154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[14:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. framsögumanni fyrir góða vinnu við mikilvægt frumvarp og þakka nefndinni allri fyrir að hafa unnið það skjótt og vel. Hér er um mjög mikilvægt frumvarp að ræða fyrir stóran fjölda fólks sem hefur þurft að yfirgefa aðstæður eftir náttúruhamfarir. Við höfum sýnt það hér á Alþingi að þegar kemur að þessum málum þá getum við staðið saman og unnið mjög vel að því að tryggja að vel sé tekið utan um fólk í þessum aðstæðum.

En mig langar að hvetja hæstv. innanríkisráðherra og/eða hv. velferðarnefnd til að horfa aðeins til framtíðar. Við búum á landi þar sem atvik eins og þau sem við upplifðum í Grindavík geta átt sér stað hvenær sem er og við sáum það nú bara á dögunum hversu lítið þurfti til til að jafnvel þyrfti að flytja fullt af fólki frá Vestmannaeyjum. Það voru ekki náttúruhamfarir sem orsökuðu það heldur einfalt slys. En við búum í landi þar sem náttúruhamfarirnar gerast, þær gerast án viðvörunar. Það að setja sérstök lög til að tækla svona mál tekur tíma og er óþarfi. Það væri hægt að gera svipað og við ákváðum hér á Alþingi 1973 þegar við uppgötvuðum að við höfðum ekki búið til neitt til að tryggja húsnæði fólks þegar það eyðileggst vegna náttúruhamfara. Þá bjuggum við til það sem þá var kallað Viðlagasjóður. Síðan þróaðist það yfir í það sem heitir í dag Náttúruhamfaratrygging Íslands. Af hverju? Jú, m.a. vegna þess að við vissum að það var of seint í rassinn gripið, eins og það er kallað, að framkvæma hlutina eftir hamfarirnar verða.

Þess vegna langar mig að hvetja ráðuneytin, bæði innviðaráðuneytið sem og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, til að taka þessa góðu vinnu sem unnin var til að tryggja bæði framfærslu og húsnæðisstuðning við Grindvíkinga og setja vinnu í gang við að búa til lög eða búa til greinar í lögum sem gera það að verkum að við getum virkjað svona stuðning um leið og náttúruhamfarir verða hér á landi og þannig verið fljót að eyða þeirri óvissu sem fólk sem gengur í gegnum þær upplifir. Þó að það sé búið að lýsa því yfir í ríkisstjórninni að það verði stutt við þetta, þó svo að þingið sé búið að taka málið inn, þó svo að við séum að klára þetta mál núna þá er fólk samt búið að lifa í óvissu vegna þess að það veit aldrei: Fell ég undir þessi lög eða ekki? Mun þetta styðja mig í mínu ástandi? Það veit það ekki fyrr en búið er að samþykkja lögin. Þess vegna er svo mikilvægt að við hjálpum til við að eyða þessari óvissu alltaf í framtíðinni, strax, með því að eiga svona lög tilbúin. Ég hvet nefndina sem fjallar um þetta, ég held að velferðarnefnd sé með bæði þessi mál, og ég hvet ráðuneytin og hæstv. ráðherra líka til að gera það. Ég fagna þessu frumvarpi og styð það eindregið.