154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Já, það er rétt. Við ráðum við sumt og annað ekki og sumu getum við hjálpað til við að stýra og það er, held ég, það sem ríkisstjórnin og meiri hluti a.m.k. hér á þingi er að reyna að gera með því að leggja fram þetta frumvarp með þessum hætti og leggja fram að okkar mati aðhaldssöm fjárlög. Það er alveg rétt, eðli máls samkvæmt í pínulitlu hagkerfi eins og við erum í eru sveiflurnar meiri heldur en kannski víða annars staðar í Evrópu og sannarlega spila, eins og ég sagði í ræðu minni, mjög margir þættir inn í verðbólguna hjá okkur. Þess vegna held ég að það sé líka mikilvægt að við náum góðum kjarasamningum. Ég tel að við þyrftum að ná einhvers konar þjóðarsátt og þótt ég skilji vanda sveitarfélaga þá tek ég undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá verkalýðshreyfingunni um að það þyrfti að gera einhvers konar þjóðarsátt þannig að allir gætu hjálpast að við að ná niður verðbólgunni þannig að við komumst í rauninni á þann stað að hún fari hraðar niður heldur en við gerðum ráð fyrir og sannarlega gerðist ekki. Húsnæðisþátturinn er sannarlega hluti af þessu vandamáli og það er búið að rekja hann hér fram og til baka í sölum Alþingis og skiptar skoðanir á því. Ég fór aðeins yfir það áðan. Við erum með mjög laskaðan markað hvað varðar hlutfall þeirra íbúða sem eru í einhvers konar skammtímaleigu eða ekki á markaði fyrir fólk sem þarf að búa og það er eitt af því sem ýtir verðbólgunni talsvert upp eða öllu heldur viðheldur henni, eigum við ekki að orða það þannig, af því að hún hefur sannarlega lækkað, eins og hv. þingmaður nefndi, en hún er þrálát. Ég held að við séum að reyna að gera það sem við getum sem stjórnvald en sannarlega er það þannig, eins og hv. þingmaður þekkir, að þetta er ekki bara verk ríkisstjórnar eða bara Seðlabanka.