154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:16]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að hv. þingmaður sé, ef ég man rétt, í hv. utanríkismálanefnd og fari þar yfir þessa fundi sem við eigum við erlend ríki. Það sem ég var að lýsa hér áðan var í rauninni bara frétt og viðtöl við forsvarsmenn Eimskipa sem voru að segja frá því að þeir eru að breyta sinni tilhögun, spara orku, minnka losun til að þurfa ekki að hækka gjaldskrá, ef ég skil fréttina rétt. Það er hugmyndin á bak við kerfið. Aðalatriði málsins er það að íslensk fyrirtæki séu að keppa á sama grundvelli og þau fyrirtæki sem þau eru að keppa við. Það er stóra málið. Þess vegna vildum við flest fara í EES, vegna þess að það þýddi það að við værum að keppa á jafnræðisgrundvelli og íslensk lítil fyrirtæki, sem stundum verða stór, þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að ríkin í þeim löndum sem við berum okkur saman við gætu t.d. niðurgreitt viðkomandi starfsemi í samkeppni við þau þannig að íslensku fyrirtækin ættu ekki möguleika þar. Þetta snýst um það, hugsunin bak við þetta á Evrópska efnahagssvæðinu er að fyrirtækin standi jafnfætis og séu að keppa á jafnræðisgrundvelli. Til þess er leikurinn gerður. Bretland er með sitt eigið viðskiptakerfi en menn líta náttúrlega sérstaklega til þess af þeirri ástæðu sem hv. þingmaður vísaði til, að við viljum ekki sjá það gerast að íslensk fyrirtæki, flugið í þessu tilfelli af því að hv. þingmaður vísaði í það — við viljum ekki að íslenskir flugrekendur eigi erfitt með að keppa við flug annars staðar frá vegna þess að viðskiptaumhverfi þeirra sé erfiðara en samkeppnisaðilanna. Það er svona kjarninn í þessu og til þess er leikurinn gerður.