154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

fyrirkomulag samstarfs og samhæfingar í stjórnkerfinu vegna náttúruvár.

[15:43]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að búa á Íslandi en samt sem áður reynast náttúruöflin landsmönnum oft óblíð eins og Grindvíkingar hafa heldur betur fundið fyrir síðustu mánuðina. Síðustu árin höfum við upplifað alla vega hamfarir eins og óveðrið 2019, snjóflóð á Flateyri, aurflóð í Þingeyjarsveit, aurflóð á Seyðisfirði og óveður á Austfjörðum fyrir rúmu ári og svo aftur snjó- og krapaflóð þar á útmánuðum. Þegar þetta gerist virkjast kerfin sem við höfum byggt upp hér á landi; almannavarnir, náttúruhamfaratryggingar og ofanflóðasjóður, sem þó sinnir einkum forvörnum. Þetta eru góð verkfæri sem við höfum byggt og bætt jafnt og þétt síðustu 50 árin en við getum enn haldið áfram að bæta.

Mig langar þess vegna að nota tækifærið hér og spyrja sérstaklega út í mikilvægan þátt í viðbragðinu en það er fyrirkomulag samstarfs og samhæfingar milli ráðuneyta þegar náttúruhamfarir ganga yfir sem og í kjölfar þeirra. Eins vil ég spyrja um formið á samstarfi Stjórnarráðsins við þau sveitarfélög sem í hlut eiga hverju sinni. Ég hef tvisvar lagt fram tillögu um að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmið úttektarinnar væri þá að greina hverju sé helst ábótavant og draga fram leiðir til að bæta úr. Í því samhengi hefur m.a. verið bent á að gott væri að skýra hvernig kostnaður opinberra aðila sem verða fyrir tjóni sé metinn og hvernig úrbætur eru fjármagnaðar og þá hvernig kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og viðgerða innviða í kjölfar náttúruhamfara skiptist milli ríkis og sveitarfélaga.

Hæstv. forseti. Ég spyr einnig hvernig búið sé um samstarf ráðuneytanna í lögum eða starfsreglum og hvernig búið sé um þetta sama samstarf þeirra við sveitarfélögin.