154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Frumvarpið felur í sér heildarlög um nýja stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem er ætlað taka við hluta af verkefnum Menntamálastofnunar en mennta- og barnamálaráðuneytið við öðrum verkefnum. Aukin áhersla verður lögð á þjónustu, ráðgjöf og stuðning en greiningarverkefni, ytra mat og ýmis stjórnsýsluverkefni flytjast til ráðuneytisins. Með frumvarpinu er settur rammi um verkefni hinnar nýju stofnunar og fram kemur í greinargerð með því að nánar verði kveðið á um þau í lögum um fræðslu- og menntamál, þar á meðal í nýjum heildarlögum um skólaþjónustu sem eru í undirbúningi.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi á þskj. 630. Nefndarálitið er allítarlegt og ég ætla að koma aðeins inn á alla kaflana í því án þess að fara ítarlega yfir það.

Frumvarpið var samið í mennta- og barnamálaráðuneytinu í samvinnu við þingmannanefnd um málefni barna og er liður í stefnumótun um farsæld barna sem er m.a. í samræmi við menntastefnu til ársins 2030. Frumvarpið tengist því öðrum umbótaverkefnum á þessu sviði.

Í umsögnum sem bárust um málið var að jafnaði tekið vel í áform um að koma á fót Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem þjóni þremur skólastigum en jafnframt bent á að þau markmið sem að er stefnt náist fyrst þegar ný heildarlög um skólaþjónustu hafa tekið gildi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta eftirfarandi sérstaklega og þar tek ég bara helstu áherslurnar í nefndarálitinu og fer yfir þær.

Meiri hlutinn vill undirstrika nauðsyn þess að vinna við frumvarp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu, sem áætlað er að verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi, verði unnin í nánu samráði við sveitarfélögin þar sem verður nánar útfært hvað felst í framkvæmd skólaþjónustu. Málefni leik- og grunnskóla heyra undir sveitarfélögin sem ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, samkvæmt 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Mikilvægt er að til staðar verði skýr ábyrgðarskipting á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við börn.

Þá fjallaði nefndin um starfsþróun og skólaþróun og kom m.a. fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að þörf væri á að tilgreina hlutverk nýrrar stofnunar hvað varðar skólaþróun og starfsþróun kennara. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess og áréttar að stofnunin hafi hlutverki að gegna í starfsþróun starfsfólks skóla, þótt grunnmenntun, framhaldsnám og símenntun verði í höndum háskólanna. Lagaumgjörðin til framtíðar þarf að tryggja stefnumótun, yfirsýn, faglega forystu og utanumhald starfsþróunar til að tryggja samhæfingu námskrár, námsefnis og aðra skólaþróun.

Einnig fjallaði nefndin um frístundastarf og vill meiri hlutinn árétta að ný stofnun starfar í þágu barna og ungmenna á sviði fræðslu- og menntamála um land allt. Ný stofnun á að geta stutt allt frístundastarf sem skilgreint er í gildandi lögum um grunnskóla og nær því til að mynda frístundaheimila og tómstunda- og félagsstarfs á vegum skólanna. Um þetta er fjallað í 33. gr. laga um grunnskóla.

Þá fjallaði nefndin um námsgögn og er vísað í greinargerð með frumvarpinu til þess að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu taki við verkefnum Menntamálastofnunar um námsgögn en að unnið sé að frekari lagabreytingum um námsgögn sem er fyrirhugað að leggja fram á Alþingi á yfirstandandi þingi. Meiri hlutinn telur brýnt að efla gerð og útgáfu fjölbreyttra námsgagna á margs konar formi fyrir nemendur á skólaskyldualdri og beinir því til ráðuneytisins að taka mið af þeim sjónarmiðum og ábendingum sem fram hafa komið í umsögnum við þetta mál og yfirstandandi vinnu vegna lagabreytinga þegar kemur að námsgögnum. Meiri hlutinn telur að námsgögn eigi að fylgja markmiðum um nám við hæfi, starf kennara og þróun náms og kennslu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að vinnu vegna fyrirhugaðra lagabreytinga varðandi hlutverk Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu vegna námsgagna verði hraðað svo að Alþingi gefist svigrúm til að fjalla um frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi.

