154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. PISA-könnunin er eina samræmda prófið sem eftir er í landinu og sýnir skelfilegar niðurstöður. Lausnin er ekki að leggja af þetta eina samræmda próf sem eftir er heldur að taka mark á niðurstöðum þess og bregðast við þeim. Af hverju fer ólæsi vaxandi meðal ungs fólks og meðal þjóðarinnar? Eitt er að einhver brotalöm virðist vera í lestrarkennslu og mikilvægt virðist að þar séu teknar upp árangursríkari aðferðir en höfðinu ekki barið við steininn. Annað er almennt sinnuleysi um gildi lestrar og gildi menntunar almennt. Þar er mikilvægast að sitja með ólæstum börnum með bók og lesa fyrir barnið svo það myndist tenging milli bókstafa og orða snemma og bókstafirnir séu kunnuglegir frá fyrstu tíð. Ipaddar og hljóðbækur koma ekki í stað bóka. Hlustun kemur ekki í stað lestrar. Gúgl kemur ekki í stað þekkingaröflunar. Við getum öll séð fyrir okkur mynd af nútímafjölskyldu sem samanstendur kannski af fimm eða sex einstaklingum sem sitja í einu rými og grúfa sig allir ofan í símana þegjandi nema ef til vill hundurinn sem ekki hefur enn verið hlekkjaður við skjá. Hér er lykilorðið þögn. Fólk notar ekki tungumálið til samskipta sín á milli í sama mæli og það gerði nema ef til vill til að skiptast á stuttum athugasemdum. Við höfum, frú forseti, upplifað meiri breytingar hér á þjóðfélagsháttum en aðrar kynslóðir lengi og því fylgir ekki bara meiri velmegun, meiri aðgangur að upplýsingum og afþreyingu heldur líka menningarrof. Niðurstöður PISA sýna djúpstæðan samfélagslegan vanda.