154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. 3. desember er alþjóðadagur fatlaðs fólks og það var haldið upp á hann hér á Íslandi sem og annars staðar. Markmiðið með þessum degi er upplýst samfélag, en ekki bara þennan tiltekna dag heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfstæðra réttinda. Það liggur nú þegar fyrir þinginu stefnumótun eða landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem er lögð fram af félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem er mjög gott og brýnt og mikilvægt mál.

En hví tek ég þetta upp hér í umræðum undir liðnum störf þingsins? Það er vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að brýna þingheim í því að muna að það er alveg sama hvaða mál við ræðum hér í þingsal, hvort sem það er samgönguáætlun eða tillaga til þingsályktunar um eflingu íslenskunnar eða hvaða annað mál sem við nú ræðum hér, það er mál sem mun líka taka til fatlaðs fólks vegna þess að fatlað fólk er alls konar. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er fatlað fólk um 15% af mannkyninu. Það þýðir að u.þ.b. 57.000 manns hér á landi eru fatlað fólk. Við verðum að fara að venja okkur á það hér að öll mál sem við hér ræðum eiga að rúma fatlað fólk, ekki hugsa í sérlausnum þegar að þeirra málum kemur. (Forseti hringir.) Það þarf stundum að gera eitthvað aukalega en fyrst og fremst eiga öll lög að ná til fatlaðs fólks alla daga.