154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[14:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki annað en fagnað því hvað það náðist breið samstaða um að klára þetta mál bæði hratt og vel. Það er mikilvægt að Alþingi sýni það í verki, ekki bara stjórnvöld heldur að löggjafinn sýni það í verki að við stöndum með Grindvíkingum og við ætlum að gera það sem þarf til að Grindvíkingar finni það þannig að fjárhagsáhyggjur bætist ekki ofan á allar hinar áhyggjurnar eða að við gerum alla vega það sem við getum til að lágmarka þær með því einmitt að verja ekki aðeins framfærslu heldur að veita líka sérstakan húsnæðisstuðning. Hér hefur verið farin sú leið að byggja í grunninn á þeim stuðningi sem er veittur samkvæmt lögum um almennar húsnæðisbætur en þó án tekju- og eignatenginga. Í því felst auðvitað að þetta er talsvert rausnarlegri stuðningur heldur en leigjendur fá almennt. Við skulum ekki fara í grafgötur með það að þessi stuðningur getur orðið til þess að ýta upp leiguverði, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, þannig að ég held að samhliða þessu þá hljótum við að þurfa að spýta í lófana þegar kemur að húsnæðismálum almennt, bæði hvað varðar framboðshliðina og eftirspurnarhliðina. Á framboðshliðinni skiptir t.d. máli að hraðað verði aðgerðum við að samþætta ferla við gerð deiliskipulags og veitingu byggingarleyfis og eins þegar kemur að ferlum við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana hjá sveitarfélögum.

Nú liggur fyrir þessi ágæti rammasamningur um húsnæðismál. Ég vona að það fari að verða gerðir samningar sem allra fyrst við fleiri sveitarfélög en Reykjavíkurborg og Vík um að liðka fyrir auknu lóðaframboði og skapa skilyrði til þess að reisa m.a. fleiri íbúðir í almenna íbúðakerfinu. Eins liggur fyrir í samráðsgátt mikilvægt frumvarp um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags og tryggja sveitarfélögum þannig auknar heimildir til að grípa inn í. Þetta er frumvarp sem átti að leggja fram á Alþingi í nóvember samkvæmt kynningu sem ég sé á vef þjóðhagsráðs að þjóðhagsráð fékk núna í byrjun nóvember. Ég bind vonir við að hæstv. innviðaráðherra komi með þetta mál inn í þingið sem fyrst og eins að við getum klárað hér mál er lýtur að svokölluðu Carlsberg-ákvæði til að tryggja sveitarfélögunum heimildir til að tryggja blandaða byggð óháð eignarhaldi lóða.

Þetta er það sem skiptir máli á framboðshliðinni. En hitt skiptir ekki síður máli líka að við gripum til tímabundinna aðgerða til að koma í veg fyrir að m.a. þessar aðgerðir sem hér er ráðist í, en líka aðrar aðgerðir sem er ráðist í í ríkisfjármálum, ýti upp leiguverði. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því að við gerum eins og Danir og lögfestum leigubremsu, setjum beinlínis lög um hömlur á árlegri hækkun leigufjárhæðar. En þá skiptir máli að það séu nokkuð víðtækar undanþágur þegar raunkostnaður hefur einfaldlega aukist hjá leigusala. Hann geti hækkað leiguverð meira en það sé þá rökstutt sérstaklega og að sönnunarbyrðin sé þar. Ég held að núna á tímum húsnæðiseklu og mikillar fólksfjölgunar og þegar svona sértækar aðstæður bætist ofan á allt þá skipti mjög miklu máli að grípa til tímabundinna aðgerða til að tryggja að það verði jafnvægi á leigumarkaði til þess að hlutirnir fari ekki úr böndunum á næsta ári og árið þar á eftir.

En svo ég endurtaki það: Það er gleðilegt hvað það hefur náðst breið samstaða um þetta mál og gleðilegt að það verði afgreitt hér í dag, líklega í breiðri sátt. En ég biðla til Alþingis að hafa það í huga og viðurkenna að þetta er líklegt til að auka á óróa á húsnæðismarkaði og að spýta þá í lófana þegar kemur að því að koma böndum á húsnæðismarkað. Til þess höfum við ýmis tæki og við getum ekki dregið lappirnar þar. Við höfum nú þegar ákveðin mál sem við gætum samþykkt strax fyrir jól og myndu skipta máli og myndu líka senda skýr skilaboð um að okkur sé alvara.