Þá fjallaði nefndin um stafrænar lausnir í skólastarfi, sem eru auðvitað nátengdar námsgögnunum, og telur meiri hlutinn nauðsynlegt að brugðist verði við til að auka framboð og styðja við notkun á rafrænum og stafrænum lausnum í skólastarfi þannig að möguleikar menntatækninnar nýtist til fulls í íslensku skólakerfi. Það hefur aftrað framförum í nýtingu stafrænna lausna í skólastarfi að sveitarfélög sinni mati á áhrifum á persónuvernd hvert í sínu lagi, oft fyrir sama kennsluhugbúnaðinn. Augljós samlegðaráhrif séu af því að samræma þetta verklag sem og betri nýting fjármuna. Með því er verið að vísa til þess að mat á persónuvernd gæti farið fram hjá nýrri stofnun. Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í minnisblaði mennta- og barnamálaráðuneytis til nefndarinnar, frá 14. nóvember 2023, um mikilvægi þess að miðlæg stofnun stuðli að því að öryggi og gæði kennsluhugbúnaðar sé tryggt á landsvísu. Með því er nefndin m.a. að taka undir ábendingu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að nýrri stofnun verði falið það hlutverk að framkvæma fjölþætt mat á stafrænum lausnum fyrir skólastarf, þar með talið mat á áhrifum á persónuvernd, fyrir hönd ábyrgðaraðila vinnslu persónuupplýsinga þegar stafrænar lausnir eru innleiddar af hálfu skólastofnana. Slíkt myndi leiða til verulegs hagræðis fyrir skólastofnanir sem hafa til þessa hver um sig þurft að bera þungann af slíkri vinnu . Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að útfæra þetta nánar með hliðsjón af þeirri vinnu sem stendur yfir við endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna.

Þá er það persónuverndin sem er nátengd þessu og rétt að taka fram að í umsögn Persónuverndar um frumvarpið eru gerðar athugasemdir við vinnsluheimildir frumvarpsins og skilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Meiri hlutinn ítrekar að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, gilda um alla vinnslu persónuupplýsinga hjá hinni nýju stofnun. Jafnframt er í umsögn Persónuverndar bent á að það sé skylda ábyrgðaraðila samkvæmt 29. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga að láta fara fram mat á áhrifum á persónuvernd, eins og ég fjallaði um fyrr. Meiri hlutinn tekur undir þetta og leggur áherslu á að ábyrgðaraðila, sem er í þessu tilviki Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, beri að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd áður en vinnslan hefst, líkt og lög um persónuvernd kveða á um. Að mati ráðuneytisins er ekki ástæða til breytinga á frumvarpinu á grundvelli ábendinga Persónuverndar og meiri hlutinn er sammála því mati ráðuneytisins.

Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að ávallt sé gætt að ákvæðum persónuverndarlaga, ekki síst þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga sem varða börn og nemendur á öllum skólastigum. Það er verkefni löggjafans að tryggja stjórnvöldum, sveitarfélögum og menntastofnunum fullnægjandi vinnsluheimildir í því skyni að þau geti sem best sinnt skyldum sínum í samræmi við ákvæði laga, aðalnámskrár, stefnu stjórnvalda og alþjóðleg viðmið. Vegna þessa leggur meiri hlutinn áherslu á og telur grundvallaratriði að Persónuvernd sinni lögbundinni ráðgjöf í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga á fyrstu stigum frumvarpsgerðar til að tryggja að markmið um persónuvernd náist samhliða markmiðum laga hverju sinni.

Meiri hlutinn hefur lagt mat á umsögn Persónuverndar og telur að heimildir nýrrar stofnunar til vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við lögbundin verkefni hennar séu skýrar. Meiri hlutinn áréttar loks að það sé mikilvægt að Persónuvernd veiti ráðgjöf við yfirstandandi endurskoðun laga sem varðar framtíðarstefnumótun fyrir menntakerfið, ekki síst í því skyni að koma í veg fyrir réttaróvissu sem skapast hefur í skólaumhverfinu um miðlun persónuupplýsinga milli menntastofnana og innleiðingu stafrænna kennslulausna. Telur meiri hlutinn einsýnt að aukið samráð Persónuverndar við stjórnvöld sé til þess fallið að tryggja lögmæti vinnslu persónuupplýsinga varðandi börn sem njóta sérstakrar verndar. Er þá lokið umfjöllun um persónuverndina.

Nefndin fjallaði um samvinnu og samráð við haghafa og dró fram mikilvægi heimilda til samráðs og samvinnu sem er mælt fyrir um í 3. gr. frumvarpsins og ítrekar að reglulegt og virkt samráð Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu við hagaðila er forsenda þess að stofnunin nái þeim árangri sem að er stefnt. Mikilvægt er að gagnsæi ríki um framkvæmd samráðs þó að ekki sé kveðið á um framkvæmdina í lögum heldur eru heimildir til samráðs til staðar.

