154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Þá felur frumvarpið jafnframt í sér að mælt er fyrir lagastoð innleiðingar á framseldri tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur, en ákvæði framseldu tilskipunarinnar verða innleidd í íslenskan rétt með reglugerð.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi á þskj. 637.

Nefndin fjallaði um það markmið frumvarpsins að hafa áhrif á neyslu tóbaksvara meðal almennings og þá sérstaklega ungs fólks en huga þarf fyrst og fremst að hagsmunum barna og ungmenna þegar kemur að tóbaksvörum og forvörnum á því sviði. Með frumvarpinu er lagt til að það komi skýrt fram í markmiðsákvæði laganna að sérstaklega skuli unnið gegn tóbaksnotkun ungs fólk og að því að takmarka framboð á tóbaki og eftirlíkingu af tóbaki sem á sérstaklega að höfða til ungmenna. Að mati meiri hluta nefndarinnar er stigið stórt framfaraskref í tóbaksvörnum og unnið gegn tóbaksnotkun ungs fólks.

Í umsögn umboðsmanns barna er bent á að betur færi á því að tilgreina börn sérstaklega í texta markmiðsákvæðisins í 1. gr. í stað þess að nefna einungis ungt fólk. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið umboðsmanns og bendir á að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu er vísað til barna og ungmenna og leggur því til breytingu á 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins þess efnis að börnum verði bætt inn í þá grein.

Þá sköpuðust töluverðar umræður í nefndinni um ákvæði frumvarpsins sem mælir fyrir um að óheimilt verði að setja á markað sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði. Einkum var rætt um áhrif þess að bannað yrði að setja á markað sígarettur með einkennandi mentólbragði og hver gæti talist eðlilegur aðlögunartími að þeirri breytingu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að setja á markað sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði tólf mánuðum eftir gildistöku laganna.

Bent var á að í aðfaraorðum tilskipunarinnar væri gert ráð fyrir að tóbaksvörur með einkennandi bragði ætti að taka af markaði í áföngum yfir lengri tíma til að gefa neytendum hæfilegan tíma til að skipta yfir í aðra vöru og er kveðið á um að tóbaksvörur með 3% eða meiri markaðshlutdeild fái fjögurra ára aðlögun að þessu ákvæði tilskipunarinnar. Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn til að ákvæði um að óheimilt sé að setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði taki gildi 48 mánuðum eftir gildistöku laganna.

Þá eru lagðar til minni háttar lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Magnús Árni Skjöld Magnússon, Guðmundur Ingi Kristinsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.