154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, þessi ríkisstjórn hefur talað mjög skýrt í þeim efnum að við munum ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í íslenskri efnahagslögsögu. Það liggur algerlega skýrt fyrir og við höfum haldið þeim sjónarmiðum á lofti á alþjóðavettvangi. Það eru auðvitað ýmis mál sem ég vonast til þess að við munum sjá árangur af á næstu árum sem eru nú komin til framkvæmda. Ég nefni sérstaklega löggjöfina um hringrásarhagkerfið sem í raun og veru er fyrst núna kannski að fara að skila þeim árangri sem við viljum sjá og finnum auðvitað sem erum farin að endurvinna okkar lífræna úrgang loksins, sem er auðvitað stór þáttur í að draga úr losun. En eins og ég hef svo sem ítrekað sagt þá verða loftslagsmálin ekki leyst með neinu einu og það hefur mikið verið rætt um orkuskipti í umræðum hér á þingi og þau eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg og verða í brennidepli á loftslagsráðstefnunni. En það er svo ótal margt annað sem við þurfum að taka á og nálgunin við uppfærslu aðgerðaáætlunar er að nálgast þetta út frá ólíkum geirum, (Forseti hringir.) reyna að vinna þetta út frá landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði o.s.frv. Ég hef trú á því að það verði skilað mjög góðri vinnu við uppfærslu áætlunarinnar.