154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

tímabundinn vaxtabótaauki.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegri forseti. Já, það er farið er að rætast úr þessari jólagjafasöfnun Kringlunnar af því að almenningur í landinu, heimilin í landinu, eru að píska sig áfram til að taka utan um bræður sína og systur. Það sem hæstv. ráðherra segir svarar ekki einfaldri spurningu: Er hún reiðubúin til þess að taka tímabundið utan um heimilin í landinu með því að taka undir vaxtabætur? Það er verið að skera þær niður núna. Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt á spilin og það á ekkert að gera fyrir þennan hóp.

Viðreisn hefur alveg sagt skýrt og það vita allir að við í Viðreisn erum að hugsa í langtímalausnum. Við teljum m.a. þetta ástand í dag vera birtingarmynd alveg handónýts gjaldmiðils. En meðan staðan er svona þá verðum við að taka tímabundið utan um þennan hóp, hvort sem það er í gegnum vaxtabætur eða önnur úrræði. Við sjáum þess nefnilega ekki merki við 2. umræðu fjárlaga að það eigi að taka utan um þennan hóp. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Á að taka utan um þennan hóp með vaxtabótum? Við í Viðreisn munum styðja það ef ríkisstjórnin kemur fram með slíkt tilboð. (Forseti hringir.) Það er ekki annað í boði en að taka utan um heimilin í landinu. Þetta er fólkið sem vinnur öll störfin. Þetta er fólkið sem borgar skattana sína. (Forseti hringir.) Það þarf á stuðningi samfélagsins að halda. Alveg eins og við gerðum í Covid; við tókum utan um litlu fyrirtækin, meðalstóru fyrirtækin og við tókum utan um ferðaþjónustuna tímabundið. (Forseti hringir.) Við hljótum að geta gert betur fyrir heimilin í landinu.