þarna þarf sannarlega að fara í stórt átak. Við sem keyrum mikið um t.d. Norðausturkjördæmi, á ferðum okkar um kjördæmið, finnum fyrir því að sambandið slitnar æðivíða á leiðinni þar sem er farið um og við þingmenn sem keyrum mest um kjördæmið erum farin að þekkja hvar sambandið mun slitna og hvar slitnar tvisvar upp þessa brekku og slíkt. Það er mikið öryggismál að það sé gengið í þetta.

Sá sem hér stendur hefur mikið talað fyrir því að byggja upp Kjalveg og stofnvegina fjóra á hálendinu. Ég held að það sé nauðsynlegt ef við ætlum að fara í alvöruorkuskipti að þetta svæði sé með bundnu slitlagi til þess að rafmagnsbílar geti farið um. Þeir gera aðrar kröfur almennt eins og þeir eru hannaðir í dag, held ég, kannski viðkvæmari fyrir holóttum vegum, ég veit það ekki en það er svona tilfinningin. Ég held að enginn sé að tala um þýska hraðbraut eins og hv. þingmaður á undan mér kom inn á, Orri Páll Jóhannsson, hann talaði um þýska hraðbraut á hálendinu. Ég held að það sé enginn þar. En það má sjálfsagt bæta úr þessum samgönguleiðum og viðhorfin sem snúa að þessu hafa verið að breytast mjög, maður finnur fyrir því bæði norðan og sunnan lands að það er mikill áhugi á þessu atriði sem snýr að því að tengja uppsveitir Suðurlands við Norðvestur- og Norðausturland. Ég hef sjálfur skrifað töluvert um þetta og hef tekið þátt í verkefnum þar sem fengist er við þessi mál og ég er sannfærður um að þetta er gríðarlega stórt og mikið byggðamál og atvinnumál. Þetta snýr líka að þessu lykilatriði sem er betri dreifing ferðamanna, að það séu skapaðar forsendur fyrir því að ferðamenn komist víðar og dreifist betur um landið. Þetta er hluti líka af orkuskiptunum, að stytta leiðir. Það er áhugavert að sjá hvernig það mun þróast en ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að það samtal sé líka tekið. Ég finn í það minnsta fyrir mjög auknum áhuga á því beggja megin, norðan og sunnan lands, það eru fleiri farnir að átta sig á því hversu mikið þetta getur gert í því sem snýr að dreifingu ferðamanna. Við erum stöðugt að vinna að því og það hefur lengi verið talað um Ísland allt árið en sá sem hér stendur hefur talað í tíu ár um allt Ísland allt árið, það eigi að vera það sem við tölum fyrir og þetta sé einn þáttur í orkuskiptum og styrkingu byggðarlaganna beggja megin, norðan og sunnan lands.