154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ofbeldi sem fatlað fólk verður fyrir ítrekað í okkar samfélagi tekur alltaf á sig nýjar og nýjar myndir sem eru í stórfurðulegu og undarlegu formi sem enginn endir virðist vera á. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki ráða við ofbeldið og ný skýrsla sem var birt í dag sýnir að það er ekkert að breytast. Þá er fjárhagslegt ofbeldi gagnvart fötluðu fólki mjög fjölbreytt. Fatlaður einstaklingur sem hefur í nær 50 ár reynt af bestu getu að tóra í fátækt eða jafnvel sárafátækt á lífeyrislaunum í almannatryggingakerfinu og lifað það af, er síðan refsað fyrir það að verða 67 ára með grófu fjárhagslegu ofbeldi með því að ræna hann um 20.000 kr. á mánuði eftir skatt. Hvað gerði þessi fatlaði einstaklingur af sér til þess að verða fyrir svona ómannúðlegri meðferð? Jú, honum tókst að lifa af í meira en hálfan áratug í fátækt með fötlun sinni. Er þess vegna verið að refsa honum svona illa fjárhagslega?

Hvað er að ykkur í fjórflokkunum sem hafið skipst á að vera saman í ríkisstjórn og hafið komið á þessu óréttláta, ómannúðlega, bútasaumaða, keðjuverkandi óskapnaðarkerfi með ólögum hér á Alþingi á undanförnum áratugum? Og ekki bara það heldur nært það og alið við brjóst ykkar með þessum skelfilegu afleiðingum fyrir veikt fólk. Nær 80% fatlaðs fólks lifa við félagslega einangrun með tilheyrandi andlegu og líkamlegu heilsutjóni í boði ríkisstjórnarinnar í dag og stór hópur þess hefur ekki efni á tannlækni, sjúkraþjálfun, lyfjum, læknisþjónustu eða heilsubætandi fæði, hvað þá fæði yfir höfuð vegna sárafátæktar í áratugi í ykkar boði.

Ef þið haldið í eina mínútu að hér með sé upptalið allt ofbeldi gagnvart fötluðu fólki sem viðgengst í lífi þess þá skjátlast ykkur hrapallega því ofan á allt annað bætist svo við nýtt fjárhagslegt ofbeldi sem felur í sér ótrúlega útilokun fatlaðs fólks og aldraðra frá samskiptum við Skattinn, Sjúkratryggingar, banka og island.is. Þarna er verið að útiloka úr samfélaginu um 10–15% aldraðs fólks með því að banna því að nota íslykilinn frá og með næstu áramótum. Hvers vegna? Bara af því að þið sem eruð með völdin í þessu máli teljið ykkur hafa vit fyrir þessum hópi fólks og það hafi ekkert annað val en ykkar guðlegu rafrænu skilríki. Það er gjörsamlega út í hróa hött að leggja íslykilinn niður núna um áramótin eins og ætlunin er að gera (Forseti hringir.) og á sama tíma á að troða ofan í kok á þeim sem ekki geta það að nota rafræn skilríki í síma.