154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:13]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög í 2. umræðu. Mikil vinna hefur átt sér stað í nefndinni og vil ég þakka nefndarmönnum gott samstarf í haust. Ég fagna því jafnframt að nefndin geri breytingartillögur sem stuðla að auknu aðhaldi í ríkisfjármálum sem er sá tónn sem ég vona að komi frá nefndinni á næstu misserum eftir annan tón undanfarin ár. Milli umræðna hefur orðið breyting á nokkrum forsendum eftir að ný þjóðhagsspá Hagstofunnar var birt um miðjan nóvember. Það er m.a. gert ráð fyrir 2,1% hagvexti á næsta ári í stað 2,6% áður og skýrist fyrst og fremst af hærri hagvexti árið 2022 en áður var talið, sem lækkar hlutfallslega breytingu milli 2023 og 2024. Þá er gert ráð fyrir að verðbólga verði örlítið hærri og atvinnuleysi sömuleiðis örlítið meira. Verðbólga hefur ekki lækkað jafn hratt og vonast var til þegar lækkunarferli hófst. Þó er vert að nefna að mikil óvissa er um þróun efnahagsmála og eru slegnar víða varnaglar í þjóðhagsspánni; jarðhræringar á Reykjanesskaga, niðurstöður kjarasamninga, alþjóðlegar efnahagshorfur, stríðsátök og verðbólguþróun innan lands sem erlendis getur haft áhrif á niðurstöðuna. Við sem eldri erum höfum þó séð talsvert verri tíma þegar kemur að verðbólgu og lífskjörum og hef ég fulla trú á því að okkur takist að tækla núverandi ástand. Verðbólguvæntingar eru enn háar og er mikilvægt að allir aðilar sem geta lagt lóð á vogarskálarnar sýni lit til þess að ná þeim niður. Ég tel að fjárlaganefnd sé að leggja sitt af mörkum en margir höfðu spáð sambærilegri hækkun í meðförum nefndarinnar og hefur sést undanfarin ár.

Ég vil byrja á smáumfjöllun um gleðifréttir sem hægt er að byggja ofan á. Lánshæfismat Íslands var nýlega hækkað úr A í A+ með stöðugum horfum hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu S&P Global Ratings og stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að íslenska hagkerfið muni vaxa áfram á næstu tveimur árum á sama tíma og halli á rekstri hins opinbera og viðskiptajöfnuður verður hóflegur. Hér er þó bara um áfangasigur að ræða. Mikilvægt er að viðhalda lánshæfiseinkunninni og bæta enn frekar. Samkvæmt S&P gæti lánshæfiseinkunn Íslands verið hækkuð ef opinber fjármál styrkjast umtalsvert umfram það sem fyrirtækið væntir nú, t.d. ef hagvöxtur verður meiri eða stjórnvöld grípa til frekari ráðstafana. Jafnframt gæti einkunnin lækkað ef staða ríkisfjármála eða ytri staða hagkerfisins versnar umtalsvert í samanburði við spár. Það er undir okkur komið að ákveða hvert við viljum fara í ríkisfjármálunum þótt óvæntir atburðir geti alltaf sett strik í reikninginn eins og við höfum fengið að kynnast á undanförnum árum.

Síðustu ár hafa verið mjög sérstök og hvert áfallið á fætur öðru dunið á þjóðarbúinu. Í mars 2019 féll WOW air sem var högg fyrir ferðaþjónustuna. Ári síðar hófst heimsfaraldur með tilheyrandi skelli fyrir þjóðarbúið og rotaði margar atvinnugreinar, m.a. ferðaþjónustuna. Í febrúar 2022 hófst svo stríðið í Úkraínu með tilheyrandi röskun á aðfangakeðjum og áhrifum á verðlag ef horft er á fjárhagsleg áhrif stríðsins. Nú síðast hófust jarðhræringar á Reykjanesskaga með alvarlegri birtingarmynd en við höfum séð áður. Þetta eru gríðarlega stórir atburðir sem myndu vera högg fyrir hvaða land sem er, líkt og hefur raungerst með alþjóðlegu áföllin. Þá er rétt að spyrja sig: Hver er staðan á skuldum ríkissjóðs og skuldum heimila af fasteignum sínum? Í fjármálaáætluninni 2022–2025 gerum við ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs yrði um 50% árið 2024. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 gerum við ráð fyrir því að í lok árs verði skuldastaðan tæp 32%. Veðhlutfall heimila á fasteignamarkaði hefur aldrei mælst lægra en nú en fyrir allan markaðinn mældist veðhlutfallið tæplega 27% af fasteignamati árið 2022. Virði flestra eigna er þó hærra en fasteignamat, sérstaklega í stærri þéttbýlum, og má áætla að raunveðhlutfall sé lægra. Sama staða er uppi ef bara er skoðaður hópurinn 25–29 ára. Þar er hlutfall fasteignalána af fasteignamati 62% og hefur aldrei verið lægra. Það er þó annar hópur sem ég tel þörf á að hafa meiri áhyggjur af en fasteignaeigendum. Það er sá hópur sem ekki hefur komist inn á fasteignamarkað og kem ég aðeins inn á þann hóp í tengslum við húsnæðisstuðning.

