154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú fjárlögin í 2. umræðu og satt best að segja hélt ég þegar þetta fjárlagafrumvarp leit dagsins ljós að þetta yrðu fjárlög sem myndu raunverulega bregðast við stöðunni eins og hún er og blasir við íslenskum heimilum og minni fyrirtækjum í dag. Kannski er það misskilningur af minni hálfu að halda þó uppi þeim vonum og væntingum til þeirra sem eru í ríkisstjórn, reynslumikils fólks sem er búið að vera lengi í ríkisstjórn. Ég hélt satt best að segja að þau væru enn frekar og betur en áður með puttann á púlsinum og skynjuðu það sem er að gerast úti í samfélaginu. En stóra myndin er sú að við erum með ríkisstjórn núna sem enn og aftur eyðir um efni fram, er enn og aftur að skila fjárlögum fyrir ríkissjóð með halla, ekki bara í ár, ekki bara á síðasta ári, ekki bara þar áður heldur löngu fyrir Covid. Löngu fyrir Covid var þessi ríkisstjórn byrjuð að eyða um efni fram og hún ætlar að gera það og senda reikninginn ekki bara til næstu ríkisstjórnar að leysa verkefnið heldur til næstu kynslóða.

Það er áhyggjuefni að þau hlusta einmitt ekki á það sem er úti í samfélaginu í dag, þ.e. þessi köll, þessi oft sáru köll sem koma frá fólki, frá venjulegum heimilum sem eru að reyna að forgangsraða hjá sér, eru að taka samtalið heima fyrir um hvernig þau hafi efni á því að kaupa jólagjafir, halda jól, ná endum saman þegar lánin hafa hækkað eins og raun ber vitni. Þau þora og verða að taka þessu erfiðu samtöl um hvernig þau ætli einfaldlega að halda áfram. Það hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki gert. Þessi fjárlög eru mjög tær birtingarmynd þess að þau hafa ekki gert það, tekið þessi erfiðu samtöl sem þarf að taka við ríkisstjórnarborðið — ég hef setið þar nokkrum sinnum og það eru samtöl sem einmitt fylgja þeirri ábyrgð að vera í pólitík. Það er ekkert auðveldara en að vera í pólitík og taka engar ákvarðanir, bara sigla, reyna að vona hið besta, krossleggja fingur og vona að ekkert gerist, taka ekki neinar ákvarðanir. Við í Viðreisn höfum grátbeðið ríkisstjórnina, ekki bara í tengslum við efnahagsstjórnina og rekstur ríkissjóðs heldur í mörgum öðrum málum: Segið okkur bara já eða nei, takið afstöðu en ekki humma stór og mikilvæg mál fram af ykkur eins og við höfum m.a. bent á; orkumálin, innviðauppbyggingu o.s.frv. Ég veit það og maður sér það á öllu að ríkisstjórnin hefur a.m.k. ekki klárað samtölin. Samt getur vel verið að hún hafi tekið þau en hún klárar þau ekki. Fyrir vikið erum við með fjárlög sem taka ekki á þeim vanda sem nú blasir við.

Seðlabanki Íslands hefur sagt: Þetta eru svona hlutlaus fjárlög. Ég ætla bara að fá að leyfa mér að gagnrýna Seðlabankann. Á undanförnum árum hefur hann frekar verið í klappliði ríkisstjórnarinnar að því leytinu til að það hefur ekki mátt gagnrýna ríkisstjórnina mikið fyrir þetta aðhaldsleysi. Oft finnst mér eins og við í Viðreisn, jú og Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og fleiri aðilar, höfum verið hrópandinn í eyðimörkinni með það að ríkisstjórnin sé ekki að sinna sinni efnahagsstjórnun og vinna með hagstjórninni annars staðar í samfélaginu, eins og Seðlabankanum. Mér hefur þótt Seðlabankinn allt of linur við að benda á að ríkisstjórnin hefði átt að vera mun ákveðnari í því að beita sínu aðhaldshlutverki betur. Þess vegna erum við með hlutlaus fjárlög eins og Seðlabanki Íslands hefur bent á. Þau eru ekki að vinna gegn því ástandi sem nú er; 8% verðbólga, 9,25% stýrivextir, húsnæðislánavextir í kringum 11%.

