154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Vinnum bug á verðbólgunni og mildum höggið fyrir heimilin. Þetta eru markmið kjarapakkans sem við í Samfylkingunni kynnum í dag, áherslur okkar vegna fjárlagaársins 2024. Í stað þess að grafið sé undan velferðarþjónustunni og höggvið að mennta- og heilbrigðiskerfinu með flötum niðurskurði þá leggjum við til að fjármálageirinn og stórútgerðin greiði meira til samfélagsins, að girt verði fyrir tekjutilflutning og fjármagnstekjuskattur hækkaður lítillega á tekjuhæstu 10%. Í stað þess að 5.000 heimili séu skert út úr vaxtabótakerfinu og stuðningur ríkisins við skuldsett heimili rýrður um 700 milljónir milli ára, eins og ríkisstjórnin leggur til, þá krefjumst við þess að komið verði til móts við skuldsett og tekjulág heimili með hærri vaxtabótum, að staða leigjenda verði styrkt með hærri húsnæðisbótum, með leigubremsu, leigustýringu að danskri fyrirmynd og með því að koma böndum á stjórnlausan skammtímaleigumarkað. Og, forseti, við getum ekki horft upp á það að bændur séu skildir eftir á köldum klaka þegar vextir hafa hækkað upp úr öllu valdi. Heimili bænda eru samofin búskapnum og þess vegna ættu bændur í skuldakröggum líka að fá vaxtabætur. Þetta er ein af tillögum okkar í ár. En allar tillögurnar snúa að því að verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu, vinna gegn verðbólgu og verja fólk fyrir verðbólgu. Þetta er skylda stjórnvalda og þetta er skylda fjárstjórnarvaldsins hér á Alþingi á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta.