154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta hv. velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Frumvarpið er hluti af viðbrögðum ríkisstjórnar Íslands við þeirri óvissu sem ríkir í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesskaga og er lagt fram í ljósi alvarlegs ástands í Grindavíkurbæ.

Frumvarpið felur í sér að lögfest er tímabundið stuðningsúrræði til að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringanna. Stuðningurinn verður veittur í formi beins fjárstuðnings úr ríkissjóði og mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmdina. Að mati meiri hluta nefndarinnar felur frumvarpið í sér mikilvægt skref til að mæta þeim húsnæðisvanda sem Grindvíkingar standa frammi fyrir.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið gesti á sinn fund, m.a. frá Grindavíkurbæ og félagasamtökum leigjanda, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Nefndin fjallaði sérstaklega um c-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins en í ákvæðinu er gert ráð fyrir að sértækur húsnæðisstuðningur verði einungis greiddur á grundvelli einnar umsóknar vegna sama húsnæðis á hverjum tíma. Fyrir nefndinni var fjallað um möguleika grindvískra fjölskyldna til að sameinast um leigu á húsnæði og fá stuðning til þess samkvæmt frumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar áréttar það sem fram kemur í athugasemdum við 9. gr. í greinargerð frumvarpsins, um að tvær fjölskyldur geti leigt saman húsnæði enda komi skýrt fram í leigusamningum hvernig hið leigða húsnæði skiptist á milli þeirra. Meiri hluti nefndarinnar telur framangreint geta átt við um tvær eða fleiri fjölskyldur og telur tilvísun í greinargerð dæmi en ekki tæmandi.

Nefndin fjallaði að auki um mikilvægi þess að samhliða gildistöku þess úrræðis sem frumvarpið mælir fyrir um fari fram kynning á því og að tryggt verði að kynningin nái til þeirra hópa sem úrræðið kemur helst til að nýtast. Taka þarf sérstakt tillit til þess að íbúar á Grindavíkursvæðinu eru af ýmsum þjóðernum og því verður að tryggja að upplýsingar um úrræðið verði aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku. Nefndin hvetur sérstaklega til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti upplýsingar um það úrræði sem frumvarpið kveður á um a.m.k. á ensku og pólsku auk íslensku.

Þá bendir nefndin á að úrræði frumvarpsins hefur takmarkaðan gildistíma og stuðningur samkvæmt því rennur út 29. febrúar 2024. Eins og áður segir ríkir algjör óvissa um atburðarásina á svæðinu og því er erfitt að spá fyrir um framvindu mála. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að stjórnvöld fylgist áfram náið með framvindunni og grípi til aðgerða til að styðja við bakið á Grindvíkingum. Mikilvægt er að taka upplýsta ákvörðun áður en úrræðið rennur sitt skeið um það hvort frekari aðgerða sé þörf til þess að styðja við húsnæðismál Grindvíkinga.

Þá ætla ég að fara yfir helstu breytingar sem meiri hlutinn leggur til en vísa að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Lögð er til breyting á ákvæði frumvarpsins sem fjallar um umsókn um sértækan húsnæðisstuðning þess efnis að lagt er til að umsóknir um stuðning verði að berast Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í síðasta lagi 31. maí 2024. Gert er þá ráð fyrir að berist umsókn ekki fyrir það tímamark falli niður réttur til stuðnings á grundvelli fyrirhugaðra laga. Hér er um að ræða sama tímamark umsókna og gert er ráð fyrir í nýsamþykktum lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Eðlilegt er að binda úrræðið sama tímamarki.

Þá er lögð til breyting sem varðar skráningu aðseturs einstaklinga innan lands sem hafa lögheimili hér á landi en þurfa að yfirgefa heimili sín að boði yfirvalda vegna neyðarástands. Úrræðið eins og það er lagt til byggir á slíkri skráningu. Hvorki í lögum um lögheimili og aðsetur né í reglugerð um lögheimili og aðsetur er að finna heimild til aðsetursskráningar vegna slíkra óviðráðanlegra ytri atvika. Í óviðráðanlegum tilvikum á borð við þau sem nú standa yfir í Grindavík, sem krefjast rýmingar tiltekinna svæða, er mikilvægt fyrir viðbragðsaðila og aðra að geta í kjölfarið staðsett viðkomandi íbúa. Almennt er það svo að aðsetursskráning innan lands er einungis heimil í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis samkvæmt 3. mgr. 2. gr laga um lögheimili og aðsetur, þ.e. í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Þegar svo háttar til að fjöldi einstaklinga þarf að yfirgefa heimili sitt eins og gerst hefur í Grindavík þá verður að víkja frá þeirri reglu og heimila aðsetursskráningu eins og hér stendur til, t.d. í frístundahúsnæði og öðru húsnæði þar sem búseta væri almennt ekki heimiluð, þ.e. lögheimilisskráning væri ekki heimiluð. Búsetunni er ætlað að vara tímabundið meðan einstaklingarnir með aðstoð stjórnvalda finna varanlegri lausn meðan ekki er hægt að snúa aftur á heimili viðkomandi.