Við í Viðreisn erum búin að tala um þetta. Nú er þessi ríkisstjórn búin að vera við völd í vel yfir sex ár og við vöruðum við þessu strax í upphafi af því að við vorum einmitt hrædd við nákvæmlega þessa stöðu sem upp er komin í samfélaginu. Við gætum sagt: Þetta er nú ekkert einsdæmi. Nei, við getum ekki sagt það. Þau geta ekki lengur sagt: Það er verðbólga út um allt í Evrópu. Verðbólgan er farin niður í okkar nágrannaríkjum og þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, eins og í Danmörku. Vextir í Færeyjum eru í kringum 4% — 9,25% hér. Við höfum bent á Færeyjar, 55.000 manna land með fábreytta atvinnuvegi, fábreyttari heldur en við Íslendingar erum með í dag, svipað og við vorum með hér á árum áður, og þau eru bundin með sinn gjaldmiðil við dönsku krónuna, sem síðan er aftur bundin við evruna, af því að þau vilja fyrirsjáanleika, stöðugleika. Þau vilja ekki alltaf stofna heimilunum og minni fyrirtækjum í hættu með reglulegu millibili.

Ábyrg efnahagsstjórn, það er það sem ríkisstjórnarflokkarnir, og reyndar allir gömlu flokkarnir, hafa oft sagt; þetta snýst bara um ábyrga efnahagsstjórn. Þess vegna erum við ekkert að ræða stórar kerfisbreytingar eins og að taka upp nýjan gjaldmiðil, þetta snýst bara um ábyrga efnahagsstjórnun. Ég vil leyfa mér að vitna í forstjóra fyrirtækis hér í bænum sem segir: Þorgerður, ég er bara búinn að fá nóg af þessu tali um ábyrga efnahagsstjórn. Ég er búinn að heyra þetta í 40 ár og aldrei gengur það. Hvenær ætlar þetta fólk sem þú vinnur með á Alþingi að vakna? Það er nákvæmlega þannig. Það er okkar ábyrgðarhlutverk í Viðreisn að halda fólki við efnið. Sumir hafa yfirgefið það hlutverk, gott og vel, við vonum að flokkur eins og Samfylkingin komi hingað aftur og taki undir það með okkur að þetta sé réttlætismál. Að viðhalda íslensku krónunni er ávísun á óréttlæti, er ávísun á það að við sendum alltaf reikninginn á heimilin, á litlu og meðalstóru fyrirtækin, aftur og aftur. Fyrir okkur er það stóra málið að koma einfaldlega vitinu fyrir þingheim og fá fólk til að skilja af hverju við erum að þessu. Þetta eru almannahagsmunir og þarna eru raunverulegir almannahagsmunir framar sérhagsmunum sem verða að ganga fyrir. Það er nákvæmlega þannig sem við í Viðreisn tölum. Við bendum á þau mál þar sem við viljum og tölum fyrir því að almannahagsmunir gangi fyrir.

Við fórum í kosningar á sínum tíma, 2016, og vorum með ákveðnar lausnir varðandi gjaldmiðilinn af því að á endanum er stóra myndin alltaf sú að gjaldmiðillinn er þessi þungi erfiði baggi sem er alltaf þessi þunga keðja sem er alltaf hnýtt og sett utan um herðar heimilanna. Við bentum á þetta í kosningunum 2017 og aftur 2021. Hluti af því að við viljum halda áfram með þessa umræðu, og það vita það allir, er að við viljum einmitt fá þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum að halda áfram með aðildarviðræðurnar til þess að þjóðin sjálf fái að ákveða hvort við eigum að gera það. Vonandi segir okkar ástkæra þjóð já og þegar hún er búin að gera það sjáum við svart á hvítu hvaða þýðingu það hefur að taka upp stöðugan gjaldmiðil, fyrirsjáanlegan gjaldmiðil svo að börnin okkar sem eru að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð þurfi ekki að borga hana þrisvar sinnum heldur kannski bara einu og hálfu sinni eins og gert er í Danmörku, í Þýskalandi, í Evrópusambandinu og víðar í þeim samfélögum sem hafa stöðugan gjaldmiðil, að við sjáum það svart á hvítu hvað samkeppni hefur mikilvæg áhrif á íslenskt samfélag.

