154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

um fundarstjórn forseta.

[15:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er dálítið hugsi yfir orðum hv. þingkonu Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að við getum bara unnið hérna lengur. Ég tek alveg undir það, ég er alveg sammála. Við getum þannig séð unnið alveg fram að Þorláksmessu og milli jóla og nýárs, bara eins og venjulegt fólk gerir, og sjálfsagt og eðlilegt til þess að klára mikilvæg mál. Vandinn er að það er engum í þessu húsi jafn annt um að klára á tilsettum tíma þingstörfin og hæstv. forseta þingsins. Það hefur alltaf verið þannig að þegar er komin dagsetning á það að það eigi að klára þingstörf 15. desember þá er allt púður lagt í að klára á þeim tíma. Og ef það eru einhver mál sem þarf að klára þá eru þau bara keyrð í gegn. Þau eru keyrð í gegnum nefndina, rifin út án þess að fá nægilega góðan tíma í umfjöllun, þau eru samþykkt hér í þingsal af meiri hlutanum og svo koma í ljós mistök út af því að þau eru illa unnin í miklum flýti. Það er vandamálið. Ef við ætlum að klára þetta stóra mál og ætlum að fá mál hérna inn ellefu dögum fyrir tilsettan tíma þegar við eigum að klára þing fyrir jól þá finnst mér fínt ef forseti þingsins myndi vera gagnsærri með það að (Forseti hringir.) hann ætli bara að hafa okkur lengur hérna. Þá færum við þessa tímasetningu, (Forseti hringir.) hættum við 15. desember og við erum bara heiðarleg með hvenær við ætlum að klára þingið. Það er ekkert mál að mínu mati. Við getum alveg gert það og verið hérna lengur (Forseti hringir.) en þá skulum við taka ákvörðun um það sem þing og ekki drífa þetta hérna í gegn á handahlaupum til að ná því að klára 15. desember.