154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:28]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek alveg undir það sem hv. þingmaður er að segja um mikilvægi þess að tengingarnar séu í lagi og flutningskerfið standi undir því. Og þegar hv. þingmaður spyr hvort ég telji eðlilegt að það taki 20 ár að koma línu í gegn einhvers staðar með einhverjum hætti þá langar mig líka að rifja upp orð eða orðalag sem ég vona að ég hafi rétt eftir, sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði hér áðan og sjálfur hef ég notað þau í öðru samhengi: Ef það er einhver fyrirstaða fyrir því að hægt sé að leggja línuna þá hlýtur að þurfa að leggja sig í framkróka við að reyna að finna út úr því í hverju hún felst. Það getur ekki verið lausnin að keyra bara og keyra, við sjáum ekki að það hafi skilað okkur miklum árangri, að keyra hlutina svoleiðis áfram og í kaf að þú eiginlega kemst hvorki lönd né strönd. Til þess erum við með þessa ferla, til þess erum við með þetta virka samtal og samráð við íbúa og við hagaðila þegar það á við og það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka í þessu svo við náum einmitt fram þessari samlegð. Þannig að já, ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við getum tryggt kerfið, tryggt tengingarnar á milli hinna mismunandi framleiðslustaða. En það þarf að gerast með sóma, skulum við segja, því það eru því miður of mörg dæmi þess að það hafi verið ruðst áfram í mikilli óþökk fólks og það er bara, held ég, algerlega liðin tíð að við getum beitt þannig aðferðafræði, aðferðafræði nautsins, ef ég leyfi mér að þýða það, virðulegur forseti.