Það hefur borið mikið á þeirri umræðu í þingsal og fjölmiðlum að hér sé verið að veikja vaxtabótakerfið, veikja velferðina. Þar er algerlega litið fram hjá því að á undanförnum árum höfum við verið að breyta húsnæðisstuðningi í landinu. Lög um húsnæðisbætur voru sett til að leysa af hólmi húsaleigubætur. Við höfum leyft skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar til að hægt sé að safna fyrir útborgun og greiða hraðar niður lán. Við höfum veitt marga milljarða í stofnframlög í almenna íbúðakerfinu. Við höfum jafnframt komið á hlutdeildarlánum til að auðvelda fyrstu kaupendum útborgun. Þessar miklu breytingar þýða að sjálfsögðu að önnur kerfi minnka eitthvað þó að það sé ekki mikið. Vaxtabótakerfið er bæði eigna- og tekjutengt. Eiginfjárhlutfall íslenskra heimila hefur hækkað hratt undanfarin misseri. Eignaverð hefur hækkað talsvert hraðar en verðlag og þar með hlutur hvers og eins í húsi sínu, hvort sem lánin eru verðtryggð eða óverðtryggð. Þá hefur kaupmáttaraukning undanfarin ár verið mjög mikil. Það eru gleðifréttir að okkur takist að auka kaupmátt en auknum kaupmætti og hærri eiginfjárstöðu fylgir líka að þörf fyrir stuðning minnkar. Þó ætla ég alls ekki að gera lítið úr því að róðurinn hefur þyngst undanfarin ár. Háir vextir, þrálát verðbólga og efnahagsástandið hefur áhrif en það er mikilvægt að horfa á langtímaþróun og hugsa til þess að til staðar eru úrræði í gegnum tímabundna erfiðleika. Kaup á fasteign eru langtímafjárfesting sem flestir borga niður á 25–40 árum. Þá er mikilvægt að horfa til langs tíma. Það er ekki að gerast nú eins og í kreppunni að fólk sé að missa húsin sín. Þá var húsnæðisverð að lækka á meðan atvinnuleysi var mikið og kaupmáttur rýrnaði. Nú hefur kaupmáttur aukist yfir nokkurra ára tímabil, ólíkt því sem má sjá annars staðar, og húsnæðisverð hækkað. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur að vísu dalað undanfarna mánuði en til nokkurra ára er aukningin mikil og sérstaklega í alþjóðlegum samanburði þar sem kaupmáttarrýrnun hefur í flestum tilfellum verið ríkjandi frá upphafi faraldurs. Seðlabankinn spáir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna hérlendis vaxi um 1,4% í ár og 1,7% á næsta ári. Þá spáir Seðlabankinn því líka að húsnæðisverð muni gefa eftir á næstu misserum og gæti því þurft að fylgjast með þeim sem hafa nýlega keypt en bankinn hefur jafnframt með stýritækjum sínum komið í veg fyrir að hægt sé að skuldsetja sig jafn mikið og raun bar vitni fyrir 15–20 árum síðan.

