154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[17:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál sem við ræðum hér, tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026. Íslenskan er að þróast líkt og hún hefur líklega alltaf gert. Það hafa aldrei verið fleiri sem nota íslensku í sínu daglega lífi og það hafa örugglega heldur aldrei verið fleiri sem læra íslensku til þess að geta notað í sínu lífi og starfi. Við þetta allt saman bætast tæknibreytingar sem gera það einnig að verkum að við þurfum að huga sérstaklega að tungumálinu okkar, sem er örtungumál í hinum stafræna heimi. Við viljum að það komi vel út úr þessum tæknibreytingum og verði okkur áfram nýtilegt í leik og starfi. Ég held líka að þetta sé ekki bara tímabært mál til að taka fyrir hér og nú heldur einnig mál sem kemur til með að skipta máli til framtíðar, einmitt vegna þess að hér á landi býr fullt af fólki sem vill læra íslensku til þess að geta notað í sínu daglega lífi á Íslandi.

Það er mikilvægt að taka það mál föstum tökum að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir fyrir bæði fullorðna og börn til að læra og öðlast færni í íslensku. Það kemur til með að skipta ekki bara þessa einstaklinga máli til framtíðar heldur er það í mínum huga partur af vaxandi góðum lífskjörum á Íslandi, partur af því að hér geti ríkt jöfnuður og þar með partur af því að hér ríki stöðugleiki í samfélaginu þar sem við öll, hvort sem við getum rakið ættir okkar langt aftur hér á Íslandi eða erum búin að vera hér í skemmri tíma og hvort sem við hyggjum á að vera hér út okkar ævi eða í einhvern tímabundinn tíma, getum tekið þátt í samfélaginu. Þess vegna fagna ég því mjög hvað í þeim andsvörum og umræðum sem hafa farið fram í dag um þetta mál er jákvæður tónn þó svo, eins og alltaf er, það vakni upp einhverjar spurningar sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi svarað ágætlega hér á undan. Það skiptir máli að við á Alþingi getum sameinast og tekið saman höndum um þetta mál. Ekki síður að við sem íslenskt samfélag grípum einnig og lyftum undir, hvort sem það eru nágrannar, foreldrar barna sem eiga bekkjarfélaga sem hafa íslensku sem annað mál eða atvinnurekendur, og tökum öll boltann hvert á okkar svæði og hjálpumst að við að öll læri og geti notað íslensku, og með vaxandi kunnáttu. Þess vegna fagna ég því líka hvað aðgerðirnar í þessari aðgerðaáætlun eru fjölbreyttar og í rauninni gott veganesti fyrir íslenskt samfélag sem heild en ekki bara einhverjar tilgreindar einingar þess. Það er nú oft sagt að það þurfi heilt samfélag til að ala upp barn og partur af því að læra tungumál er að allt samfélagið sé tilbúið til þess að leyfa og hjálpa fólki að spreyta sig en einnig að veita því tækin og tólin til þess að öðlast aukna færni í málinu. Það gengur þessi tillaga nákvæmlega út á.