154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það blasa miklar áskoranir við þjóðinni þegar kemur að raforkuframleiðslu og raforkuframboði í landinu. Það birtist okkur í þeim neyðarlögum sem nú er verið að setja á Alþingi til að tryggja að heimilin verði ekki fyrir skerðingu á raforku á komandi vetri. Það hefur síðan skelfilegar afleiðingar fyrir þá atvinnu- og verðmætasköpun sem er í pípunum og hjá fyrirtækjum sem þurfa á raforku að halda. Má þar nefna til að mynda gagnaversiðnaðinn, sem er nú talinn einn helsti vaxtarbroddur í grænum iðnaði á Íslandi hjá fyrirtækjum sem hafa verið mörg hver að undirbúa sig undir að fara að þjónusta gervigreindarfyrirtæki úti um heim þar sem eftirspurnin er mikil og gríðarlega mikið af afleiddum störfum verður til og mjög fjölbreytt og verðmæt atvinnustarfsemi. Þessi áform verður öll að leggja á ís vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Ég hef áður farið yfir hér í ræðu hver saga þess er.

Svo sjáum við í dag að það eru að birtast tillögur í samráðsgátt frá verkefnisstjórn rammaáætlunar 5. Þar birtast gamlir kunningjar í orkukostum eins og Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá og Skrokkalda. Þetta eru kostir sem voru í nýtingarflokki rammaáætlunar þegar verkefnastjórn um rammaáætlun 2 skilaði af sér fyrir um 10, 12 árum síðan. Svo er þetta búið að velkjast í kerfinu svona fram og til baka og enn er þetta að velkjast í kerfinu og þessir kostir eru núna aftur komnir í nýtingarflokk. Þetta er svona sambærilegt við það að við erum búnir að berjast í 20 ár við að leggja einhverja Suðurnesjalínu og við komum ekki enn þá rafmagni norður yfir frá Blöndu til Akureyrar. Þetta eru allt saman kerfislæg vandamál sem við glímum við og kostnaður samfélagsins af því að þetta skuli ganga með þessum hætti hér undir stjórn (Forseti hringir.) Alþingis er auðvitað skelfilegur og hleypur orðið á tugum milljarða króna fyrir íslenskt samfélag á hverju ári fyrir utan það stopp sem verður núna í atvinnu- og verðmætasköpun (Forseti hringir.) í landinu vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.