154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Niðurstöður PISA gefa okkur gott tækifæri til að ræða hvert við stefnum í skólamálum og sem skólasamfélag. Við viljum ná betri árangri í PISA en við náum hvorki árangri með töfralausnum né tímabundnum aðgerðum, það þarf langtímasýn. Skilaboðin úr umræðu gærdagsins eru skýr um að allir í íslenskra skólasamfélaginu líti í eigin barm; sveitarfélög, einstakir skólar, starfsmenn og foreldrar en ekki síst ríkisvaldið sem fer með forystu í skólamálum. Þó að sveitarfélögin beri ábyrgð á grunnskólunum þarf ráðuneyti menntamála að tryggja öfluga, faglega forystu og þjónusta starfsfólk sem vinnur með börnum um land allt, m.a. til að tryggja aðgang að þekkingu til starfsþróunar, námsgögnum og matstækjum.

Hér á Alþingi eru einmitt frumvörp í vinnslu sem geta leitt til mikilvægra umbóta í skólakerfinu, m.a. um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, og gleymum því ekki að árangur í námi er liður í farsæld. Það þarf að vinna að umbótum í gegnum grunn- og símenntun kennara. Það þarf að nota sérfræðiþekkinguna sem styður skólakerfið til að byggja upp einstaklinga þannig að allir nái tökum á grunnfærninni; læsi á íslensku, stærðfræði og umhverfi, undirstöðum náms. Markmið greininganna á að vera að tryggja stuðning við ólíkar námsleiðir til að allir nýti sína hæfileika til fulls. Greining má ekki í neinum tilvikum verða afsökun skólasamfélags fyrir því að einstaklingar nái ekki árangri heldur tæki fyrir einstaklinginn til að ná árangri. Hlutverk skólakerfis er að efla einstaklinga til að taka ábyrgð á eigin lífi og búa þeim jöfn tækifæri til náms. Ef líðanin er góð og grunnfærni næst fleyta þrautseigja og forvitni fólki langt.