154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum með 9,25% stýrivexti og um 9% verðbólgu og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að þessi verðbólga sé eftirspurnarverðbólga. Þetta er þensla, það er verðbólga og hún er keyrð áfram af stórkostlegri fjölgun íbúa á Íslandi. (Gripið fram í.) Við erum að flytja inn vinnuafl til vinnu í láglaunastörfum, það er stórkostleg fjölgun vinnuafls. Við erum hluti af 500 milljón manna vinnumarkaði. Það er gott að búa á Íslandi en við erum með verðbólgu sem er algerlega óásættanleg, sem er 8,7% í ár og það er spáð 5,6% verðbólgu. Við erum með 9,25% stýrivexti og það er ekki verkefni Seðlabankans eins að reyna að berjast gegn verðbólgu í fjármálakerfi þar sem er byggt á verðtryggðum lánum sem stýrivextir hafa ekki áhrif á. Við erum ekki að beita ríkisfjármálum til að taka á þessu og á næsta ári er útlit fyrir það að við verðum fátækari per mann, minni framleiðni á mann. Við erum að flytja inn fátækt fólk sem þýðir að tekjuskipting í landinu mun aukast vegna þess að við erum að flytja inn fólk vegna atvinnugreinar sem er með 11% virðisaukaskatt. Aðrar atvinnugreinar eru með 24% virðisaukaskatt. (Forseti hringir.) Við ætlum að setja 300 kr. gistináttagjald á einstaklinga. Við erum ekki að taka á (Forseti hringir.) orsökum verðbólgunnar, grunnorsökum verðbólgunnar. Við erum ekki að gera það. Ég spái því að stýrivextir verði jafnvel hækkaðir á næsta ári.

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir á ræðutímann.)