Hér áðan flutti formaður Flokks fólksins fína ræðu, m.a. um þessa fákeppni á bankamarkaði. Af hverju er fákeppni á bankamarkaði? Þeir erlendu aðilar sem hafa jafnvel hugsað sér að fjárfesta hér í íslensku bönkunum hafa margoft sagt að á endanum geri þeir það ekki af því að við erum með íslensku krónuna, við erum ekki með fyrirsjáanlegan, stöðugan gjaldmiðil. Fyrir vikið eru ekki heldur að koma hingað erlendir bankar til að ýta undir samkeppni. Íslenska krónan viðheldur fákeppni á bankamarkaði, fákeppni á tryggingamarkaði, fákeppni á smásölumarkaði, fákeppni á olíumarkaði. Hverjir eru það á endanum sem alltaf borga brúsann í fákeppni? Við fáum að sjá það ítrekað, aftur og aftur, þ.e. ef Samkeppniseftirlitið fær að vera í friði og fær nægilegt fjármagn til að sinna sínu eftirlitshlutverki þá fáum við að sjá að það eru á endanum alltaf neytendur sem borga brúsann. Þannig á það ekki að vera í heilbrigðu samfélagi.

Við höfum þess vegna bæði rætt þetta í kosningum en líka bent á þennan ótta okkar þegar þessi ríkisstjórnin varð til árið 2017 — skiljanlega, það var búið að vera ákveðið uppnám í íslenskri pólitík og þetta var ákveðin lausn á sínum tíma. Við vöruðum samt við því að það að þessir jaðarflokkar kæmu saman og einn sem getur verið svona beggja blands myndi hafa það í för með sér að það myndu bara allir fá allt, það yrði ekkert aðhald, engin bremsa, engar hömlur. Hringlandinn líka; við sjáum það bara á því hvernig þau hafa skipt með sér ráðherraverkum eða ráðuneytisembættum. Það var ákveðið að fjölga þeim. Við í Viðreisn höfum ítrekað bent á að það sé táknrænt, ekki bara kostnaðarsamt heldur táknrænt fyrir það hvernig ríkissjóði hefur verið stjórnað að byrja kjörtímabil á því, ekki bara að það sé búið að þenja út báknið, á ábyrgð m.a. Sjálfstæðisflokksins sem hefur greinilega strokað út úr sínum sögubókum slagorðið báknið burt, heldur ákvað ríkisstjórnin að ekki bara þenja út stjórnsýsluna og allt batteríið heldur líka að fjölga ráðherrastólum. Það er ekki bara að hún hafi veikt, að mínu mati, stjórnsýslu sem þarf að vera sterkari, hún þarf að vera stærri til að byggja upp þekkingu, stofnanaminni o.s.frv., heldur er svo allur sá kostnaður sem af því hlaust að ákveða að fara í fjölgun ráðherraembætta. Þetta var táknrænt og þetta sendi vond skilaboð út í samfélagið, út í stofnanastrúktúrinn um að það yrði ekkert aðhald heldur yrði bara gert það sem þyrfti að gera til að halda ríkisstjórninni saman, ríkisstjórnarflokkunum saman.

Ef við tökum bara síðustu ár þá var halli á síðasta ári upp á ríflega 120 milljarða, það er halli núna aftur upp á 46 milljarða. Gleymum því ekki að sá tekjuauki sem er núna, hann er fyrst og síðast af því að ríkissjóður er að tútna út vegna verðbólgu. Það er hægt að segja að þetta sé ákveðinn svona froðutekjuauki. Þetta er enginn tekjuauki sem alvörufjármálaráðherrar og ríkisstjórnir vilja byggja á til lengri tíma. Þess vegna viljum við benda á að þetta er hættulegur tekjuauki, allt að því verið að pissa í skóinn sinn þegar verið er að guma sig af því að það sé bati á milli ára — og vel að merkja, þó ekki það mikill að hægt sé að skila ríkissjóði jákvæðu megin við strikið. Og ekki tókst að selja banka þetta árið út af þeirra eigin heimatilbúna klúðri. Það klúður er dýrkeypt fyrir skattgreiðendur, það klúður er mjög dýrkeypt. Nú á að fara að selja Íslandsbanka aftur á næsta ári, það á að reyna það aftur og ákveðið fjármagn eyrnamerkt. Ég vona að það takist en við höfum bent á að til þess að það verði ákveðinn trúverðugleiki þá þarf að færa verkefnið frá ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins yfir í önnur ráðuneyti.

