154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[19:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fer ekkert ofan af þeirri skoðun minni, og það má alveg deila um hana og ég geri ráð fyrir að þeir sem ég deili á séu ekki sammála mér, að það eru fyrst og fremst þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem bera ábyrgð á þessari stöðu. Sagan skrifar það allt frá því hvernig Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, lýsir þessu í bók sinni sem hann skrifaði um það ríkisstjórnarsamstarf, sem er í dagbókarformi, þar sem hann lýsir hvernig vélað var um rammaáætlun. Þar með var sáttin auðvitað rofin. Hann vélaði um þetta við ríkisstjórnarborðið og var það skiptimynt í því að fá að halda áfram viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir þingmenn, sérstaklega þessir þættir. En í sjálfu sér geta þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verið stoltir af þessum árangri vegna þess að þetta er þeirra stefna. Það er fyrst og fremst fólk úr þessum flokkum sem spurði mig árið 2015 af hverju ég væri að hafa áhyggjur af þessu, það væri næg orka til á Íslandi. Ég taldi þetta fólk ekki vera í sambandi við raunveruleikann og reyndar hlustaði þetta fólk ekki á sjónarmið orkufyrirtækjanna og sveitarfélaganna. Við erum í sömu klemmunni varðandi dreifikerfi á orku um landið þótt aðeins hafi rofað til í því á síðustu þremur árum eftir tíu ára stopp.

Jú, það eru leiðir til að bregðast við þessu. Þær jarðhræringar sem nú eru á Reykjanesi eiga að vera okkur áminning um það að við þurfum að dreifa raforkuframleiðslu okkar, efla dreifikerfið og dreifa raforkuframleiðslu okkar mikið um landið. (Forseti hringir.)Við getum ekki látið Skagafjörðinn og þessi svæði vera ónumin, fleiri svæði á Vestfjörðum og svo má lengi telja. Það er þjóðaröryggismál.