154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

ákvörðun nr. 190/2022 um breytingar á XI. viðauka við EES-samninginn o.fl.

383. mál
[17:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að koma hér örstutt upp og lýsa yfir ánægju minni með að hér sé verið að ganga skref í áttina að því að opna betur upp aðgengi að gögnum. Ákvörðun nr. 190/2022 felur einmitt í sér að yfirvöld þurfa að láta safna, framleiða, fjölfalda og dreifa mikilvægum og margvíslegum upplýsingum. Þarna er verið að tryggja aðgang almennings að gögnum sem síðan er hægt að nýta á ýmsan máta. Gott dæmi um þetta gætu verið t.d. gögn um veður og jarðskjálfta, eitthvað sem við Íslendingar tengjum vel við núna á þessum tíma, að með því að gera gögnin opinber og gera þau opin og aðgengileg hverjum sem er þá geti t.d. vísindamenn og aðrir annars staðar frá fengið aðgang að gögnum sem þeir geta síðan nýtt sér í sínar rannsóknir. Það sem er líka gott við þetta er að við erum að fá aðgengi að alls konar gögnum sem ríkið er með og heldur utan um sem gefur okkur t.d. nýja möguleika á því að taka betur upplýstar ákvarðanir með því að gera þessi gögn aðgengileg. Það er hins vegar sárt að segja að íslenska ríkið er mjög langt á eftir þegar kemur að því að opna upp sín gagnasett. Það er von mín að með því að samþykkja þessa ákvörðun nr. 190/2022 verði gert átak í því að bæta aðgengi að þessum gögnum.

Svo langar mig að nefna að þarna er líka verið að samþykkja ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 sem fjallar um nafnskírteini og öryggi persónuskilríkja en við höfum einmitt nýverið samþykkt lög á Alþingi sem öðluðust gildi bara nú fyrir helgi. Það er ánægjulegt að sjá að það var farið eftir þessum reglum um hvernig tryggja ætti öryggi og efla öryggi þeirra nafnskírteina út frá þessari ákveðnu reglugerð. Þannig að hér eru góðir hlutir að koma frá Evrópusambandinu og mæli ég með því að menn kynni sér þetta og samþykki þegar kemur til atkvæðagreiðslu.