154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

fjölmiðlar.

32. mál
[16:23]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/1808 um breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2010. Frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni var áður lagt fram á 151. og 153. löggjafarþingi. Frumvarp þetta er efnislega óbreytt en hefur verið uppfært með tilliti til umsagna sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd á 153. löggjafarþingi. Frumvarpið er samið í þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti sem og í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Ekki er mælt fyrir um aðrar breytingar í frumvarpinu en þær sem leiða má af hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins frá 2018.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjölmiðla í því skyni að uppfæra regluverk um fjölmiðla til samræmis við þær miklu breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlaumhverfi og fjölmiðlanotkun almennings á undanförnum árum. Ekki hefur farið fram hjá neinum að umhverfi fjölmiðla hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum vegna tækninýjunga, nýrra miðlunarleiða, tilkomu samfélagsmiðla og áhrifa netsins á fjölmiðlun. Sambærilegar breytingar hafa orðið í nágrannaríkjum okkar og um allan heim. Áhorfsvenjur einstaklinga hafa breyst, barna jafnt sem fullorðinna. Línulegt áhorf á sjónvarp hefur minnkað og meira er horft á efni í ólínulegri dagskrá og á svokölluðum mynddeiliveitum eins og YouTube, Facebook og Instagram. Nauðsynlegt er talið að lagaumhverfi fjölmiðla endurspegli þessar breytingar og að tilteknar reglur um myndefni séu samræmdar á öllu EES-svæðinu. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða öðru fremur að því að tryggja vernd barna og öryggi notenda myndmiðla óháð því hvort myndefni er miðlað með línulegum eða ólíklegum hætti og óháð því hvort myndefni er miðlað í fjölmiðlum eða á mynddeiliveitum.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að nýjar skyldur verði lagðar á mynddeiliveitur um að tryggja vernd barna með tæknilegum úrræðum og gera notendum kleift að tilkynna efni sem hvetur til ofbeldis eða hryðjuverka. Auk þess eru gerðar kröfur um skýrar merkingar auglýsingaefnis á mynddeiliveitum.

Í öðru lagi er lagt til að reglur um auglýsingar í línulegri sjónvarpsdagskrá verði rýmkaðar með þeim hætti að hámarkshlutfall auglýsinga verði 20% á tilteknum tímabilum en ekki bundið við 20% á klukkustund eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Þessum breytingum er ætlað að styrkja hefðbundna fjölmiðla í samkeppni við streymisveitur og samfélagsmiðla.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði kröfur um 30% hlutfall íslensks og annars evrópsks efnis í ólínulegri dagskrá, en samkvæmt núgildandi lögum eru sambærilegar kröfur einungis gerðar til línulegrar sjónvarpsdagskrár. Til að auðvelda nýjum aðilum að koma inn á markaðinn er jafnframt lagt til að fjölmiðlaveitur með lítið áhorf eða lága afkomu geti verið undanþegnar skyldunni.

Í fjórða lagi miðar efni frumvarpsins af því að fjölmiðlar bæti aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni með virkum hætti. Frumvarpið er þannig til þess fallið að efla réttindi sjón- og heyrnarskertra, sérstaklega rétt til táknmáls, textunar og hljóðlýsingar á því efni sem miðlað er. Er hér um að ræða útfærslu á réttindum sem leiðir af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt.

Í fimmta lagi er lagt til að innleitt verði ákvæði sem heimili tímabundna stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum ef fjölmiðlaþjónusta brýtur augljóslega, verulega og alvarlega gegn reglum um bann við hvatningu til hryðjuverka eða með því að skaða eða ógna almannaöryggi.

Loks miðar efni frumvarpsins af því að valdefla almenning með því að auka fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi. Upplýsinga- og miðlalæsi er talin nauðsynleg færni í nútímasamfélagi og mikilvægur hluti af netöryggi almennings, m.a. vegna netsvika og upplýsingaóreiðu á stafrænum miðlum. Í upplýsinga- og miðlalæsi felst færni til að leita áreiðanlegra upplýsinga, miðla upplýsingum og leggja gagnrýnið mat á þær upplýsingar sem birtast okkur í fjölmiðlum og á stafrænum miðlum af ýmsu tagi.

Virðulegi forseti. Ég tel að það frumvarp sem ég mæli hér fyrir feli í sér ýmsar réttarbætur í takti við þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi fjölmiðla á undanförnum árum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari 1. umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.