154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Frumvarpið felur í sér að leggja niður Menntamálastofnun og lögfesta ný heildarlög um nýja stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Heilt yfir virðist vera samstaða meðal hag- og umsagnaraðila um að þörf sé á þeim breytingum sem ráðuneytið leggur til með frumvarpinu. Helst hefur verið gagnrýnt hve seint var farið af stað með endurskoðun menntunar og skólaþjónustu. Mikilvægt er að stjórnvöld leiði málaflokkinn með raunverulegri stefnumótun, í stað þess að bregðast við þegar komið er í óefni. Því eru nokkur atriði sem ég tel að þurfi að koma inn á og halda til haga og þess vegna er ég með sérálit, þótt ég muni eflaust koma til með að styðja málið í atkvæðagreiðslu.

Þrátt fyrir að aðilar séu sammála um nauðsyn þess að koma á fót stofnun með það hlutverk sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er ætlað þá hefði verið mun æskilegra að hefja heildarendurskoðun menntakerfisins á öðrum brýnni þáttum. Í umsögn Kennarasambands Íslands er sagt að það skjóti skökku við að ný heildarlög um mennta- og skólaþjónustu séu sett áður en heildarlagarammi um þjónustuna sjálfa er lagður fram. Ný aðalnámskrá tók gildi 1. ágúst 2011. Innleiðing hennar hefur gengið brösuglega þar sem stuðning, fjármagn, yfirsýn og tilhlýðilegan tíma hefur skort. Það er óásættanleg staða fyrir kennara að þurfa að standa að innleiðingu án yfirsýnar og samræmingar. Án þess er ómögulegt að átta sig á hvort innleiðingin mæti markmiðum aðalnámskrár. Í umsögn Kennarasambandsins segir að verkefnum kennara hafi fjölgað mikið síðastliðin ár sem og allri umsýslu í tengslum við kennslu og umsjón nemenda í hverjum bekk og fjölda nemenda á hvern fermetra. Ánægja hagaðila með framlagningu frumvarpsins skýrist m.a. af því aðgerðaleysi sem litað hefur málaflokkinn. Hins vegar heyrast áhyggjur af því að þessi ólestur og skortur á heildarsýn á málaflokkinn verði ekki leystur með nýrri mennta- og þjónustustofnun einni og sér.

Mikið álag er á kennurum og hætt við að þeir kulni í starfi miðað við núverandi starfsaðstæður. Sérstaklega er mikilvægt að huga að nýjum kennurum fyrsta starfsárið, að þeir fái handleiðslu og nægilegan stuðning. Ekki er síður mikilvægt að taka laun kennara til heildrænnar endurskoðunar í ljósi þess þýðingarmikla hlutverks sem þeir gegna við menntun barna okkar til framtíðar.

Forseti. Í áliti mínu fjalla ég einnig um námsgögn og kennsluaðferðir og réttindi starfsfólks við það að verið sé að leggja niður þessa stofnun. Það liggur fyrir í nefndaráliti og ég ætla ekki að lesa það sérstaklega upp en vil tala aðeins um það að menntun er undirstaða framfara. Þetta er gífurlega mikilvægur málaflokkur. Menntakerfið verður að mæta þörfum nemenda á fjölbreyttan hátt í síbreytilegu og lýðræðislegu samfélagi. Námið þarf að aðlaga að þörfum nemenda svo að þeir geti menntað sig á eigin forsendum og að þekkingarsköpun sé ávallt höfð að leiðarljósi. Það er grundvallaratriði að börnin okkar verði búin undir heiminn sem tekur á móti þeim eftir skóla. Það á alltaf að hlusta á raddir barnanna okkar og efla lýðræðislega þátttöku þeirra í skólastarfinu með tilliti til aldurs og þroska. Nemendur ættu að hafa aðkomu að því hvað þeir læra og hvernig, frá grunnskóla og upp í háskóla. Með þeim hætti mætti fanga áhuga og athygli nemenda betur en gert er í dag, með því að þeir upplifi sig sem virka þátttakendur í eigin menntun. En það er ekkert síður mikilvægt að einstaklingar hafi aðgengi að menntun og endurmenntun á öllum skeiðum ævinnar. Við mótum menntastefnu til framtíðar er mikilvægt að horfa til framtíðarsamfélagsins og þeirra öru samfélagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Aðferðafræði síðustu aldar mun ekki duga til. Hugsa þarf algerlega upp á nýtt hvernig við byggjum upp samfélag sem er í stakk búið til þess að tækla hin fjölmörgu vandamál nútímans sem við stöndum frammi fyrir.

Byggja þarf upp menntakerfi fyrir sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðinguna og fjórðu iðnbyltinguna. Skapa þarf fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með auknum stuðningi við nýsköpun. Ísland hefur tækifæri til að skipa sér í forystu sem þekkingarsamfélag til framtíðar. Það tækifæri er nauðsynlegt að nýta og hvet ég því ráðuneytið til að klára heildarendurskoðun á málaflokknum sem allra fyrst. Þó að þetta sé gott frumvarp, og ég held að þessi nýja stofnun muni vera mikið til bóta ef tekst að innleiða hana á þann hátt sem ætlunin er, þá endurtek ég að brýn þörf er á heildarendurskoðun á menntakerfinu okkar. Auðvitað hefði verið æskilegra að vera búin að fara í þá vinnu áður en þessi breyting, þessi nýja stofnun, kemur til. En úr því að þessi stofnun kemur fyrst verður hún vonandi til þess fallin að aðstoða við innleiðingu á nýrri hugmyndafræði í menntakerfinu og að styðja við kennara og gott menntakerfi.