154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

ákvörðun nr. 190/2022 um breytingar á XI. viðauka við EES-samninginn o.fl.

383. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2022 um breytingu á XI. viðauka um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið, nr. 191/2022 um breytingu á XIII. viðauka um flutningastarfsemi, nr. 17/2023 um breytingu á IX. viðauka um fjármálaþjónustu og nr. 50/2023 um breytingu á V. viðauka um frjálsa för launþega og VIII. viðauka um staðfesturétt við EES-samninginn

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:

1. Ákvörðun nr. 190/2022 sem fellir inn í samninginn tilskipun 2019/1024 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

2. Ákvörðun nr. 191/2022 sem fellir inn í samninginn tilskipun 2019/883 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB.

3. Ákvörðun nr. 17/2023 sem fellir inn í samninginn framkvæmdareglugerð 2021/369 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849.

4. Ákvörðun nr. 50/2023 sem fellir inn í samninginn reglugerð 2019/1157 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar.

Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund eins og kemur fram í nefndaráliti sem liggur frammi.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti utanríkismálanefndar til að þingsályktunartillagan verði samþykkt en undir álitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Bjarni Jónsson, Jakob Frímann Magnússon og Logi Einarsson.