154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Stóra mentólsígarettumálið hér á þinginu í gær var í raun afar kærkomið innan um allt það naglasúpuflóð evrópskra tilskipana um stórt og smátt sem fullveldið Ísland hefur látið bjóða sér í vaxandi mæli undanfarin ár. Næst verða það ófrávíkjanlegar álögur á nauðsynjavöru í sjóflutningum og svo þau til skamms tíma sjálfsögðu lífsgæði Íslendinga að fá að ferðast til sólarlanda kannski svona tíu daga á ári. En hvers vegna er hér tilnefnt stóra mentólsígarettumálið? Jú, það speglar svo vel þá vaxandi afskiptasemi júróbírókratana allra sem vilja setja okkur fyrir í smáatriðum hvernig lífinu skuli háttað hér á Íslandi. Þið megið reykja sígarettur eins og ykkur lystir, nema bara alls ekki mentólsígarettur og engin tóbaksviðskipti milli landa, takk, en landamæralaus áfengisviðskipti eru leyfð. Hvað verður það næst, virðulegi forseti? Tyggigúmmí skal heimilað en þó alls ekki bleikt kúlutyggjó. Eða: Plástrar skulu seldir í húðlitunum en alls ekki fánalitunum, hvað þá bleikum litum. Hvers konar nördisma erum við eiginlega að undirgangast hér án þess að fá nokkra rönd við reist? Við reisn? Nýjasta krafan er sumsé um að undirgangast nýja refsiskatta frá Brussel fyrir það að nota skip til flutninga á nauðsynjavöru sem óhjákvæmilega mun í framhaldinu hækka verð slíkrar vöru og svo fyrir að stunda millilandaflug knúið hefðbundnu eldsneyti meðan grænt flugvélaeldsneyti er hvergi í sjónmáli. Þetta mál þolir enga bið, afgreiðist hratt og fyrirvaralaust, ella verður refsað, segja þeir þarna ytra. Við höfum viku til að þegja, hlýða og kvitta.

Með þessu er ekki einungis verið að varpa átthagafjötrum á tekjulægstu og viðkvæmustu hópa Íslands heldur einnig verið að vega alvarlega að þeirri atvinnugrein sem mestar tekjur hefur fært okkur undanfarinn áratug, sjálfri ferðaþjónustunni. Það hafa aldrei talist góðir búskaparhættir að slátra mjólkurkúnum sínum nema þá í sjónmáli væru aðrir afkomumöguleikar og betri. Slíkir búhnykkir blasa ekki beinlínis við í dag, herra forseti, nema síður væri. Guð blessi hið svokallaða fullvalda Ísland.