Það skiptir miklu máli fyrir skattgreiðendur, það skiptir máli fyrir ríkissjóð að við höldum áfram að greiða niður skuldir. Þegar vaxtagjöldin eru núna tæpir 118 milljarðar þá hljóta allir að sjá að það verður að fara að reka ríkissjóð með öðrum hætti. Þegar verið er að segja að vextir séu í þessum hæstu hæðum þá erum við um leið að segja að við ætlum að senda reikninginn, vaxtagjöldin, sem eru þetta há, á heimili landsins. Það er bara rosalega ósanngjarnt.

Ég gat um það áðan að ríkisstjórnin hefur ekki tekið þetta samtal um forgangsröðun. Ég hef rifjað upp hér í ræðustól mörg dæmi sem mér hafa verið send, aftur og aftur, alls konar dæmi; litlar fjölskyldur, þriggja manna, tveggja manna, fólk að kaupa sér fyrstu íbúð, stærri fjölskyldur, fólk með meðaltekjur. Síðasta dæmið er það sem ég fékk í síðustu viku um 53 millj. kr. óverðtryggt lán. Árið 2021 var greiðslubyrðin 203.000 kr. á mánuði. Það var 20% af ráðstöfunartekjunum. Í nóvember 2023 var afborgunin orðin 480.0000 kr., 40% af ráðstöfunartekjunum. Svo segir ríkisstjórnin: Nei, við ætlum ekkert að gera fyrir ykkur, við treystum okkur ekki til að forgangsraða, við ætlum að skila hlutlausum fjárlögum, bara hlutlausum fjárlögum. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, virðulegi forseti.

Bara þannig að það sé sagt alveg skýrt: Þetta eru ekki fjárlög sem Viðreisn hefði lagt fram. Við erum í þessi ár búin að sýna fram á að við hefðum byggt undir þessi fjárlög með allt öðrum hætti. Þýðir það að í okkar aðhaldskröfum — af því að við höfum lagt fram, m.a. á síðasta ári, tillögur til aðhalds, tillögur til tekjuauka, við lögðum m.a. fram tillögur um kolefnisgjöld, hækkun á auðlindagjöldum og fleira, fyrir utan aðhald í ríkisrekstri — þýðir það að við ætlum ekki að hafa skoðun á útgjöldum ríkissjóðs? Guð forði mér frá því. En vel að merkja, við getum það alveg því að þetta eru ekki okkar fjárlög. Við hefðum ekki byggt þau upp svona.

Ég ætla að hafa skoðun á því að það þurfi að styrkja lögregluna, það þurfi að efla lögregluna sem hefur verið svelt í áraraðir, ekki verið styrkt eins og við þurfum að styrkja hana í því mikla og breytta fyrirkomulagi og vinnuumhverfi sem lögreglan starfar í dag. Þetta höfum við í Viðreisn fundið þegar við höfum farið um landið og heimsótt lögregluembættin, eins og á Austurlandi, á Suðurlandi og víðar. Þannig að ég ætla að hafa skoðun á því að það þurfi að efla lögregluembættin á landinu.

Ég ætla að hafa skoðun á því að við þurfum að taka utan um heimilin með sértækum tímabundnum aðgerðum alveg eins og við gerðum þegar hamfarirnar með Covid brustu á. Hvað gerðum við þá? Réttilega slógum við ákveðna skjaldborg um fyrirtækin, um ferðaþjónustuna, til þess að bjarga því sem þá var, til þess að þau gætu haldið sjó þannig að þau gætu staðið sterkari þegar sá ólgusjór sem fylgdi faraldrinum væri liðinn hjá. Það er nákvæmlega það sem heimili íslenska lág- og millitekjuhópsins þurfa á að halda í dag. Það er út af því sem við í Viðreisn segjum: Við erum með íslensku krónuna núna og þá verðum við einfaldlega að horfast í augu við tímabundnar skammtímaaðgerðir til styrktar heimilunum, til þess að við getum náð að taka utan um þau.

