154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:20]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnina. Varðandi aflátsbréfin svokölluðu eða upprunaábyrgðir — það er allt annað mál. Það er bara eitthvað sem íslensk orka … (Gripið fram í.) — Ekkert inn í þetta, tengist þessu ekki með neinum hætti. Það sem ég var að vísa til í ETS-kerfinu er: Fyrst fyrirtækin fá endurgjaldslausar losunarheimildir þá geta ríkin selt þær og eiga að nota andvirðið til að hjálpa til við kostnaðinn við tæknibreytingar og þessar umbreytingar, orkuskiptin. Síðan eru sjóðir annað mál. Við höfum aðgang, að því er ég best veit, að öllum þeim sjóðum sem við þurfum þegar kemur að þessu. Síðan er það í ofanálag þannig að við ættum að vera í betri stöðu bara út af því hvernig við getum framleitt græna orku ef við hyggjumst gera það til að búa til rafeldsneyti, sem er alveg sérmál. En aðalatriðið er þetta, hugsunin er þessi: Íslensk fyrirtæki og norsk og fyrirtæki innan EES eiga að keppa á jafnræðisgrundvelli þannig að þegar (Forseti hringir.) kvótinn minnkar eða menn þurfa að greiða fyrir losunarkvóta (Forseti hringir.) þá eru fyrirtækin að keppa á jafnræðisgrundvelli. Eftir því sem ég best veit þá eru (Forseti hringir.) íslenskir flugrekendur sáttir við þá útfærslu sem hér er.