154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:04]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ástæðan fyrir því að þetta er komið fram núna er einfaldlega vegna þess að þetta var tilbúið í rauninni í viðræðum við ESB um upptöku nýs ETS-kerfis. Viðræðum ESB lauk í lok september og þá hófust menn handa en eins og hv. þingmaður veit var þetta kynnt fyrir hv. þingnefnd í október þannig að til þess akkúrat að koma í veg fyrir það sem hv. þingmaður er eðlilega hafa áhyggjur af, að menn hafi skamman tíma og vita ekki hvað þarna sé á ferðinni, þá held ég að það hafi verið skynsamlegt. Sömuleiðis af því hv. þingmaður vísaði í hagaðila þá er það alls ekki svo, eins og hv. þingmaður náttúrlega man, og hann talar um flugrekendur, að þetta komi þeim á óvart. Nú hafa farið fram mjög mikil samskipti, eins og ég rakti í framsögu minni, varðandi þær reglur eða undanþágur sem gilda fyrir íslenskt flug því að eðlilega hafa flugrekendur verið að fylgjast vel með þessu máli.

Af því að hv. þingmaður vísar til áhrifanna og kostnaðarins og annars slíks þá er þetta sú vegferð sem við fyrir lifandi löngu tókum þátt í, eða fyrir nokkrum árum, og þegar menn skoða kostnaðinn þá verða menn líka væntanlega að skoða hver valkosturinn væri ef við færum einhverja aðra leið. Þessi fyrirtæki leggja mér vitanlega öll áherslu á að við tökum þátt í þessu fyrirkomulagi. Ef við ætlum að gera það með einhverjum öðrum hætti, að því gefnu að við ætlum að vera aðilar að Parísarsáttmálanum sem hv. þingmaður þekkir nú aðdragandann að, þá þurfum við að vera með eitthvert fyrirkomulag í því og þau hafa lagt áherslu á að við séum með sama fyrirkomulag og þau lönd sem við erum í mestum samskiptum við.