Ég ætla líka að hafa skoðanir á því sem við höfum ítrekað barist fyrir, að niðurgreiða sálfræðiþjónustu hér á Íslandi. Við samþykktum lög, flokkarnir allir, hver einn og einasti flokkur, en samt hefur ríkisstjórnin ekkert gert með þetta að ráði. Þá velti ég fyrir mér: Erum við dottin inn í þessa ákveðnu sýndarmennsku, að það er samþykkt en síðan er ekkert gert með þetta? Og hverjir eru það sem þurfa á þeim stuðningi að halda að efla þær forvarnir sem betri aðgangur að sálfræðiþjónustu felur í sér? Það er einmitt unga fólkið. Ég fer í framhaldsskóla, ég fer í háskólana og þau segja: Heyrðu, við höfum ekki efni á því að borga 20.000 kall í tíu skipti. Það er ekki bara verið að fara í eitt og tvö skipti heldur 6–10, jafnvel fleiri, og þau hafa samviskubit yfir því að leita til foreldranna með þennan kostnað. Og hvað leiðir þetta af sér? Ekki er farið og leitað sér aðstoðar þegar að þessu kemur. Ég ætla að hafa skoðanir á því að við þurfum að tala fyrir og berjast fyrir því að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd. Þetta var eitt af okkar kjarnamálum. Fyrir ríflega þremur árum fengum við það samþykkt en því miður hefur ríkisstjórnin ekki fylgt því eftir.

Ég ætla líka að hafa skoðanir á því og um leið hrósa því að við höfum horfið frá þeirri stefnu sem var á síðasta kjörtímabili í heilbrigðismálum, m.a. þegar kemur að biðlistum. Ég ætla að leyfa mér að hafa skoðanir á því að við þurfum m.a. að létta álaginu af Landspítalanum með því að leita til sjálfstætt starfandi aðila til að reyna að fækka á biðlistum. Það segir svo mikið um heilbrigðisstýringu og stefnu þessarar ríkisstjórnar að það gengur lítið á biðlistana. Það hefur fjölgað alls staðar á biðlistum. Það er hægt að kalla þessa ríkisstjórn biðlistaríkisstjórnina. Frá því að ríkisstjórnin tók til starfa hefur fjölgað á biðlistum, nokkurn veginn sama hvar borið er niður. Ég talaði um sálfræðiþjónustuna áðan; einn partur, ágætt dæmi um hvað hefur fjölgað. Auðvitað hefur maður skoðanir á þessu.

Ég hef skoðanir á því að það þurfi að fara líka í ákveðna tekjuauka. Ég hef talað um auðlindagjöldin. Mér heyrist líka að við séum að verða eini flokkurinn sem talar fyrir því að fara þá leið sem var í rauninni annar af tveimur valkostum sem voru settir fram í auðlindanefndinni árið 2000 undir forystu Jóhannesar Nordals, að fara markaðsleið með tímabundnum samningum, að gera tímabundna samninga með auðlindagjaldið. Síðan hefur komið í ljós að hann gat ekki sagt það þá en hann sagði það í mjög merkri bók sinni að hann hefði talið að skynsamlegasta leiðin hefði verið að fara markaðsleiðina. Ég ætla að taka undir það. Ég held að það sé hluti af því sem við í Viðreisn tölum fyrir, við, þessi Evrópusinnaði frjálslyndi flokkur sem trúir á markaðslausnir, trúir á að það skipti máli að búa í réttlátu samfélagi, vera í flokki sem talar fyrir réttlátu samfélagi, berst gegn óréttlæti. Þá er einmitt leið okkar þegar kemur að sjávarútvegsmálum í þá veru að við eigum að fara markaðsleiðina og leyfa markaðnum að ráða. Það eru mjög miklar líkur á að það feli í sér mjög aukin auðlindagjöld. Mér sýnist það á öllu þegar skoðað er og rýnt í flest gögnin að sjávarútvegurinn sé tilbúinn að greiða heilmikið fyrir það að vera með þennan aðgang, þennan einkarétt á veiðum við Íslandsstrendur. Er ég með þessu að tala niður sjávarútveginn? Aldeilis ekki. Við í Viðreisn erum ítrekað búin að leggja fram tillögur sem fela í sér kröfur um aukið gegnsæi, kröfur um hámarkshlutdeild í sjávarútvegi, kröfur um gegnsæi í eignarhaldi. Við höfum líka sagt mjög skýrt: Já, við þurfum aukin auðlindagjöld. En við höfum líka sagt mjög skýrt að við viljum alls ekki hverfa frá því að miða við kvótakerfið, svo það orð sé notað, sem miðar við vísindalega ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun, og við þurfum að passa upp á það. Þar er framleiðnin ágæt.

