154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

staðan á Reykjalundi.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta mál hér upp. Þetta er grafalvarlegt mál. Hv. þingmaður rakti mjög vel hlutverk Reykjalundar, þessa öfluga endurhæfingarstaðar. Staðurinn er dásamlegur og hefur sinnt gríðarmiklu hlutverki og í sögulegu samhengi auðvitað miklu hlutverki eins og hv. þingmaður fór vel yfir. Þetta hefur legið í loftinu í einhverja mánuði og stjórnendur Reykjalundar hafa upplýst þann er hér stendur um að það væri verið að gera úttekt og það voru kannski bundnar vonir við að þetta gæti komið betur út heldur en niðurstaðan er.

Núna í lok nóvember var tekin ákvörðun um að loka hluta húsnæðis hjá Reykjalundi, endurhæfingarstöðinni, vegna bágs ástands bygginga og er þetta gert í framhaldi af þeirri úttekt sem kom núna frá verkfræðistofu sem sýnir að hluti húsnæðisins er ófullnægjandi með tilliti til starfseminnar. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, eins og hv. þingmaður fór yfir. Við erum með viðurhlutamikinn samning í gegnum Sjúkratryggingar, við Reykjalund um endurhæfingu á fjölmörgum sviðum og við þurfum að fara yfir það með stjórnendum Reykjalundar hvernig þetta komi við þjónustuna. Það þarf að gera ráðstafanir, flytja starfsfólk og þeir eru byrjaðir á því og við þurfum að vera í sambandi við þá. Það þurfa síðan fleiri að koma að málinu varðandi úrræði sem við horfum til, nú er húsnæðið í eigu SÍBS og hingað til hefur í þessum þjónustusamningi ekki verið gert ráð fyrir neinum viðhaldsgreiðslum þannig að þetta þarf að skoða með fjármálaráðuneyti og Framkvæmdasýslu ríkiseigna. Við höfum boðað stjórnendum það og á fundum með þeim að við viljum leggjast yfir það hvað hægt er að gera til að þetta komi ekki niður á þeim sem þiggja þjónustuna.