154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði bara að koma hérna örstutt upp til að ræða þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, mannvirki og brunavarnir. Á sínum tíma eftir hinn hörmulega atburð á Bræðraborgarstíg átti ég samtal við þáverandi ráðherra húsnæðismála einmitt um þau mál og hvað væri í farvatninu til að lagfæra í rauninni það ástand sem hefur ríkt. Ég bara fagna þessu frumvarpi og tek undir með slökkviliðsstjóra á höfuðborgarsvæðinu sem orðaði það þannig að það væri afar brýnt að þetta mál færi frekar hratt í gegnum þingið. Ég sé alla vega ekki alla þessa annmarka sem einhverjir hafa reifað hér um þessi mál, en við vonum að umhverfis- og samgöngunefnd taki utan um það.

Það sem er aðalmálið með þessa óleyfisbúsetu er að auðvitað vill enginn að fólk þurfi að búa við þær aðstæður enda er ekki, eins og segir hér og ráðherra fór yfir, gert ráð fyrir að þetta sé eitthvert framtíðarúrræði heldur bara verið að horfast í augu við þær staðreyndir sem við okkur blasa. Það hefur líka komið fram hjá slökkviliðsstjóra að flest þetta húsnæði sem er með þessa svokölluðu óleyfisbúsetu er í ágætisstandi en alls ekki allt og ekki einu sinni vitað um það allt saman. Það var aðeins innt eftir því í morgun á fundi velferðarnefndar hvort það væri til einhvers konar skrá eins og hér er nefnt og það er nú kannski hæpið að það sé hægt einhvern veginn að ná utan um það sökum þess hvernig þetta er. En ég alla vega tel að þetta sé mjög mikið til bóta og að þegar slökkviliðið hefur líka orðið auknar heimildir þá styrki þetta stoð þeirra til eftirlits og eftirfylgni. Auðvitað þurfa sveitarfélögin líka og þeirra nefndir sem eiga að fylgja eftir brunavörnum og öðru slíku að sjá til þess að það sé vitað hvar svona óleyfisbúseta er til staðar.

Það sem er nefnt hérna og er mikilvægt, finnst mér, er að það fylgi engin réttindi og skyldur þessari aðsetursskráningu, af því það er ekki það sama og lögheimilisskráning. Við ræddum aðeins, af því við erum að fjalla um málið í velferðarnefnd sem snýr fyrst og fremst að Grindvíkingum og ráðherrann minntist á hér áðan, það sem varðar m.a. aðsetur í frístundabyggð og í rauninni er verið að tala þar líka um óleyisbúsetu. Ég velti því þá fyrir mér hér að velferðarnefnd taki þann póst til sín og bæti því inn í það mál sem hún er að fást við, af því að það er jú einangrað við Grindvíkinga og af því að við erum ekki að heimila hér búsetu almennt í frístundabyggð eða öðru slíku og ekki heldur í rauninni í óleyfisbúsetu nema fram til 2030. Til þess að hægt sé að afgreiða málið í velferðarnefnd þannig að það stangist ekki á við aðsetursskráningu eða lögheimilisskráningu og Þjóðskrána myndum við kannski flytja það frekar þeim megin frá. En að öðru leyti held ég að það sé ágætt.

Hér er gripið niður í nokkrar umsagnir. Það er líka mikilvægt að fólk átti sig á því að þetta er ekki bara eitthvert stórt atvinnuhúsnæði sem um ræðir. Það er líka, eins og við þekkjum því miður, búið í geymslum fjölbýlishúsa, það er búið í bílskúrum og öðru slíku sem uppfyllir ekki endilega það sem það á að uppfylla. Þetta höfum við horft á til fjölda ára. Það er svo sem mjög margt undir.

En ég vildi bara ítreka með þetta mál, ekki síst af því að ég fjallaði um þetta á sínum tíma þegar þetta vonda mál kom upp, að mér fannst ástæða til að fagna því að hér væri komið fram mál sem tæki utan um þetta með þeim hætti sem hér er gert. Ég vona svo sannarlega, og ég held að það sé mikilvægt almennt burt séð frá hinu málinu sem velferðarnefnd er að fjalla um, að ákall slökkviliðsstjóra og fleiri aðila eftir því að þetta verði afgreitt hratt og vel — ég vona svo sannarlega að umhverfis- og samgöngunefnd geti gert það um leið og að sjálfsögðu er fjallað um það af yfirvegun og til þess fengnir þar til bærir gestir sem þurfa að veita umsögn sína um málið.