154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mikið hvernig við högum samskiptum ríkisins og þriðja geirans og það þarf að gera á nokkra vegu. Þar sem þriðji geirinn er með sínu einkaframtaki eða sjálfboðaliðastarfi, af eigin krafti og eigin mætti að byggja sér upp starfsaðstöðu er ómögulegt að við séum að íþyngja honum með opinberum álögum eins og virðisaukaskatti og öðru slíku. Eins og ég nefndi í ræðu minni þurfum við einhvern veginn að finna leiðir til að greiða það til baka og að það sé þá í því ljósi að þau séu að vinna að almannaheillastarfsemi og það sé ekki þannig að þau fái það eitthvað umfram fyrirtæki sem þau eru í samkeppni við. Það er munurinn þar á milli.

Svo held ég að hið opinbera ætti að auka samningagerð við þriðja geirann, eins og SÁÁ, að það sé bara vel skilgreint til hvers er ætlast og þau fái þá greitt fyrir það, í staðinn fyrir að hafa einhverjar ríkisstofnanir í því eða hafa bara þjónustuna ekki til staðar. Það er viss kostnaður við að hafa ekki þjónustuna til staðar. Þannig að það er hægt að gera samning við íþróttafélögin og björgunarsveitirnar. Gott dæmi um það er samningur við björgunarsveitirnar um að við borgum helminginn í endurnýjun á björgunarskipaflotanum sem dregur mjög mikið úr fjárfestingarþörf hins opinbera varðandi björgunargetu við strendur landsins og við mönnun og annað slíkt í því. Þetta er hægt að horfa á þegar kemur að SÁÁ og fleirum, að gera aukna þjónustusamninga þarna á milli þannig að það sé skýrt hvert hlutverkið er, til hvers er ætlast og eftir hvaða gæðaviðmiðum er unnið.