154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

stuðningur íslenskra stjórnvalda við UNRWA.

[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, hér er spurt um eina af þeim stofnunum sem hvað lengst hefur verið samstarfsstofnun Íslands í mannúðarmálum og við höfum haft góða reynslu af samstarfi við þessa stofnun. Þetta er stofnun sem öll Norðurlönd styðja og ber t.d. að nefna að Noregur fer fyrir sérstökum hópi gjafaríkja sem leggja stofnuninni til stuðning, en Bandaríkin eru þó með stærsta framlagið. Það er ástæða til að skoða sjálf verkefnin sem stofnunin sinnir en þegar við veltum því fyrir okkur þá sjáum við að hér er um nokkuð víðtæka mannúðaraðstoð að ræða; það er stuðningur við grunnmenntun, það er stuðningur við heilbrigðis- og félagsþjónustu. Við sjáum að á vegum stofnunarinnar er rekstur á 700 skólum á svæðinu, þar af eru 183 á Gaza-svæðinu, en stofnunin er bæði að sinna Palestínuflóttafólki á Gaza en líka á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem en þar fyrir utan í Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Á vegum stofnunarinnar eru 120 heilsugæslustöðvar og þar af hafa verið starfræktar 22 á Gaza.

Í ljósi þessa víðtæka mannúðarstarf sem fer fram á vegum þessarar stofnunar þá höfum við ekki haft áhyggjur af þessu en þetta hefur samt borið á góma á þeim fundum sem ég hef sótt með öðrum utanríkisráðherrum, að vegna þessarar umræðu sem sums staðar hefur skotið upp kollinum þá hafa ríkin, þ.m.t. Bandaríkin, verið að ganga sérstaklega eftir því að peningarnir skili sér þangað sem þeim er beint. (Forseti hringir.) Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með því eins og aðrir (Forseti hringir.) en ég held að við munum ekki geta gert mikið af eigin rammleik heldur þurfum að styðjast við samstarf við aðrar þjóðir í því efni.