154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja varðandi grunnorsakir verðbólgunnar sem er að meðaltali 8,7% í ár og í dag er hún 7,9%, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það kemur líka fram í nefndaráliti meiri hlutans, í kaflanum Fólksfjölgun og efnahagsforsendur, að fólksfjölgunin hafi mikil áhrif. Það hefur komið fram í fjárlaganefnd að okkur fjölgar um 1.000 manns á ári … (Gripið fram í: Á mánuði. ) Á mánuði, fyrirgefið þið, sem sagt 12.000 manns síðustu 12 mánuði, og það er útlit fyrir jafnvel að okkur muni halda áfram að fjölga. Það var 3% fjölgun í fyrra á meðan hún er 1% annars staðar eða fólksfækkun. Þetta kallar á aukna eftirspurn eftir húsnæði, vöru og þjónustu. Spurningin er þessi: Ef þetta er grunnorsök verðbólgunnar, og það væri gott að heyra hv. þingmann segja sitt álit því hver grunnorsökin er — núna eru verðhækkanir vegna stríðsins í Evrópu, Úkraínu, komnar fram og voru miklar orkuhækkanir þar. Stýrivaxtahækkanir eru 9,25%, það virðist ekki vera að bíta. Mér heyrðist á hv. þingmanni að aðhaldið væri algjörlega nauðsynlegt til þess að ná tökum á verðbólgunni en ef fólksfjölgun er aðalorsök verðbólgunnar og aukin eftirspurn, hvenær fara þá stýrivextir að bíta? Þeir gætu farið upp í 11% og samt er fólksfjölgun í landinu og áfram heldur verðbólgan. Hver telur hann að grunnorsökin sé og hvernig telur hann best að berjast gegn verðbólgunni? Er það bara með aðhaldi í ríkisútgjöldum eins og hann sagði? Eða þarf að fara að taka á þessari fólksfjölgun? Við erum að taka á móti 4.000–5.000 hælisleitendum á ári, við erum að reka sveitarfélag eins og Vestmannaeyjar án tekna. Við erum svo líka með atvinnugrein í landinu (Forseti hringir.) sem er í lægra skattþrepi en aðrar, 11% á meðan aðrar greinar eru með 24%. (Forseti hringir.) Hver telur hann að sé grunnorsök (Forseti hringir.) verðbólgunnar og hvernig myndi hann vilja berjast gegn verðbólgunni?