154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Margt fólk er hart leikið af lánastofnunum þessa dagana, ekki bara vegna dýrtíðar og verðbólgu heldur ekki síður vegna þess hvernig fjármálastofnanir, bankar og lánveitendur komast upp með að beita fólk margs konar harðræði og þrengja að möguleikum þess til að fá notið eðlilegra og sanngjarnra lánakjara og úrlausn sinna mála hjá viðskiptabönkum sínum, oftar en ekki hjá viðskiptabönkum sem hafa verið þeirra frá barnsaldri eða lífeyrissjóðum sem þau hafa greitt til gegnum ævina, lánastofnunum sem þau eru jafnvel bundin skuldafjötrum gegnum óhagstæð íbúðalán sem ekki fæst breytt til hagfelldari veru hjá sömu lánastofnunum eða flutt annað vegna verðfellingar á lánshæfi þeirra, jafnvel eins og nú yfir nótt. Stór hluti Íslendinga á örlög sín undir fyrirtækjum eins og Creditinfo sem eftirlitslítið safnar upplýsingum um fjárhagsstöðu fólks, metur hversu líklegt fólk er til að standa í skilum og verslar svo með og selur þær upplýsingar. Félagið er ekki háð neinu eftirliti og hafa Neytendasamtökin gert alvarlegar athugasemdir við það.

Þann 23. nóvember tilkynnti Creditinfo skyndilega og fyrirvaralaust um breytingar á gerð lánshæfismats sem fólst í að greiðslusaga einstaklinga var skoðuð lengra aftur í tímann. Þessar breytingar urðu til þess að lánshæfismat margra lækkaði bókstaflega yfir nótt. Fólk sem einhvern tímann var í vanskilum en hefur lengi staðið í skilum er skyndilega metið ótraustari lántakendur, ekki vegna breytinga á högum þess heldur vegna breytinga á verkferlum hjá einu fyrirtæki, fyrirtæki sem er með einokun á markaði og sölu persónuupplýsinga og að því er virðist geðþóttaákvarðanir um mælikvarða. Fjöldi fólks hefur misst lánsheimildir og lánstraust hjá lánveitendum, ekki vegna breytinga á eigin högum heldur vegna breytinga hjá Creditinfo. Breytingarnar hafa haft stórkostlegar, víðtækar og skyndilegar afleiðingar fyrir 40% Íslendinga. Vart verður sagt að fyrirtækið hafi (Forseti hringir.) gætt meðalhófs í aðgerðum sínum, hvorki veitt fólki upplýsingar um það fyrir fram né gefið kost á andmælum.

Ég tek undir með Neytendasamtökunum sem hafa kallað eftir því að stjórnvöld (Forseti hringir.) hafi eftirlit með og láti gera úttekt á virkni lánshæfismats Creditinfo. Þau hafa lengi bent á að ekkert eftirlit sé með því hvernig lánshæfismat er reiknað út og (Forseti hringir.) hvaða breytur stjórni því. Þessa ósvinna á ekki að líðast. Hér þarf að bregðast við.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður við tvær mínútur.)