Þótt húsnæðisstuðningurinn hafi breyst þýðir það ekki endilega að breytingarnar skili sér í betri árangri. Mér finnst rétt að við metum árangurinn, spyrjum okkur hvort breytt kerfi húsnæðisstuðnings hafi verið til hins betra. Sem dæmi má nefna almenna íbúðakerfið þar sem svokölluð óhagnaðardrifin leigufélög eiga sviðið. Í nýlegri rannsókn Vörðu kemur í ljós að 89,1% félagsfólks ASÍ og BSRB sem býr í leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum telur húsnæðiskostnað vera byrði samanborið við 89,4% á almennum leigumarkaði. Engin marktækur munur er hér á. Því er rétt að staldra við og huga að því hvort fjármunum skattgreiðenda sé vel varið í starfsemi slíkra leigufélaga sem flest setja ákveðin skilyrði um hverjir geta leigt af þeim íbúð, m.a. byggt á stéttarfélagsaðild. Sérstaklega þarf að kanna afkomu félaganna þar sem mikill hagnaður hefur verið undanfarin ár hjá sumum af þessum óhagnaðardrifnum félögum að teknu tilliti til matsbreytinga. Þá er mikilvægt að hafa í huga að því að óhagnaðardrifið er ekki það sama og kostnaðurlágmarkandi. Ég vil þó taka það fram hér að ég á ekki við leigufélög sem leigja út tímabundið eins og leigufélög námsmanna. Slík kerfi hafa sannað gildi sitt. Það eru leigufélög sem leigja ótímabundið, byggt á aðstæðum hvers og eins, sem ég tel rétt að kanna betur. Ríkið hefur lagt inn milljarða, eigið fé er að myndast hjá þeim félögum og ég velti fyrir mér hver eigi þetta eigið fé. Greiða á ríkinu stofnframlagið til baka að lokum en við eigum eftir að sjá það raungerast.

Ég held að rétt sé að kortleggja hvaða stuðningskerfi skila bestum árangri hjá mismunandi hópum og þá ráðstafa þeim fjármunum sem fara í húsnæðisstuðning í framtíðinni á skilvirkan hátt. Ég nefndi áðan þann hóp sem ekki hefur komist inn á húsnæðismarkað og það er sá hópur sem ég tel að þurfi mest á stuðningi að halda. Í nýlegri greiningu Viðskiptaráðs kemur fram að húsnæðisstuðningur ríkisins hefur verið 902 milljarðar undanfarin 20 ár. Við þurfum að endurhugsa húsnæðisstuðninginn þannig að hann nýtist betur þeim hópum sem virkilega þurfa á stuðningi að halda því sá hópur er líklega alltaf til þótt samsetning hans verði breytileg í framtíðinni. Að sama skapi þurfum við að einfalda regluverk, gera leyfisveitingaferli skilvirkara, auka framleiðni í byggingariðnaði og ná tökum á stóra vandamálinu sem er framboðsskortur. En framboðsskortinn ætla ég ekki að ræða fyrr en ég hef rætt um tvo stóra áhrifaþætti á húsnæðismarkaði, fólksfjölgun og ferðaþjónustu.

Árið 2008 var íbúafjöldi Íslands rúmlega 315.000. Sama ár spáði Hagstofa Íslands því að mannfjöldi á Íslandi árið 2050 yrði tæplega 409.000 manns. Ef fram fer sem horfir förum við fram úr þessari spá á næsta ári, 16 árum eftir að hún var gerð og 26 árum áður en hún átti að raungerast, slík hefur fólksfjölgunin verið frá hruni og sérstaklega á undanförnum sjö árum. Í fyrra fjölgaði okkur um 11.510 manns, eða um tæplega 3,1%. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar erum við tæplega 397.000 manns á landinu. Að öllum líkindum verðum við orðin 400.000 öðru hvorum megin við áramót. Þessi mikla fólksfjölgun hefur keyrt upp einkaneyslu sem við höfum þó séð lækka í nýjum tölum. Álagið hefur einnig verið töluvert á innviði, sérstaklega á húsnæðismarkaði í bland við fjölgun ferðamanna á ný. Hagvöxtur hefur að miklu leyti verið drifinn áfram af fólksfjölgun og er það áhyggjuefni hve lágur hagvöxtur á mann hefur verið. Mikilvægt er að við hugum að framleiðniaukningu sem má stuðla að með einföldun regluverks og áframhaldandi háu atvinnustigi. Við þurfum að skoða m.a. ábatakerfi fyrir opinbera aðila til að hagræða í sínum rekstri, t.d. með bættum innkaupum, líkt og nefnt var í nefndaráliti með fjármálaáætlun fyrir 2024–2028. Aukin skilvirkni í opinberum innkaupum getur sparað ríkissjóði milljarð á ári hverju, en til þess vantar hvata fyrir stofnanir og sveitarfélög til að svara ákalli okkar stjórnmálamanna. Það þarf að huga að menntastefnunni og svara kalli atvinnulífsins varðandi hvers konar menntun við þurfum á að halda hér svo að við missum ekki verðmæt sérfræðistörf út fyrir landsteinana. Það er verkefni stjórnvalda á næstu misserum að ráðast í þessu verkefni og stuðla þannig að hraðari framleiðnivexti en við höfum séð á undanförnum áratug.