Það sem veldur hins vegar áhyggjum þegar við skoðum fjárlögin, af því að það er kjarni þessarar umræðu, er að sjá, og þess vegna er ég kannski meira óttaslegin vegna næstu ára, að við erum ekki bara með verðbólgu og þessa háu vexti sem getur orðið erfiður vítahringur fyrir venjuleg heimili á Íslandi — við sjáum það alveg að það eru önnur heimili sem lifa bara undir öðrum gjaldmiðli og stærri atvinnuvegirnir lifa í evrukerfinu eða dollarakerfinu eða hvað það er en ég er hrædd um þann hóp sem þarf að standa undir hagstjórn og vaxtaákvörðunum Seðlabankans því að það er ekki nema takmarkaður hópur sem vaxtatækið í rauninni bítur á í íslensku samfélagi — heldur er ég er líka hrædd um að við séum að horfa upp á tímabil minnkandi framleiðni. Það eru augljós merki þess að hagvöxtur sé að verða lítill. Hagvöxtur á mann innan OECD-ríkjanna er reyndar búinn að vera einn sá minnsti hér á Íslandi af því að okkur hefur fjölgað það mikið að hagvöxtur á mann, þar erum við ekki nema bara að skrapa botninn miðað við viðmiðunarlöndin innan OECD og það eru vond tíðindi.

Það eru enn verri tíðindi, af því að þetta tengist allt, að þessi ríkisstjórn — og við erum búin að hlusta hér á, m.a. í síðustu viku, ágætisræður, m.a. frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, varðandi orkumál — hefur ekki tekið mikilvægar ákvarðanir þegar kemur að orkumálum. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera með orkumálin í meira eða minna tíu ár og það þokast ekkert. Núna er það þessi ríkisstjórn og við skulum ekki gleyma því að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er mjög sérstakt ákvæði þar sem stendur m.a. að forsætisráðherra verði að samþykkja ákvarðanir í orkumálum sem falla undir orkumálaráðherra. Það segir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn gekk inn í þessa ríkisstjórn vitandi að ekkert yrði gert í orkumálum. Með þeim stjórnarsáttmála sem samþykktur var 2021 samþykkti hann að fela í rauninni hinum stjórnarflokkunum allt neitunarvald.

Ég hef áhyggjur af því að við erum ekki að undirbúa okkur undir framtíðina. Þið vitið, ágæti þingheimur, hver mín skoðun er varðandi krónuna og varðandi það af hverju við þurfum að taka upp erlendan gjaldmiðil. Það er út af samkeppnishæfni, af því að við verðum að auka framleiðni. Og ákvarðanir sem við berum sjálf ábyrgð á erum við ekki að taka. Það er hættulegt að við erum ekki að standa okkur í orkumálum. Við erum ekki að taka þær ákvarðanir að við getum staðið undir öllum þeim kröfum sem ég vona að fulltrúar Íslands á COP-ráðstefnunni setji fram. Ég vona að ekki verði sagt eitthvað allt annað úti í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og svo komið hingað heim og þá sé ekki hægt að gera það af því að við erum ekki með verkfærin til þess.

Við erum ekki með ríkisstjórn sem tekur þær pólitísku ákvarðanir sem við þurfum á að halda til þess að halda áfram með íslenskt samfélag, til þess að ýta undir hagvöxt, ýta undir framleiðni, til þess m.a. að aðilar vinnumarkaðarins geti samið um sómasamleg laun, að framleiðnin verði umfram það sem kaupkröfur miðast við. Við vitum það alveg að ef launahækkanir verða umfram framleiðnivöxt þá mun það skila sér í verðbólgu og þenslu. Þess vegna verða stjórnmálin að axla þá ábyrgð að leita allra leiða til að ýta undir framleiðni og ýta undir hagvöxt. Það þýðir að við eigum að skoða inn í alla skápa hjá okkur, líka orkuskápinn, innviðahlutann — allt í þessu.

