154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína um þessa þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls fyrir árin 2024–2027 og aðgerðaáætlun. Án þess að lengja þessa umræðu mjög mikið þá langar mig að koma hér sérstaklega upp til að fagna þessari þingsályktunartillögu þar sem stungið er upp á að Alþingi álykti að íslenskt táknmál fái stöðu hefðbundins minnihlutamáls og fyrsta máls þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og að þetta nái einnig til barna. Mér finnst mikilvægt að koma hér upp og ítreka mikilvægið vegna þess að þetta er grundvallarmál þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks, réttindum heyrnarlausra til tjáningar og samskipta og réttinda til tjáningar og samskipta á opinberu viðurkenndu tungumáli. Sagan hefur því miður sýnt okkur að það hefur svo sannarlega ekki alltaf verið farið vel með heyrnarlaust fólk í okkar samfélagi og þá kannski sér í lagi heyrnarlaus börn. Þess vegna skiptir það máli að stefna sem þessi sé sett fram og að það sé sett fram aðgerðaáætlun og síðast en ekki síst að íslenskt táknmál fái þessa formlegu viðurkenningu sem tungumál. Hér eru vitaskuld, líkt og er í svona aðgerðaáætlunum, nefnd ýmis atriði og ég treysti allsherjar- og menntamálanefnd fullkomlega til að kafa frekar ofan í hvern punkt. Kannski er þörf á því að skerpa einhvers staðar á eða hnýta einhverjar skrúfur fastar, eins og gerist bara í umfjöllun um þingmál hér almennt, en ég treysti því að innan ekki svo langs tíma fáum við þetta mikilvæga mál aftur hingað inn í þingsalinn þar sem við samþykkjum þessa tillögu og eflum þannig og bætum stöðu þeirra sem nota táknmál í íslensku samfélagi og tökum þar með líka risavaxið skref í því að bæta stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.