Þá aðeins um ferðaþjónustuna. Síðan ég tók sæti á þingi hef ég gert ferðaþjónustuna oft að umtalsefni. Það kemur væntanlega engum á óvart að ég mun tala hér um varaflugvallagjald en það rúmast ekki innan fyrstu ræðu og mun ég því koma sérstaklega inn á það í ræðu síðar í þessari umræðu. Ferðaþjónustan hefur á undanförnum áratugum þróast úr því að vera sumarstarfsemi í það að vera heilsársstarfsemi. Ferðaþjónustan er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og hefur jafnframt glætt landsbyggðina nýju lífi. Ferðaþjónustan er í raun sala á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda landsins. Flestir ferðamenn koma hingað til að skoða þær náttúruperlur sem landið býður upp á. Á sama tíma hefur álagið aukist á mikilvæga innviði, til að mynda vegakerfið og heilbrigðiskerfið. Í ræðu minni í 1. umræðu fjárlagafrumvarps í haust benti ég á að starfshópur um samkeppnishæfni og verðmætasköpun hefði verið skipaður af hæstv. ferðamálaráðherra. Ég nefndi sérstaklega að aðgangsstýring væri nauðsynleg því skilvirk aðgangsstýring kemur í veg fyrir ofnýtingu auðlinda. Þetta þekkjum við vel í sjávarútvegi. Nú hefur þessi starfshópur skilaði af sér tillögum og ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér líst ágætlega á tillögurnar sem kynntar eru í samráðsgátt sem fyrstu drög að aðgerðum. Í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til ársins 2030 leggur starfshópurinn m.a. til álagsstýringu á ferðamannastöðum, leiðir til að auka framleiðni í greininni, endurskoðun á regluverki og skilvirkara eftirlit. Þá er vikið að gjaldtöku þar sem lagt er til innviðagjald á skemmtiferðaskip og afnám gistináttaskatts. Gjald á skemmtiferðaskip er að einhverju leyti í samræmi við nefndarálit fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2024–2028 en útfærslan sem birst hefur frá stjórnvöldum gengur að mínu mati ekki nægilega langt til að jafna samkeppnisstöðuna. Skemmtiferðaskip koma með góðar tekjur inn í hafnir en þó ekki nálægt því sem skilið er eftir í gegnum hótelgistingu. Ég nefndi það einnig í ræðu minni í haust að gistináttaskattur væri ekki góð aðgangsstýring að auðlindum. Misræmi væri í því hverjir borguðu og það væri misjafnt milli samkeppnisaðila.

Nú hafa komið fram tillögur um stóraukna gjaldtöku í gegnum gistináttaskatt. Skattstofninn verður breiðari, sem er ágætt markmið í sjálfu sér, en skatturinn íþyngjandi fyrir greiðendur. Við höfum áður þrefaldað gistináttaskatt sex árum eftir gildistöku laganna og nú sex árum síðar ætlum við a.m.k. að tvöfalda hann með því að rukka á hvern fullorðinn í stað hverrar gistináttaeiningar. Slík breyting er ekki einföld í framkvæmd og ekki til þess fallin að einfalda eftirlit. Ég hef aðeins fylgst með málinu sem er hjá efnahags- og viðskiptanefnd og sé að í umsögnum eru ýmsir vankantar taldir fram. Ég tel mikilvægt að skoðuð séu nánar þau sjónarmið sem þar koma fram og varlega sé farið í miklar kerfisbreytingar í flýti sem geta falið í sér mikinn afleiddan kostnað fyrir fyrirtækin óháð því hvort fjárhæð skattsins breytist.

Hér vil ég einnig minnast á mikilvægi þess að stuðlað sé með markvissum hætti að betri dreifingu ferðamanna um allt land. Í því felst að þjóðhagslegur ábati sé hámarkaður og stoðir byggðar um land allt og styrktar enn frekar allt árið um kring. Allt Ísland allt árið. Í nefndaráliti með fjármálaáætlun fyrir 2024–2028 var bent á að gagnlegt yrði að ráðast í greiningu á tekjum ríkisins af mismunandi tegundum ferðamanna eftir ferðamáta til og frá landinu, innan lands og vali á gistingu. Í nefndaráliti með fjárlagafrumvarpinu er þessi tillaga ítrekuð. Ég tel mikilvægt að slík greining liggi fyrir þegar við ákveðum hvernig skal hátta skattheimtu í ferðaþjónustu til frambúðar.