Ég vil fagna því sem hefur komið fram hjá verkalýðshreyfingunni um að þau séu tilbúin til að skoða gjaldmiðilinn út af því óréttlæti sem þau sjá að íslenska krónan er fyrir þeirra umbjóðendur. Að sjálfsögðu eiga Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórnin að taka undir eðlilega kröfu forystufólks innan verkalýðshreyfingarinnar um að fá erlenda aðila til að skoða gjaldmiðilinn og hvaða áhrif það hefði að taka upp nýjan. Ég vil líka benda á grein sænskra sérfræðinga sem þeir skiluðu fyrir fimm árum með þeirri skýrslu sem Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Illugi Gunnarsson, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, skiluðu. Maður sér það náttúrlega að þetta sómafólk, sem við berum virðingu fyrir, er ekkert óháður aðili. Þau fengu fyrirmæli um að þau mættu ekki skoða annað heldur en íslensku krónuna. Þau máttu ekki skoða aðra gjaldmiðla. Það voru fyrirmælin. En sænsku sérfræðingarnir vógu þarna á móti því og þeir sögðu: Það er augljós hagkvæmni. Það er augljóst að íslenskt samfélag verður samkeppnishæfara. Framleiðni mun aukast og samfélagið mun verða betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að skipta um gjaldmiðil.

Þetta hefur komið fram í skýrslum erlendra sérfræðinga og ég tel sjálfsagt að það verði orðið við þessari ósk verkalýðshreyfingarinnar og það verði unnið með hana. Ég skora líka á Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð að gera allt sem í þeirra valdi stendur. Þau benda réttilega á að við erum á botninum í erlendum könnunum. Mig minnir að það séu m.a. rannsóknir frá Sviss sem sýna að við séum á botninum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að samkeppnisskilyrðum fyrir alþjóðleg viðskipti og erlendar fjárfestingar, að þar skröpum við botninn. Þetta hafa Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins ítrekað bent á, fyrir utan að nákvæmlega þessir tveir aðilar eru alltaf að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðhaldsleysi í fjármálum. Þá hljóta þessir aðilar líka að velta við hverjum steini til að ýta undir framleiðni. Þau geta ekki leyft sér að ýta umræðunni um gjaldmiðilinn út af borðinu, alltaf og endurtekið, til að þjóna einhverjum sérhagsmunum, að einhverju leyti innan þeirra eigin raða en líka sérhagsmunum þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn. Mér finnst það bara ekki boðlegt og ég vona að við sjáum fram á að ný forysta innan Samtaka atvinnulífsins leiði það af sér að við höldum eitthvað áfram, að við þokumst eitthvað áfram þegar kemur að þessu.

Það er nú margt sem ég myndi gjarnan vilja koma inn á en ég fer þá bara í aðra ræðu. Ég hef aðeins verið að dvelja við krónuna og ég vona að það verði ekki þannig að sá þáttur sem var í Ríkisútvarpinu í gær, Kveikur, og skilaboðin sem voru þar — þar sem þrír aðilar voru að fjalla um krónuna, m.a. einn sem var frekar andsnúinn, svo Neytendasamtökin, svo var hlutlaus aðili, myndi ég halda, og síðan hagfræðingur sem benti á þessa augljósu galla íslensku krónunnar — að þessi viðbrögð m.a. Sjálfstæðisflokksins gagnvart Ríkisútvarpinu verði ekki til þess að hér verði ekki áfram gagnrýnir fjölmiðlar. Það má ekki verða þannig að við verðum bara með einn miðil sem er þóknanlegur ríkisstjórnarflokkunum heldur verðum við að fá að upplifa umræðu eins og var í gær, upplýsingar um það sem skiptir þjóðina öllu máli. Þjóðin finnur svo sannarlega fyrir því í dag og er að spyrja sig spurninga: Þurfum við á þessu að halda? Fyrst Færeyingar geta þetta, af hverju geta Íslendingar það ekki? Fyrst aðrar þjóðir geta verið með ábyrga, stöðuga hagstjórn, lága húsnæðisvexti, minni verðbólgu, af hverju er ekki hægt að bjóða íslenskum heimilum upp á það — aftur og aftur?

