154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt það í dag að hv. þingmaður er ekki sammála þessari nálgun og þeirri orðræðu og það er allt í lagi. Það er bara skoðun hv. þingmanns. Ég deili ekki þeirri skoðun. Eins og ég sagði áðan þá tek ég undir það að húsnæðismarkaðurinn er of veigamikill þáttur hjá okkur í því að halda uppi verðbólgunni og ég hef sagt að við því þurfum við að bregðast. Við erum auðvitað að reyna að gera það að einhverju leyti með því að auka hér framlög í húsnæðismál en það þarf að gera betur. Það þarf líka taka á því að hér er óheilbrigður leigumarkaður eins og við þekkjum og við þurfum að gera betur þar. Hv. þingmaður talar hér um að á milli umræðna sé verið að hækka um tæpa 2 milljarða. Það er sannarlega verið að setja góða fjárhæð vegna væntanlegra kjarasamninga, ríflega 3 milljarða til viðbótar á milli, af því að það er talsverð óvissa eins og við vitum gagnvart kjarasamningum og þetta eru ákveðnar varúðarráðstafanir sem þarna eru undir. Stór hluti af því er þarna undir. Síðan erum við auðvitað alltaf að glíma við lyfjamálin. Það þekkjum við, hafandi setið mjög lengi saman í fjárlaganefnd. Það eru 1,5 milljarðar sem þar eru undir. Það eru svona örfáir þættir sem kannski eru að tikka þarna inn en þetta eru ekki, hvað getum við sagt, einhver gæluverkefni ríkisstjórnar eða meiri hlutans sem þarna eru undir, heldur bara aðstæður sem krefjast þess að við setjum inn aukna fjármuni. En sem betur fer er líka talsverð lækkun á nokkrum liðum, bæði í málefnum aldraðra og í málefnum sjúkrahúsþjónustu og öðru þar sem fyrirséð er aukin atvinnuþátttaka og auknar fjármagnstekjur og annað slíkt sem verður til þess að það eru minni útgjöld fyrir ríkið. Ég held að við getum verið sammála um það a.m.k. að þessi tæplega 2 milljarða hækkun er ekki vegna þess að ríkisstjórnin fór á eitthvert flug.