Með vísan til þessa leggur meiri hluti til breytingu á frumvarpinu sem felur í sér að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða við lög um lögheimili og aðsetur þar sem brugðist er við framangreindri stöðu Grindvíkinga. Jafnframt er lagt til að skráningin gildi afturvirkt frá 9. nóvember til að Grindvíkingar geti notið stuðnings samkvæmt frumvarpinu.

Þá leggur meiri hlutinn til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði fengin lagaheimild til að tilkynna slökkviliði ef henni berast upplýsingar um að brunavarnir húsnæðis, sem veittur er stuðningur fyrir, séu ófullnægjandi. Í d-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að stuðningur verði ekki veittur vegna húsnæðis sem fullnægir ekki kröfum um brunavarnir íbúðarhúsnæðis sem settar eru fram í lögum og reglugerðum. Samkvæmt lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er stofnuninni m.a. falið að sinna stjórnsýsluverkefnum á sviði brunavarna. Í ljósi þess að í frumvarpinu er lagt til að unnt verði að veita húsnæðisstuðning vegna búsetu í atvinnuhúsnæði, ólíkt því sem almennt gildir um annan húsnæðisstuðning hins opinbera, telur meiri hluti nefndarinnar nauðsynlegt að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði fengnar viðhlítandi heimildir til að upplýsa slökkvilið um búsetu fólks í húsnæði, hafi þeim borist upplýsingar um að húsnæðið uppfylli ekki kröfur um brunavarnir. Með þeim hætti geti slökkviliðið rækt hlutverk sitt lögum samkvæmt. Er þá átt við upplýsingar sem stofnunin fær við framkvæmd laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Meiri hlutinn telur mikilvægt að svo verði í ljósi þeirrar hættu sem stafar af búsetu fólks í húsnæði þar sem brunavarnir eru ófullnægjandi.

Þá eru lagðar til minni háttar lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Jóhann Páll Jóhannsson, Ásmundur Friðriksson, Orri Páll Jóhannsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Óli Björn Kárason. Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, er jafnframt samþykkur áliti þessu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að bæta hérna við og vil fyrst ítreka að frumvarpið er hluti af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þeirri óvissu sem ríkir í kjölfar jarðhræringa og vil fyrst og fremst ítreka að ég sjálf tel frumvarpið fela í sér mikilvægt skref í þá átt að styðja við Grindvíkinga í húsnæðisvanda þó að vissulega sé það, eins og fram kemur, aðeins einn liður í því.

Þá vil ég áður en ég lýk máli mínu benda á að frumvarpið með breytingartillögum felur í sér breytingu er varðar skráningu aðseturs einstaklinga innan lands sem hafa lögheimili hér á landi en þurfa að yfirgefa heimili sín að boði yfirvalda vegna neyðarástands. Eins og fram kemur í nefndarálitinu þá er hvorki í lögum um lögheimili og aðsetur né í reglugerð um lögheimili og aðsetur að finna slíka heimild til aðsetursskráningar vegna óviðráðanlegra ytra atvika. Breytingin sem hér er lögð til á aðeins við það ástand sem nú ríkir í Grindavík. Því vil ég sérstaklega vekja athygli Alþingis á því að það kann að vera ástæða til að taka til sérstakrar skoðunar hvort ástæða sé til að gera varanlega breytingu á lögum sem tryggir sérstakra heimild til aðsetursskráningar þegar rýming á sér stað vegna ytri aðstæðna.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. umhverfis- og samgöngunefndar á þessu en nú fjallar nefndin einmitt um mál 542 sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir, um úrbætur í brunavörnum. Það sama kann að eiga við þar, að það sé ástæða til að skoða heimildir til upplýsingamiðlunar varðandi ófullnægjandi brunavarnir í leiguhúsnæði frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til slökkviliðs og/eða eldvarnaeftirlits. Þessu vildi ég bara koma á framfæri svo þetta hefði komið skýrt fram í þingsal.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.