Ég ræddi áðan um húsnæðismarkaðinn en fór ekki nákvæmlega út í stærsta vandamálið sem við glímum við á því sviði. Stóra vandamálið er framboðsskortur. Mér finnst mikilvægt að ræða aðeins um ferðaþjónustu og fólksfjölgun, til þess að setja vandamál fasteignamarkaðarins í samhengi, því þessir tveir þættir hafa, líkt og ég kom inn á, mikil áhrif á húsnæðismarkað. Ég ræddi einnig um húsnæðisstuðning og margir virðast telja að nauðsynlegt sé að gefa í þar. Ég tel nauðsynlegt að við tökum á stærsta vandamálinu, téðum framboðsskorti. Heimagisting hefur verið á milli tannanna á fólki, mislengi þó, en undanfarið hefur færst kraftur í umræðuna og margir tekið upp málflutning sem hótel og gistihús hafa haldið á lofti í mörg ár. Í síðustu viku var til að mynda umfjöllun um fjölbýlishús í Reykjavík þar sem meiri hluti íbúða virtist kominn í útleigu til ferðamanna. Borgin var ekki alveg viss hvort þetta væri samkvæmt þeirri stefnu sem hún hafði markað eður ei, það fór eftir viðmælendum hverju sinni. Síðar í vikunni bárust af því fréttir að ríki og sveitarfélög töluðu ekki saman þegar kemur að skattheimtu því íbúðirnar væru í lægsta þrepi fasteignaskatts þrátt fyrir að í þeim væri stunduð atvinnustarfsemi sem rekstrarleyfi væri fyrir hjá ríkinu. Það hlýtur að vera öllum augljóst að þegar hægt er að breyta íbúðum á besta stað í hótelíbúð sem leigja má ferðamanni með hærri tekjum en þeim sem hér búa og greiða lægri skatta en samkeppnin þá færist þróunin í þá átt að íbúðir sem skipulagðar eru fyrir íbúa enda í útleigu til ferðamanna.

Ég tel gríðarlega mikilvægt að ráðist verði í markvissar aðgerðir til að ná böndum á heimagistingu sem starfrækt er í atvinnustarfsemi, svo jafnræði í samkeppnisumhverfi og gjaldtöku sé tryggt milli ólíkrar gististarfsemi. Það er mikill munur á heimagistingu þegar lögheimili aðila er leigt út meðan hann er í burtu og heimagistingu sem er í útleigu allt árið. Annað kallast deilihagkerfi en hitt er atvinnustarfsemi. Tryggja verður að gjaldtaka í atvinnustarfsemi sé jöfn svo aðilar keppi eftir sömu leikreglum. Að þessu er vikið í nefndaráliti fjárlaganefndar, bæði við fjármálaáætlun og nú það fjárlagafrumvarp sem rætt er hér.

Það er í þessu samhengi áhugavert að skoða svar hæstv. innviðaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar um fjölda íbúða eftir byggðarlögum. Í svarinu kemur fram að árið 2022 hafi yfir 22.000 íbúðir verið án skráðs lögheimilis. Þar af voru 12,4% íbúða á höfuðborgarsvæðinu án skráðs lögheimilis tæplega 12.000 talsins. Á Akureyri voru íbúðirnar rúmlega 1.400 eða 16,4%. Á tímum framboðsskorts á húsnæðismarkaði hljótum við að spyrja okkur hvort það sé ekki a.m.k. nauðsynlegt að jafna samkeppnisstöðu milli hótela og útleiguíbúða til ferðamanna og hvort við þurfum jafnvel að ganga lengra tímabundið til að leiðrétta þann markaðsbrest sem á sér stað. Huga þarf að framboðshliðinni í öllum okkar aðgerðum á húsnæðismarkaði komandi misseri. Ég ítreka hér að ein besta leiðin til að auka framboð á húsnæðismarkaði er að einfalda flókið regluverk og gera ferla skilvirkari og auka framleiðni í byggingarstarfsemi.

Við eigum til skýrslu frá 2020 frá OECD um samkeppnismat á regluverki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði sem unnin var að beiðni hæstv. ráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttir sem þá var m.a. ráðherra iðnaðar- og ferðamála. Í skýrslu OECD koma fram 316 tillögur til úrbóta á regluverki í byggingariðnaði og 121 tillaga til úrbóta í ferðaþjónustu. Við þurfum því ekki að finna upp hjólið. Við þurfum bara að bretta upp ermar og koma þessum úrbótatillögum í gagnið.