Þá er smákafli um framhaldsfræðslu og raunfærnimat. Það komu fram ábendingar um að ekki væri nægilega skýrt hvernig þeim verkefnum framhaldsfræðslunnar sem Menntamálastofnun hefur séð um verði sinnt ef frumvarpið verður að lögum, svo sem vottun námskráa og viðurkenning fræðsluaðila. Framhaldsfræðslan er nú á verksviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og óskaði nefndin nánari upplýsingar þaðan. Kom fram að unnið er að heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og að gengið er út frá því að þær ákvarðanir sem Menntamálastofnun hefur tekið í tengslum við vottanir námskráa og viðurkenningu framhaldsfræðsluaðila haldi gildi sínu þrátt fyrir að stofnunin verði lögð niður.

Meiri hlutinn tekur undir þennan skilning en leggur jafnframt áherslu á að fyrir gildistöku laganna liggi það fyrir af hálfu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins hver sjái um vottun fræðsluaðila, vottun námskráa og birtingu námskráa í námskrárgrunni. Það er nauðsynlegt, jafnt fyrir símenntunarmiðstöðvarnar sem sjá um framkvæmd framhaldsfræðslunnar og einstaklingana sem nýta hana, að þetta liggi skýrt fyrir áður en að lögin taka gildi. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði frumvarpsins hafa engin bein áhrif á framkvæmd raunfærnimats en vill engu að síður, í framhaldi af ábendingum í umsögnum, ítreka mikilvægi þess að tilteknum aðila verði falin forysta við þróun raunfærnimats. Eins leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi samstarfs framhaldsfræðslunnar, framhaldsskólastigsins og háskólastigsins um þróun og framkvæmd raunfærnimats með hagsmuni þeirra einstaklinga sem nýta sér þessa leið í námi að leiðarljósi.

Loks fjallaði nefndin um ákvæðið varðandi starfsfólk Menntamálastofnunar og beinir meiri hlutinn því til mennta- og barnamálaráðuneytisins og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu að leita leiða til að draga úr áhrifum af niðurlagningu starfa gagnvart starfsfólki Menntamálastofnunar sem hlýtur ráðningu í ný störf hjá nýrri stofnun eða ráðuneytinu hvað varðar áunnin kjarasamningsbundin réttindi líkt og veikindarétt og möguleika á námsleyfi. Yfir þetta er farið í áðurnefndu minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar.

Þá eru það breytingarnar sem nefndin leggur til sem eru minni háttar. Nefndin leggur til þá breytingu að gildistöku verði seinkað frá 1. mars 2024 til 1. apríl 2024. Aðrar breytingartillögur eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif og verða því ekki raktar hér.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Birgir Þórarinsson, Dagbjört Hákonardóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Jódís Skúladóttir. Þá er Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi samþykkur álitinu.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin þá langar mig að árétta nokkur atriði sem mér eru sérstaklega hugleikin varðandi þetta mál. Í fyrsta lagi er ég mjög ánægð með þá breytingu sem frumvarpið felur í sér, þar sem ætlunin er að setja á fót stofnun með þjónustuhlutverkið í fyrsta sæti þar sem leiðarljósið verður að veita skólum og kennurum þann stuðning sem til þarf við vinnu að farsæld og góðum námsárangri íslenskra barna, stofnun sem hefur forystuhlutverk við að innleiða aðferðafræði og tryggja aðgang að verkfærum eins og góðum námsgögnum og stafrænum lausnum sem þarf til að sem bestur árangur náist í menntakerfinu.

Það er líka mikilvægt og ég trúi því að stofnunin muni einfalda vinnuna fyrir skólakerfið þannig að hún taki að sér ýmis verkefni sem nægjanlegt er að vinna á einum stað frekar en að hver skóli fyrir sig þurfa að vinna samhliða sömu verkin. Þetta á t.d. við um mat á námsgögnum og stafrænum lausnum þar sem mikilvægt er að það liggi fyrir samræmt gæðamat þar sem skólar geta borið saman og valið úr námsgögnum eða stafrænum lausnum sem búið er að meta með vísan til gæðamarkmiða námskráa og meta út frá áhrifum á persónuvernd. Slíkt myndi leiða til verulegs hagræðis fyrir skólastofnanir sem hafa til þessa hver um sig þurft að vinna mikið af þessari vinnu.

Að lokum vil ég svo ítreka að frumvarpið er liður í innleiðingu á stefnu um farsæld barna og eitt mikilvægt púsl í heildarmyndina sem við höfum gefið okkur þrjú til fimm til að innleiða frá 1. janúar 2022 að telja.