154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:29]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu, eins og sjá má í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Samkvæmt lögunum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál jafn skjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætting sjón- og heyrnarskerðingar hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Í janúar 2020 var skipaður starfshópur með fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra til að vinna að málstefnu íslensks táknmáls samkvæmt þingsályktun nr. 36/149, um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Starfshópurinn vann drög að málstefnu og aðgerðaáætlun með málstefnunni í víðu samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Í tillögunni er hugtakið táknmálsfólk notað sem yfirheiti yfir þá sem líta á íslenskt táknmál sem sitt móðurmál eða fyrsta mál eða þá sem eru tví- og fjöltyngdir og líta á íslenskt táknmál sem eitt af sínum málum. Hugtakið vísar bæði til fullorðinna og barna, þ.e. táknmálsbarna.

Virðulegi forseti. Áherslur í málstefnum minnihlutamála geta verið ólíkar áherslum í málstefnum meirihlutamála og byggst á öðrum forsendum. Málstefna íslensks táknmáls tekur til eftirfarandi sex meginstoða:

a. Máltöku táknmálsbarna,

b. rannsókna og varðveislu,

c. jákvæðs viðhorfs,

d. fjölgunar umdæma íslensks táknmáls,

e. lagaumhverfis,

f. máltækni.

Virðulegur forseti. Í meginstoð a er fjallað um máltöku táknmálsbarna. Vandað máluppeldi og málkunnátta eru grunnurinn að öllu námi barna og samskipta þeirra við umheiminn. Öll börn eiga að fá ríkt málumhverfi strax frá fæðingu og tækifæri til að læra tungumálið og dýpka skilning sinn á því þannig að þau geti þroskast og dafnað.

Í meginstoð b er fjallað um rannsóknir og varðveislu; rannsóknir á tungumálum, sögu þeirra og menningu eru grundvöllur þekkingar og kennslu. Leggja þarf áherslu á söfnun gagna vegna rannsókna á minnihlutatungumálum því að aðgengi að þeim er eðli málsins samkvæmt minna.

Í meginstoð c er fjallað um að jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls sé grunnur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og að aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið skipti sköpum. Sýnileiki málsins hafi að sama skapi jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra sem tala málið og þar með viðhorf þeirra sem og annarra til tungumálsins.

Í meginstoð d er fjallað um notkunarsvið tungumálsins. Með því að leggja áherslu á að sjálfsagt sé að nota íslenskt táknmál á öllum sviðum íslensks samfélags til jafns við íslensku eykst þátttaka fólks sem talar íslenskt táknmál í íslensku þjóðlífi.

Í meginstoð e er fjallað um að á Íslandi hafi staða íslensks táknmáls verið tryggð með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Nauðsynlegt sé að framfylgja þeirri lagasetningu.

Að lokum er fjallað um máltækni í meginstoð f. Með þróun fjarnáms og námsefnis sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu er hægt að tryggja aðgengi allra að námi í íslensku táknmáli, óháð búsetu og vinnutíma. Aukið aðgengi að málföngum, svo sem táknalistum eða upptökum á ólíkri málnotkun, skapar aukna möguleika á uppbyggingu máltæknilausna fyrir íslenskt táknmál.

Virðulegi forseti. Með málstefnunni fylgir aðgerðaáætlun fram til ársins 2027. Gert er ráð fyrir að samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra getið tekið meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun í góðu samráði við aðra aðila eftir því sem við á.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.