Aðeins um vinnutímastyttingu og kjarasamninga. Kjarasamningar losna hjá flestum stéttarfélögum nú á nýju ári og ríkið er stærsti vinnustaður Íslands og laun eru einn stærsti útgjaldaliðurinn. Í ljósi þróunar undanfarinna ára þar sem hið opinbera hefur verið leiðandi í launahækkunum tel ég rétt að almennur markaður gefi tóninn áður en hið opinbera semur við sína viðsemjendur. Mikilvægt er að gerðir séu langtímasamningar sem byggja á framleiðniaukningu og að samningar stuðli að lækkun verðbólgu og þar með létti þrýstinginn á stýrivöxtum Seðlabankans öllum til heilla. Í þessu samhengi vil ég gera vinnutímastyttinguna, verkefnið Betri vinnutími, að umtalsefni hér og kafa aðeins dýpra en ég gerði í 1. umræðu. Komin að er reynsla á verkefnið Betri vinnutími en KPMG skilaði skýrslu í fyrra þar sem árangurinn var metinn. Markmið vinnutímabreytinga var að bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma, auka skilvirkni, bæta gæði þjónustu, tryggja betur gagnkvæman sveigjanleika og stuðla þannig að bættum lífskjörum og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Forsendurnar voru þær að laun eða launakostnaður stofnana myndi ekki breytast, starfsemi myndi ekki raskast og opinber þjónusta yrði af sömu eða betri gæðum en áður.

Í skýrslu KPMG kemur fram að innleiðingin hafi ekki gengið eins og best væri á kosið. 77% stofnana fóru í hámarksvinnutímastyttingu þrátt fyrir að stjórnendum hafi verið ráðlagt að fara í hægt sakirnar og innleiða styttingu í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu. KPMG taldi áhrif stéttarfélaga hafi leitt til þessa þar sem þau töldu kjarasamningsbundin rétt félagsmanna sinna að fá hámarksstyttingu en skyldurnar um gagnkvæman ávinning fylgdu ekki nægilega sterkt með. Í fæstum tilfellum skilgreindu stofnanir núllpunkt. Þar af leiðandi eru ekki til staðar mælanlegir mælikvarðar til að meta áhrif breytinganna og árangur með tilliti til markmiða. Stofnanir hafa flestar litla sem enga yfirsýn á árangur og byggja mat sitt oft á tilfinningu. Ekki eru vísbendingar um að stytting vinnuvikunnar hafi hækkað launakostnað en sterkar vísbendingar eru um að þjónustustig ríkisstofnana hafi lækkað og meðaltal starfsánægju lækkað örlítið þrátt fyrir almenna ánægju með verkefnið meðal starfsfólks. Áhrif á skilvirkni eru óljós en lækkun þjónustustigs er að mínu mati forsendubrestur í verkefninu sem ráðist var í. Verkefnið var innleitt of geyst hjá flestum stofnunum og framkvæmdin var ekki í samræmi við skýrar forsendur og markmið. Líta verður til þess við gerð næstu kjarasamninga að í verkefninu hafi falist bein launahækkun þar sem ekki tókst að halda sama eða betra þjónustustigi og laun hafi ekki lækkað á móti. Þrátt fyrir að laun hafi ekki hækkað hækkaði launavísitala um 16,1% milli 2020 og 2021 hjá opinberum starfsmönnum en á sama tíma um 8,5% á almennum vinnumarkaði.

Það bendir allt til þess að niðurstaðan sé verri þjónusta fyrir sambærilegan kostnað í krónum talið en framleiðniaukning er grundvöllur betri kjara. Þó er vert að nefna að laun vegna vaktaálags hækkuðu um 12,6% milli ára á hvert stöðugildi en dagvinnulaun og yfirvinnulaun hækkuðu á sama mælikvarða. Færri vinnustundir fyrir sömu laun er hækkun á tímakaupi starfsmanna. Við í fjárlaganefnd, í nefndaráliti meiri hlutans, beinum því til ríkisstjórnarinnar að koma af stað markvissum mælingum á skilvirkni innan sinna ráðuneyta og undirstofnana. Það er mikilvægt að geta skoðað áhrifin af verkefnum líkt og umræddu verkefni. Jafnframt finnst mér mikilvægt að forsendur verkefnisins verði teknar upp í næstu kjaraviðræðum og hlutur ríkisins leiðréttur að einhverju leyti þannig að báðir aðilar uppfylli sínar skyldur.