Það sem ég vildi sagt hafa og tengja þessu er að við vitum það að ríkisstjórnin mun eflaust og ég trúi ekki öðru en að hún hugsi mjög vel um sína aðkomu að kjarasamningum. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ríkisstjórnin verður að koma að kjarasamningum með einum eða öðrum hætti. Það hefur m.a. verið bent á þjóðarsáttina á sínum tíma. Þjóðarsáttin var mjög merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún átti sér dálítinn aðdraganda. Það voru gerðir þeirra tíma lífskjarasamningar, að mig minnir 1986, sem Guðmundur jaki, Þröstur Ólafsson og fleiri komu að. Það var svona ákveðinn aðdragandi. Síðan er þjóðarsáttin gerð 1990 og það eru náttúrlega stólpar sem koma að því að gera þá merkilegu þjóðarsátt sem þá var; Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur jaki og Ásmundur Stefánsson. Ég vil líka draga fram hvert hlutverk ríkisstjórnarinnar var. Hún spilaði kannski ekkert endilega risastórt hlutverk en hún spilaði mikilvægt hlutverk. Krafa verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, sem þá var Vinnuveitendasambandið, var gengisstöðugleiki. Það var hornsteinninn í aðkomu ríkisstjórnarinnar. Gengisstöðugleikinn fólst í því að ríkisstjórnin skuldbatt sig m.a. til þess að halda niðri skattahækkunum sem höfðu verið boðaðar, halda gjaldskrárhækkunum niðri. Það var þá og ég er ekki að segja að það eigi að gera það núna en þess tíma ákvörðun var að halda búvöruverði niðri. Skilaboðin voru þau að ríkisstjórnin ætti að gæta aðhalds í fjárlögum og gera allt sem í hennar valdi stæði til að halda genginu stöðugu. Það er auðvitað eftirminnilegt viðtalið á sínum tíma við Guðmund jaka sem hefur verið flutt ítrekað þar sem hann sagði — hvort hann hafi orðað það svo: Guð hjálpi þeim, ríkisstjórninni og fyrirtækjum og öðrum, sem munu ekki standa sig af því að verkalýðshreyfingin mun hafa eftirlit með þessu.

Ég er að segja að ríkisstjórnin verður að ganga á undan með góðu fordæmi og gera allt sem í hennar valdi stendur til að stoppa allar hækkanir. Þá er komið hér og sagt: Já, hvað með sveitarfélögin, eru þau ekki að hækka? Ákvarðanir sveitarfélaga eru m.a. teknar í skjóli þess sem ríkisstjórnin hefur ákveðið. Ég held að hérna þurfum við samtakamátt hins opinbera sem verður að koma inn í slíkt umhverfi og gera allt sem í valdi þess stendur til að halda genginu stöðugu. Að halda genginu stöðugu þýðir ekki stóraukin útgjöld. Við verðum að gera allt, annars vegar til þess að halda utan um, eins og ég gat um áðan, heimilin í landinu, lág- og millitekjuhópana sem endalaust eru að borga byrðarnar af íslensku krónunni, verðbólgu og vöxtum, óstjórn ríkisstjórnarinnar, en við verðum líka að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðugan gjaldmiðil. Í því felast mestu kjarabæturnar fyrir íslenskan almenning, að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vinna bug á verðbólgunni, til að fara niður með vextina.

Ég vona að það verði ekki þannig að ríkisvaldið verði látið borga launakostnað fyrirtækja. Ég vona að það endi ekki þannig. Ég ætla að binda vonir við að ríkisstjórnin sýni þá skynsemi að koma inn í kjarasamninga með ákveðna tóna sem fela það í sér að hún muni sjá til þess að fjárlög og fjáraukalög — efnahagsstjórnin sé þannig að hún styðji hagstjórnina, m.a. Seðlabankann og aðila vinnumarkaðarins, í því að halda verðbólgu niðri, reyna að koma böndum á þensluna til að reyna að lækka vexti. Aðilar vinnumarkaðarins eru mjög meðvitaðir um þá ábyrgð sem felst í því að semja um kaup og kjör á íslenskum vinnumarkaði. Þeir eru það. Við getum tekið umræðuna um hið norræna vinnumarkaðsmódel síðar, við verðum að fara að vinna að því. Fyrsta skrefið í þá veru er m.a. að við höfum hér ríkisstjórn sem raunverulega vinnur að stöðugleika í samfélaginu og vinnur með atvinnulífinu og vinnur með Seðlabankanum í því að taka niður verðbólguna. Eins og þessi fjárlög líta út þá eru þau ekki beint að gera það. Og á hverjum bitnar það? Enn og aftur á almenningi í landinu og ég held að það sé komið nóg af því.