154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[14:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það hefur verið á dagskrá velferðarnefndar núna síðustu fundi og um þetta hefur náðst breið samstaða því að ég held að við skiljum þetta öll og við viljum öll tryggja að staða Grindvíkinga verði eins góð og hægt er. Við vitum auðvitað að við getum ekki bætt Grindvíkingum allt það sem þeir eru að glíma við þessa dagana en við getum þó lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að tryggja bæði húsnæðisöryggi þeirra með einhverjum hætti og fjárhagslega afkomu sem skiptir auðvitað miklu máli til að fólk geti unnið að öðrum hlutum sem snúa að andlegri líðan, þátttöku einstaklinganna í daglegu lífi, félagsmálum, íþróttum og tómstundum.

Í mínum huga er það virðingarvert að Alþingi skuli taka á þessum hlutum á þennan hátt og ég hef ekki heyrt neinn andmæla því að til þessara aðgerða skuli gripið. Hins vegar getum við auðvitað haft skoðanir á ýmsu þegar kemur að útfærslu á slíkum aðgerðum.

Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að þetta virki ekki en það eru þarna einstök atriði sem kannski þarf að huga að. Ég nefndi í andsvörum við hæstv. innviðaráðherra m.a. upphæðirnar sem fram koma í þessu. Þarna er verið að horfa til þess að einstaklingur geti fengið 150.000 kr. í húsnæðisstuðning, tveir í heimili geta fengið 198.000 kr., þrír í heimili 232.000 kr. og fjórir eða fleiri 252.000 kr. Ég gat ekki annað heyrt á hæstv. ráðherra en að húsnæði fyrir fleiri en fjóra væri nánast á sömu kjörum og fyrir fjóra. Ég nefndi þetta við formann Verkalýðsfélags Grindavíkur þegar hann mætti á fund velferðarnefndar um þetta og hann var nú ekki sammála ráðherranum í því að þessi upphæð væri sú sama hvort sem fjölskyldumeðlimir væru fjórir eða sex, það hlyti að vera dýrara að leigja stærra hús fyrir fleiri einstaklinga, þannig að ég er ekki alveg klár á því hvort þessar upphæðir mæti þeim markmiðum sem við erum að reyna að uppfylla. Og ég gat líka heyrt á ráðherra að þetta væri sirka 70% af væntanlegri húsaleigu. Ef einbýlishús kostar 400.000 kr. fyrir fjóra er 70% af því 280.000 kr. en þarna er verið að ræða um 250.000 kr., þannig að ég er ekki endilega alveg dús við þessar upphæðir, hvort þær dugi hreinlega til þess að tryggja það að fólk geti náð að greiða þetta og framlag ríkisins verði 70% í húsaleigu. En það er kannski spurning hvort það eigi yfir höfuð að vera 70%, hvort það megi alveg vera minna, en þetta er auðvitað bara pólitísk ákvörðun sem við erum að taka hér.

En ég vil bara gleðjast yfir þeim aðgerðum sem hafa farið af stað samhliða því að þetta frumvarp hefur verið smíðað. Við sjáum t.d. að félag eins og Bríet, sem er leigufélag í eigu ríkisins, hefur farið af stað og auglýst eftir íbúðum og ég veit til þess að það hefur sett sig í samband við m.a. íbúðareigendur í Njarðvík og óskað eftir því að fá leiguíbúðir. Síðan er í þessari húsnæðisstefnu sem verið er að tala um núna verið að horfa til hlutdeildarlána á næsta ári upp á margfalda þá upphæð sem hefur verið og það ætti að hjálpa til. Síðan þarf að fara bara á fullu eins og gert var eftir Eyjagosið og sjá til þess að við getum byggt hratt. Við þurfum með einhverjum hætti að fara í svipaðar aðgerðir og farið var í þegar viðlagasjóðshúsin komu til landsins á sínum tíma. Þó að þau hafi að ákveðnum hluta, kannski stærstum hluta, verið fjármögnuð af öðrum en okkur þá kunnum við aðferðina. Við vitum hvernig er hægt að gera þetta, við eigum land og við þurfum bara að sækja þessi hús. Við erum búin að vera að velta þessu á milli okkar og tala um húsnæðisskort og það gerist ekkert og það er alltaf sami húsnæðisskorturinn til staðar en þetta er átak. Við vorum með húsnæðisskort fyrir þannig að við verðum bara að fara af alefli í þetta. Og af því að Suðurnesin standa nú hjarta mínu nær en mörg önnur svæði þá erum við þar með svæði sem herinn erfði ríkið að á sínum tíma sem fékk nafnið Ásbrú. Þar er byggingarland sem ríkið á. Það er ekkert langt síðan að ríkið eða Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, sem er í eigu ríkisvaldsins, auglýsti byggingarrétt fyrir 150 íbúðir til sölu í Ásbrú. Þar er nánast tilbúið skipulag sem hægt væri að nýta í þetta, fyrir utan að það er hægt að byggja nánast annan Reykjanesbæ á Ásbrúarsvæðinu. Það þarf auðvitað að tryggja innviði samhliða. En við þurfum ekkert að leggjast á hnén og segja: Það eru ekki til lóðir. Þær eru til. Það þarf ekki alltaf að vera í miðborg Reykjavíkur. Við getum gert þetta á ýmsan annan hátt.

Mér finnst virðingarvert að það sé verið að taka á málunum á þennan hátt, tryggja fjárhagslega afkomu og reyna að tryggja húsnæðisöryggi eins og kostur er. Við verðum auðvitað líka að tryggja að það falli enginn á milli skips og bryggju og allir fái þak yfir höfuðið. Það eru að koma jól og það er nauðsynlegt að fólk fái að halda jól fyrir sig og sína á öruggum stað. Þessar aðstæður eru skelfilegar og við hin sem búum nú í kringum þetta svæði getum á engan hátt gert okkur grein fyrir því hvað fólk er að upplifa, að vera flóttamenn í sínu eigin landi. En það kannski eykur skilning okkar á því hvað það er að vera flóttamaður.