154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:54]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hans andsvar og þessa hugleiðingu um hvort við séum eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að loftslagsmálum. Nei, að mínu mati erum við það alls ekki heldur erum við í aðdáunarverðri stöðu hvað varðar þessi mál með alla okkar grænu orku. Hins vegar er það mikilvægt að við höllum okkur ekki aftur í sætunum og gerum ekki neitt. Við verðum að halda áfram. Af því að hv. þingmaður fór í sinni ræðu hér áðan yfir ábyrgð annarra þjóða og losun þeirra er mikilvægt að hafa það í huga að aðrar þjóðir mega líka vissulega gera betur. En við eigum samt sem áður alltaf að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert frekar. Í umræðum í gær sem ég vitnaði til í mínu máli kom skýrt fram að það er afar mikilvægt að við séum að afla frekari grænnar orku til þess að geta farið í orkuskipti og sinnt atvinnulífinu og stækkandi samfélagi. Það var kannski meiningin í upphafi minnar ræðu að það væri mikilvægt að við séum á tánum og fylgjum hlutum eftir og séum ábyrg hvað þetta varðar.