154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mjög svo áhugaverðu spurningar. Rétt til að loka á þetta með þriðja geirann þá er kannski fyrsta skrefið í heildrænu nálguninni að stjórnvöld ákveði að taka þriðja geirann alvarlega og gangi til samninga en að ekki sé alltaf verið að ræða einstaka félag inni í hverju ráðuneyti einhvern veginn og heildaryfirsýn sé engin og ekki verið að nýta þetta nóg. Varðandi Isavia þá átta ég mig á því að Isavia er í augum fólks mjög mikilvægt innviðafyrirtæki sem margir halda að sé í einokunarstöðu. Þá vil ég benda á að Isavia á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og flugturninn og þau mannvirki en ekki flugbrautirnar og það á enga flugbraut á Íslandi. Það þjónustar hins vegar innanlandsflugvallakerfið, sem ég tel að rangt. Ég held við eigum að fela sveitarfélögunum og jafnvel einstaka fyrirtækjum að reka innanlandsflugvallakerfið þannig að það verði einhver samkeppni um notkun á því og þau fari í skapandi hugsun um hvernig hægt sé að nýta það og auka ferðaþjónustu og notkun innanlandsflugvallakerfisins og hvernig hægt sé að þjónusta það á hagkvæmari hátt og annað slíkt. Ég held að það sé miklu skynsamlegra. Ég sé fyrir mér að selja allt að 50% í Isavia, ekki allan hlutinn heldur bara að losa um allt að 100 milljarða. Við myndum þá enn þá hafa meirihlutastjórn af því að þarna er flugumferðarstjórn og samspil við flugbrautirnar og annað slíkt. En við fengjum fagfjárfesta inn vegna þess að við verðum að athuga það að Isavia á bara flugvöll fyrir utan flugbrautirnar og þar er samkeppni um hvort það eigi að vera svona „hub“ í Glasgow eða á Írlandi eða einhvers staðar annars staðar í Evrópu. Þannig að þarna fengjum við fagfjárfesta inn, eins og 80% af flugvöllum í Evrópu eru rekin, þannig að við fengjum þá fjármuni í mikilvæga aðra innviði, (Forseti hringir.) hefðum enn þá stjórn þarna og flugvöllurinn myndi halda áfram að byggjast upp.