154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[17:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta ræðu hjá hv. þingmanni. Það voru þó hlutir sem þarna komu fram sem ég get ekki alveg fellt mig við hvernig eru orðaðir, að sveitarfélögin séu að kenna fötluðu fólki um að þau séu illa rekin. Þannig hefur þessu ekki verið stillt fram. Hv. þingmaður þekkir það hins vegar vel sem sveitarstjórnarmaður að samningar milli ríkis og sveitarfélaga taka ekki alltaf nauðsynlegum breytingum og ef við tökum bara þennan tiltekna málaflokk þá gerðist það nú skömmu eftir yfirfærsluna að það breyttust lög héðan frá Alþingi, m.a. um aðbúnað fyrir þetta fólk, sem á það svo sannarlega skilið, án þess að það fylgdu einhverjar bætur og uppreikningur á samningnum. Um það snýst málið. Um það skulum við taka höndum saman. Það er gleðilegt auðvitað að það eigi að setja 6 milljarða inn í þennan málaflokk til sveitarfélaganna. Það er hins vegar áætlað að það vanti tvöfalt meira. Þetta er því ekki fullnaðaruppgjör heldur er þetta áfangi á leið sem við hljótum öll, sama hvar í flokki við stöndum hér á þingi, að taka höndum saman um að klárist. Það skiptir máli að þessi samningur sé vel og rétt fjármagnaður einmitt vegna þess að við deilum öll hér inni, held ég, þeirri skoðun að einstaklingar sem glíma við fötlun eigi að lifa innihaldsríku og góðu lífi. Hér var höfuðborgin sérstaklega nefnd og hún er auðvitað stór veitandi þessarar þjónustu. En ég mótmæli því að þessu hafi verið stillt þannig upp (Forseti hringir.) að það sé fötluðu fólki að kenna að sveitarfélögin séu illa rekin. (Forseti hringir.) Ég ætla að koma aðeins inn á mun á ríki og sveitarfélagi (Forseti hringir.) og fjármögnun þeirra í síðara andsvari.