154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

fyrirkomulag samstarfs og samhæfingar í stjórnkerfinu vegna náttúruvár.

[15:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og ítreka að ég álít að okkur hafi tekist býsna vel til við uppbyggingu á almannavörnum, forvörnum og tryggingum en við þurfum stöðugt að vera á vaktinni varðandi frekari umbætur. Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, af hverjum atburði, af rannsóknum og vöktun, bæði innan lands og utan, og af reynslunni sem safnast upp hjá einstaklingunum sem lenda í þessu og eru í framlínunni á vaktinni fyrir almannavarnir og í sveitarfélögunum, fólkinu sem er að vinna á vettvangi. Við verðum að taka þennan lærdóm skipulega saman og aðlaga verklagið og kerfin. Miðað við upplýsingar sem mér hafa borist úr samtölum við fólk á síðustu árum varðandi sérstaklega það sem ég kom inn á í fyrirspurninni, samskipti innan Stjórnarráðs og við sveitarfélögin, þá heyrist mér að orðið sé býsna skýrt hvernig fyrsta viðbragðið er en svo vanti aðeins (Forseti hringir.) upp á framhaldið, kostnaðarskiptingu og gagnsætt uppgjör og samantekt á reynslu.