154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[23:25]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar sem ég veit nú ekki hvort er rétt að kalla andsvar. (BLG: Ekki andspurning.) Einmitt, þetta var kannski ekki andspurning. En ég þakka bara fyrir orð hv. þingmanns og tek undir þetta. Fyrst hann opnaði á bragðefni heilt yfir þá horfir maður auðvitað fljótt framan í ákveðinn tvískinnung í þessu. Það sem má nefnilega ekki gleyma er að sígarettur eru bannaðar börnum, þannig að það eitt og sér er fasti. Svo horfum við t.d. á áfengi sem er líka bannað börnum en það er til jarðarberjaáfengi. Svo enginn misskilji mig þá er ég ekki að mælast til þess að við förum að banna jarðarberjaáfengi en ég myndi halda að það væri talsvert líklegra og það væri meiri hætta. Ef fólk vill passa börn gagnvart öllu því sem getur mögulega komið fyrir þau og það sé gert einhvern veginn af hálfu hins opinbera, að það sé hlutverk þess, ef við erum á þeim stað í lífinu, sem ég er alla jafna ekki, þá þætti mér nú nærtækara að hafa áhyggjur af einhvers konar jarðarberjaáfengi en mentólsígarettum. Ég held að það sé líka það sem er svona frústrerandi við þetta mál, að svona mál fari í gegn þrátt fyrir að því fylgi bæði tvískinnungur og ákveðið tilgangsleysi í því hvað er verið að reyna að ná utan um þegar rökstuðningurinn er ekki meiri. Við eigum að gera betur en þetta.