Á undanförnum misserum hefur ríkissjóður losað um hlut sinn í Íslandsbanka með tveimur útboðum. Salan hefur skipt miklu máli fyrir fjárhagsstöðu ríkissjóðs og þau mikilvægu innviðaverkefni sem við höfum ráðist í undanfarin ár, t.d. uppbyggingu nýs Landspítala sem óhjákvæmilegt er að sjá spretta upp þegar maður ferðast fram hjá spítalasvæðinu. Salan hefur skilað ríkissjóði 108 milljörðum og ríkissjóður á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka. Ég fagna því að sjálfsögðu að við séum að losa hlut okkar í fjármálafyrirtæki því ríkið á ekki að vera í áhættusömum samkeppnisrekstri. Við munum öll hvernig fór fyrir fjármálakerfi heimsins fyrir 15 árum. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að selja helming þess hlutar. Mér fannst sérstaklega ánægjulegt að meiri hluti nefndarinnar náði saman um að ítreka mikilvægi þess að salan gangi eftir á næsta ári. Við stöndum frammi fyrir óvissu með útgjöld vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, lægri hagvaxtarspá en miðað var við í sumar, auk þess sem væntingar eru um aukið atvinnuleysi. Því er hægt að áætla varlega að útgjöld gætu aukist meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sala samkvæmt áformum á næsta ári mun verða til þess að auka sjóðstreymi til ríkisins og minnka lánsfjárþörf meðan vaxtastig er hátt.

Ég vil gera lög um opinber fjármál aðeins að umtalsefni hér og hvernig við getum lært af reynslunni til að gera enn betur líkt og við höfum gert áður. Árið 1997 tóku gildi lög um fjárreiður ríkisins. Var það í fyrsta skipti sem heildarlöggjöf var sett um fjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga, lántöku ríkissjóðs, ríkisreikning og reikningsskil. Lögin mörkuðu þáttaskil en á grundvelli þeirra hefur mótast framkvæmd sem hefur aukið festu og samræmingu við áætlanagerð, við eftirlit með framkvæmd fjárlaga og við reikningshald ríkisins að erlendri fyrirmynd. Þá var talið að skortur á langtímamarkmiðum og markvissum áætlunum um þróun opinberra fjármála væri ástæða þess að sjaldnast tækist að halda útgjöldum innan þess sem gert væri ráð fyrir í fjárlögum. Farið var í vinnu við endurbætur á lögunum og m.a. fengum við ábendingar og hugmyndir að úrbótum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem gerði tæknilega úttekt á umgjörð opinberra fjármála. Að lokum varð til frumvarp til laga um opinber fjármál. Frumvarpið var samþykkt í lok árs 2015 og tóku lögin gildi árið 2016. Markmið laganna er að stuðla að styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála og góðri hagstjórn. Lögunum er jafnframt ætlað að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma, vandaðan undirbúning áætlana, skilvirka og hagkvæma fjárstjórn og starfsemi, að opinber reikningsskil séu í samræmi við viðurkenndar reglur og að virkt eftirlit sé með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda. Hver ríkisstjórn skal samkvæmt lögunum setja sér fjármálastefnu eins fljótt og hægt er. Árlega er svo lögð fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem verður grunnur að fjárlögum næsta árs. Grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar skuli vera sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Mér þykir rétt að fara stuttlega yfir hvað er átt við með því.

Sjálfbærni felur í sér að skuldbindingar séu viðráðanlegar og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Varfærni byggir á að jafnvægi sé á milli tekna og gjalda til að koma í veg fyrir ófyrirséðar og neikvæðar afleiðingar og stöðugleiki felst í að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Festa felst í því að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar og gagnsæi snýr að því að sett séu mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála. Þá er að finna tvær fjármálareglur í lögum um opinber fjármál og ein til vara. Afkomuregla felur í sér að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli alltaf vera jákvæður og árlegur halli undir 2,5% af vergri landsframleiðslu. Skuldareglan felur í sér að heildarskuldir eigi að vera lægri en 30% af vergri landsframleiðslu. Sé skuldareglan ekki uppfyllt er svo skuldalækkunarreglan til að stuðla að því að ná tökum á skuldum.

Mér finnst þetta góður rammi sem við höfum sett utan um fjármál hins opinbera en það þýðir ekki að hann sé fullkomin. Yfirleitt er svigrúm til að gera betur. Ég vil gera hér að umræðuefni hugmyndir sem upp hafa komið, m.a. hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni, um að sett verði útgjaldaregla í lög um opinber fjármál. Margir umsagnaraðilar hafa bent á kosti slíkrar reglu og við höfum átt samræðu um hana í nefndinni. Við höfum séð óvæntan uppgang á tekjuhlið miðað við spár en freistnivandinn veldur því að útgjaldahliðin bólgnar oftar en ekki út samhliða. Útgjaldareglan myndi taka á þessu og styrkja þau grunngildi sem eiga að vera í fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þegar tekjur aukast óvænt eigum við að greiða niður skuldir til að vera í stakk búin að takast á við áföll og tryggja m.a. að við sendum ekki reikning fyrir útgjöldum í dag á komandi kynslóðir. Á tímum verðbólgu myndi útgjaldareglan einnig styðja betur við peningastefnuna og aðgerðir Seðlabankans. Það er vonandi að við sem vinnum hér í þessum þingsal getum náð saman um að gera útgjaldareglu að veruleika á næstu misserum líkt og lagt er upp með í nefndaráliti meiri hlutans.

Aðeins í lokin um landbúnaðinn og erfiða stöðu bænda, það er ekki hægt að skauta fram hjá því hér að tala um þá stöðu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 198 millj. kr. til aðgerða sem eiga að stuðla að auknu kynbótastarfi og innviðauppbyggingu ásamt beinum stuðningi við kornframleiðslu í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunarinnar Bleikir akrar. Þá er til staðar fjárveiting vegna vinnu við verndandi arfgerðir gegn riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninum en unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði. Landbúnaðurinn í dag glímir við einstaklega erfitt rekstrarumhverfi, sérstaklega í framhaldi af innrás Rússa í Úkraínu þar sem stórhækkað verð á ýmsum aðföngum landbúnaðar hefur gjörbreytt öllum rekstrarforsendum. Fordæmalaus hækkun hefur orðið á áburði, orku, kjarnfóðri og ýmsum öðrum aðföngum til búrekstrar sem ekki hefur verið mögulegt að velta út í almennt verðlag. Bændur hafa nánast enga möguleika á að velta slíkum byrðum út í almennt vöruverð. Þá hafa orðið verulegar hækkanir á fjármagnskostnaði þar sem landbúnaðurinn hefur m.a. þurft vegna opinberra aðgerða um bættan aðbúnað búfjár að standa í miklum fjárfestingum. Stækkun búa með tilheyrandi fjárfestingum og mikilli skuldsetningu í samhengi við veltu er þung í skauti. Eðli búskapar er að aðskilnaður heimilis og fyrirtækis er ekki sá sami og almennt er í atvinnurekstri. Heimili bændafjölskyldna eru samofin búrekstri auk þess sem velferð búfjár er stöðugt í forgangi. Í mjólkurframleiðslu og fleiri búgreinum er ekki val um að fresta fjárfestingum vegna settra laga og reglna stjórnvalda. Ég legg sérstaklega áherslu á að þótt flestir finni fyrir stórhækkun á fjármagnskostnaði verður að hafa þessa sérstöðu landbúnaðar í huga. Staðan er þó mismunandi innan stéttarinnar en sá hluti bænda sem hefur þurft að fjárfesta og margt ungt fólk í landbúnaði sem nýlega hefur hafið rekstur er í mjög alvarlegri stöðu. Því hefur hópur ráðuneytisstjóra unnið að tillögugerð og greiningu á þessari erfiðu stöðu sem er komin upp innan atvinnugreinarinnar. Ráðist verður í bráðaaðgerðir og til lengri tíma að tryggja rekstrarhæfni landbúnaðar. Meiri hlutinn á von á því að leggja fram breytingartillögu á þessu málefnasviði við 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins. Þessar tillögur frá þessum hópi ráðuneytisstjóra komu einmitt fram í dag og við höfum þá tækifæri til að kynna okkur þær betur í framhaldinu.

Ég hef farið stuttlega yfir erfiða stöðu bænda en málefnið þarfnast lengri og ítarlegri umræðu og ég mun leggja sérstaklega áherslu á landbúnað í annarri ræðu minni síðar í þessari umræðu þar sem tíminn er ekki nægilegur til að fara í það að þessu sinni. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.